132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:40]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri að fá að vera hér með hv. þingmönnum við 3. umr. og eiga orðastað við þá þingmenn sem hér eru. Mér finnst aftur á móti miður að hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson sem ég ætlaði líka að eiga orðastað við er ekki staddur hér en hann er í Washington. Þar er hann eflaust að sinna brýnum verkefnum fyrir land og þjóð en það gerum við sem störfum á vegum hins opinbera, við sinnum þeim verkefnum sem okkur ber skylda til. Þannig að ég ætla ekki fara meira út í þá sálma.

En svo aftur sé komið að verkefnum hér heima fyrir sem þingmenn hafa verið að fara yfir þá finnst mér það er afskaplega ánægjulegt hversu þingmenn hafa bæði mikinn áhuga og metnað fyrir hönd þessa mikilvæga málaflokks sem við ræðum nú í tengslum við fjárlög, þ.e. menningu okkar og menntakerfið allt í einni heild.

Ég verð þó að viðurkenna, af því ég var að hlusta á hv. þingmenn hér áðan, að þegar mér varð litið á fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út núna og síðan á breytinguna sem hefur átt sér stað á milli umræðna þá er eins og þingmenn hafi ekki tekið eftir því að það er meira en 13% aukning til þessa málaflokks. Halda menn bara að 13% aukningu, sem er langmesta aukningin til eins málaflokks af öllum í fjárlagafrumvarpinu, sé bara stungið undir stól? Auðvitað fer þetta fjármagn, þessi gríðarlega aukning til menntamála. Og mér finnst allt í lagi þótt ég klifi á þeirri staðreynd enn og aftur að við erum að stórauka framlög til menntamála og það er staðfest með rausnarlegum hætti í þessu frumvarpi. Ég get alveg sagt eins og hv. þingmaður sagði að ég gerði alltaf, að ég vil sjá meira fé til allra málaflokka innan menntamálanna, til hvaða skólastigs sem er, hvort sem það er framhaldsskólinn eða háskólinn, og ég vil sjá meira fé til menningarmála. Ég vil sjá meira fjármagni varið til þessara málaflokka því þetta er það sem að mínu mati framtíðin byggir á.

En við megum heldur ekki loka augunum fyrir því sem vel er gert. Þetta er sá málaflokkur fjárlagafrumvarpsins sem framlög eru aukin langmest til, ég vil að menn átti sig á því. Á síðustu árum höfum við að stóraukið framlög til menntamála, þá sérstaklega til framhalds- og háskólamála. Vissulega er það rétt sem menn hafa verið að nefna um tölurnar frá OECD, þær fyrstu voru frá 2000 en þar var miðað við 0,8% miðað við landsframleiðslu. En tölurnar hækkuðu milli ára, fóru upp í 1,1%. Það er gríðarleg aukning til eins málaflokks. Í dag er ég sannfærð um, ef við lítum til framlaganna eins og þau eru til háskólamála í dag þá erum við komin yfir það sem við erum að tala um meðaltal OECD-ríkjanna. Við erum komin þangað. Svona hlutir gerast ekki af sjálfu sér, við þurfum að auka þessi framlög meðvitað á næstu árum, það höfum við verið að gera á undanförnum árum og við ætlum að halda því áfram. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa tekið hér til máls, við ætlum ekki að vera í neinu meðaltali, við stefnum á toppinn og þar ætlum við okkur að vera. En það tekur tíma og við höfum ekki farið sömu leiðir. Aðrar þjóðir hafa líka fjölgað nemendum. Við höfum reyndar fjölgað þeim meira en aðrar þjóðir, við höfum verið með þreföldun á nemendafjölda innan háskólanna meðan aðrar þjóðir glíma við tæplega tvöföldun. Og eins og ég kom inn á í andsvari mínu við hv. þingmann Helga Hjörvar hér fyrr í dag er ekki síst ánægjulegt að hér eykst fjöldi þeirra nemenda sem flokkast undir eldri nemendur. Það er mikið ánægjuefni að við skulum ná til þess hóps sem þarf enn frekar á aukinni menntun að halda og langar að sækja sér menntun. Ekki síst er það ánægjulegt. En við höfum ekki farið sömu leiðir og margar aðrar þjóðir, þ.e. að skera niður framlagið miðað við nemanda heldur höfum við reynt að kappkosta að láta framlögin fylgja nemendum.

En menn verða líka að hafa það hugfast að það eru ekki þannig að kostnaður aukist sjálfkrafa við fjölgun nemenda. Halda menn að 20. nemandinn sé jafndýr og 2. nemandinn í hópi? Að sjálfsögðu er það ekki þannig. Það vita það allir sem hafa eitthvert vit á rekstri að kostnaðurinn eykst ekki samhliða fjölgun nemenda og þar af leiðandi fer aukningin í fleiri þætti en eingöngu nemandafjölgunina sem slíka.

Það hefur verið komið inn á marga þætti hér og ég ætla að reyna að svara eftir bestu getu. Ef ég þekki þingmenn sem hér eru staddir rétt munu þeir vaða upp í andsvör og knýja mig nánari svara. En gott og vel, til þess er leikurinn gerður að öll sjónarmið séu dregin fram og við fáum málefnalega umræðu. Það er mikilvægt, þegar við ræðum mennta- og menningarmál, að við reynum að hefja okkur upp yfir flokkapólitík. Við verðum að sameinast um það mikilvæga verkefni, sem er markmiðið, eins og ég hef áður sagt, að verða þekkingarsamfélag í fremsta flokki árið 2010. Við erum á góðri leið. Við stöndum framar en t.d. Evrópusambandsþjóðirnar hvað varðar framlög til rannsókna og vísinda. Við höfum fyrir löngu uppfyllt þau takmörk sem þau settu sér fyrir árið 2010 hvað rannsóknir varðar. Við erum á fleygiferð með háskólana. Ég viðurkenni að við þurfum að taka á í ýmsum málum og þá ekki síst í tengslum við opinberu háskólana, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. — Ég fagna fleirum hér í þingsal.

Menn hafa rætt hér um opinberu háskólana, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Sú mikla fjölgun nemenda sem hefur átt sér stað á síðustu árum hefur ekki gerst af sjálfu sér. Við höfum verið að setja fjármagn í þessa málaflokka og ég fullyrði að þessi mikla fjölgun nemenda og aukið námsframboð er m.a. afleiðing þeirrar samkeppni sem átt hefur sér stað á síðustu árum innan menntakerfisins. Það getur vel verið að menn verði sárir þegar ég fullyrði að stjórnarandstaðan, sumir þingmanna hennar, hefur verið að agnúast út þá skóla sem kallast einkaháskólar. Sannleikanum verður hver sárreiðastur. En svona er þetta nú einu sinni. Við höfum þurft að berjast fyrir samkeppni sem hefur leitt af sér þennan aukna fjölda nemenda. Við höfum þurft að gera það samhliða því að við höfum aukið fjármagnið. En auðvitað gerist það oft í samkeppni að hún verður líka að samstarfi og samvinnu. Það sjáum við einmitt gerast nú á milli Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Það kom skýrt fram, m.a. við ræðuhöld í tengslum við Háskólann í Reykjavík, að Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík huga að nánara samstarfi t.d. hvað varðar heilbrigðisgreinar og á ýmsum sviðum, sem er mjög mikið fagnaðarefni að mínu mati. Aðalsamkeppnin, og það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni Kolbrúnu Halldórsdóttur, er vissulega út á við. En við þurfum líka, eins og komið hefur fram hér, á heilbrigðri samkeppni að halda hér innan lands. Við eigum ekkert að vera feimin við að segja það.

Háskóli Íslands er flaggskipið. Menn hafa verið að ræða á undanförnum árum að launastikan sé ekki rétt. Hún hefur að mörgu leyti verið leiðrétt með þessu fjárlagafrumvarpi. Uppbygging Háskóla Íslands heldur að sjálfsögðu áfram. Ég vil minna þingmenn á að haldið er áfram með Vísindagarðana og vonandi sjáum við fram á tillögur til frekari framfara á því sviði núna á næstu vikum. Háskólatorgið er farið af stað. Við ræddum hér í gær frumvarp varðandi Árnastofnun. Sú leið sem þar er farin mun styrkja og efla Háskóla Íslands. Hún mun undirstrika mikilvægi þeirrar stofnunar sem helstu menntastofnunar á sviði íslenskra fræða. En þegar þær stofnanir sameinast í nýju og glæsilegu húsnæði á svæðinu hjá Þjóðarbókhlöðunni mun m.a. núverandi húsnæði Árnastofnunar losna og það húsnæði mun Háskóli Íslands að sjálfsögðu fá.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um skýrslur Ríkisendurskoðunar. Ég óskaði eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar til að fara yfir fjárhagsmálefni og stjórnsýslu innan Háskóla Íslands. Þar kemur ýmislegt í ljós, m.a. um fjárframlög til háskólans. En það er athyglisvert — það kom líka fram í skýrslu frá sambandi evrópskra háskóla — að það þarf að taka á stjórnsýslunni og stjórnskipun innan háskólanna. Menn mega ekki gleyma þeim þætti. Hann er ekki síður mikilvægur en fjárhagsþátturinn. Það kemur í ljós í umræðu um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri að nauðsynlegt er að breyta stjórnskipulaginu þannig að það verði skýrara og að ábyrgð rektors verði skarpari og deildarforsetarnir hafi líka sínu veigamikla hlutverki að gegna. En spurningin er að sjálfsögðu um það hvernig þeir eru og verða skipaðir. Þetta er að sjálfsögðu allt til athugunar og á ekki að gleymast í umræðunni um þær skýrslur sem hér hefur verið komið inn á og er sjálfsagt að ræða. Ég vil einnig geta skýrslu sem var gerð að mínu frumkvæði um vísindi og rannsóknir. Þar kemur berlega í ljós að Háskóli Íslands er góður rannsóknaháskóli með merkilegt vísindastarf. Það eru einhverjir agnúar varðandi framlög og framleiðni til rannsókna en í megindráttum stendur Háskóli Íslands sig gríðarlega vel á því sviði.

Umræddar skýrslur koma sér kannski ekki alltaf vel fyrir ráðherra. Af hverju er ég að ræða þær? Af hverju var ég að biðja um að fá þær fram? Það er til að móta stefnuna enn frekar í samvinnu við Háskóla Íslands. Nú höfum við þessar skýrslur. Nú höfum við ákveðinn grunn til að byggja á sem við höfðum ekki fyrir nokkrum missirum. Ég verð að segja að sú metnaðarfulla framtíðarsýn sem núverandi rektor Háskóla Íslands hefur slær í takti við það sem ég vil gjarnan sjá. Ég heyrði til að mynda að hv. þingmaður Kolbrún Halldórsdóttir fagnaði sérstaklega því markmiði sem sett er um fjölgun doktorsnema. Að því er verið að vinna og ég vonast til að á nýju ári verði hægt að leggja fram markmið sem vísa þann veg sem við ætlum okkur að ganga hvað varðar háskóla og rannsóknir til næstu fimm ára. Það þarf að móta stefnu á grundvelli upplýsinga. Nú höfum við þær upplýsingar um Háskóla Íslands og þá er okkur ekkert að vanbúnaði að efla hann enn frekar. Við höfum verið að gera það, ætlum okkur að gera það og munum gera það.

Mér verður tíðrætt um samkeppnina innan lands, öðrum er í nöp við hana. En mér finnst erfitt að heyra hv. þingmenn kalla einstaka skóla, það vill svo til að það eru skólar sem ekki flokkast undir það opinbera, sérstök dekurbörn. Ég tók eftir því og skrifaði það niður. Þingmenn hljóta þá að eiga við háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík sem hefur orðið enn stærri með samruna Háskólans gamla í Reykjavík og Tækniháskólans. Stjórnarandstaðan var á móti þeirri sameiningu en að mínu mati var hún gríðarlega mikilvægt framfaraskref. Þessir skólar eru engin dekurbörn. Þeir eru lykilháskólar til að efla menntun, bæði á landsbyggðinni og hér í þéttbýlinu. Við eigum að vera stolt af því að styðja við þá. Það er rétt að það er verið að auka rannsóknarframlög til Háskólans í Reykjavík. Við erum að reyna að koma okkur upp í 30% á næstu fimm árum. Háskóli Íslands er með 47% rannsóknarframlag. Við höfum líka gjörbreytt, og því vilja menn oft gleyma í þessari umræðu, öllu rannsóknarumhverfinu. Við höfum komið á samkeppnisumhverfi. Við höfum eflt samkeppnissjóði til rannsókna. Og hvað þýðir það á mæltu máli? Jú, við höfum stóraukið framlög í heild til rannsókna hér á landi; í gegnum samkeppnissjóðina, með því að vísindamenn keppi á sanngjörnum grundvelli um framlög úr vísindasjóðum. Þeirri leið hafa vísindamenn mælt með. Þetta hefur gefist vel og hefur verið unnið í náinni samvinnu við háskóla og rannsóknarumhverfið.

En það er líka rétt að taka fram að Háskóli Íslands, sem kemur engum að óvörum, fær langmest til viðbótar úr þessum rannsóknarsjóðum eða um 75% af því fjármagni sem rennur til samkeppnissjóða. Það er til viðbótar þessu 47% rannsóknarframlagi. Þannig að Háskóli Íslands kemur vel út úr þessu miðað við aðra skóla. En ég sagði á fundi í Háskóla Íslands, sem haldinn var í hátíðarsalnum, að ég hefði sérstaklega hug á að fara í framtíðarvinnu og styðja skólann í þá veru að reyna að ná þeim markmiðum sem þeir setja sér með að efla framhaldsnám, meistara- og doktorsnám.

Ég vona að menn fari ekki að snúa út úr öllu og vera neikvæðir. Mér finnst menn oft vera neikvæðir í umræðu um háskóla- og menntamál þegar við erum á fljúgandi ferð. Við erum á bullandi siglingu fram á við. Þá koma menn, bæði í útvarpsþáttum og oft og tíðum hér í þessum þingsal, og tala um niðurskurð til menntamála. Hér eru miklir íslenskuspekingar sem geta frætt mann um það hvað niðurskurður er. Niðurskurður er að sjálfsögðu þegar verið er að skera af einhverju sem fyrir er. Niðurskurður þýðir ekki að bæta í, ekki nema að það sé þá ný orðskýring í hinni íslensku orðabók sem ég veit ekki af. Það er verið að bæta menntakerfið og við eigum að fagna því og við eigum að geta tekið höndum saman um að gera enn betur hvað framlög til menntamála varðar. Helstu talsmenn til að mynda Samfylkingarinnar hafa dregið fram lönd sem eyða 2,5% af landsframleiðslu í háskólamálin, það eru lönd eins og Kanada og Bandaríkin þar sem framlög hins opinbera eru á svipuðu róli og við erum að setja stefnuna á í dag. Framlög einkaaðila bætast við og ná hlutfallinu upp 2,5%.

Það er umhugsunarefni ef menn boða hér að fara eingöngu þá leið að bæta í menntamálin í gegnum einkaaðila. Menn hafa verið að tala um skólagjöld. Að mínu mati þarf að fara mjög gaumgæfilega yfir, og það hef ég löngum sagt, hvaða áhrif skólagjöld hafa á menntakerfið okkar. Ég tel ekki óeðlilegt að menn ræði það að setja skólagjöld á framhaldsháskólanám, eins og ýmsir hafa rætt hér, og gefa þar með háskólunum tækifæri til að auka fjármagn inn í skólana sem slíka. En þetta er einfaldlega ekki á dagskrá eins og staðan er núna. Það kom m.a. berlega fram í utandagskrárumræðu sem við áttum hér. Hv. þingmaður Björgvin G. Sigurðsson var upphafsmaður að þeirri umræðu og þar var talað skýrt. Það er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar að koma skólagjöldum inn í háskólana eins og staðan er núna.

Aðeins um Háskólann á Akureyri. Mér finnst það umhugsunarefni þegar þau skilaboð eru gefin hér út af hálfu þingmanna — sem tala um aðhald í ríkisrekstri og að menn verði að halda sig innan ramma og búa við öflugri aga við fjárlög — að það eigi að setja peninga inn í ákveðnar stofnanir, í þessu tilviki háskólastofnanir, án þess að spyrja hvernig eigi síðan að ráðstafa þeim fjármunum. Það versta fyrir ríkisstofnun sem rekin er með halla, hvort sem það er háskólastofnun eða ekki, er að ekki sé farið yfir hvað hægt er að gera til að bæta stöðuna, hvaða leiðir eru færar til að starfsemin verði skilvirk og skipulögð á þann veg að stofnunin þjóni tilgangi sínum, í þessu tilviki að mennta nemendur og standa undir góðu og öflugu námsframboði og gæðanámi.

Þegar við fórum yfir tillögurnar frá háskólaráðinu spurði ég strax hvort menn færu í þær skipulagsbreytingar óháð því hvort það yrði til hagræðingar í rekstri. Skilaboðin voru þau að að sjálfsögðu yrði farið í skipulagsbreytingar því að Háskólinn á Akureyri hefur stækkað ört sem er mjög jákvætt. Það þarf að skipuleggja háskólann þannig að hann geti tekist á við þá samkeppni sem hann stendur í, ekki bara innan lands heldur ekki síður utan frá. Hann þarf að eiga kost á að sækja m.a. um styrki í öfluga rannsóknasjóði erlendis.

Þessi umbreyting var óumflýjanleg, skipulagsbreyting til framtíðar, enda leggur háskólaráð áherslu á að endurskoðun skipulags Háskólans á Akureyri sé afleiðing þess mikla vaxtar sem hafi verið í starfseminni. Menn þurfa að átta sig á hvað hægt er að gera. Við erum ekki að skera niður nám hjá Háskólanum á Akureyri heldur er um fækkun deilda, hagræðingu og skipulagningu að ræða. Að sjálfsögðu verður haldið áfram að byggja upp Háskólann á Akureyri eins og gert hefur verið fram til þessa, enda hafa fjárframlög til Háskólans á Akureyri á árunum 2000–2005, á verðlagi hvers árs, verið langmest til Háskólans á Akureyri eða um 160% en meðalaukning framlaga á því tímabili var 120%. Hið sama gildir um nemendaígildin í fjárlögum og fjáraukalögum á þessu árabili. Meðalfjölgun í skólunum er 85% meðan hún er ríflega 123% til Háskólans á Akureyri.

Þessar tölur segja að við höfum veitt Háskólanum á Akureyri svigrúm, ekki eingöngu sem háskóla á landsbyggðinni og fyrir öfluga menntun þar. Hann hefur einnig skilað góðum nemendum sem hafa skipt miklu máli fyrir samfélagið í kringum skólann, bæði norðan heiða og sunnan. Ríkisvaldið hefur stutt við skólann á Akureyri en það kemur að því, þegar ekki er hægt að reka skólann hallalausan, að taka þarf á í rekstrinum. Ég vara við því ef þingið ætlar að gefa út þau skilaboð að forstöðumenn ríkisstofnana eigi ekki að halda sig við ramma. Er það bara hentistefna sem ræður því hvaða stofnanir skuli halda sig við ramma og hvaða stofnanir ekki? Er það þannig? Að sjálfsögðu ekki.

Allar tölur gefa til kynna að við munum áfram standa vörð um allt háskólasamfélagið, ekki síst þá skóla sem mönnum hefur verið hvað tíðræddast um, þ.e. Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Við munum gera það og ég heiti á þingmenn og hvet þá til að koma með ríkisstjórnarflokkunum í þá vinnu, að efla Háskólann á Akureyri enn frekar, sem og Háskóla Íslands.

Ég verð að vera hreinskilin í þessu efni. Ég tel að skoða þurfi sérstaklega rannsóknahúsið á Akureyri, ég held að finna þurfi lausn á þeim þætti. Þó að ekki sé hægt að gera það núna tel ég að við þurfum að líta til þess þannig að jafnræði sé á milli háskóla, hvort sem það er milli Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands eða annarra háskóla. Ég tel einsýnt að við förum gaumgæfilega yfir þá þætti sem snerta rannsóknahúsið.

Ég ætla að fara örstutt yfir framhaldsskólann. Hv. þingmenn hafa fjallað um framhaldsskólann, listdansinn og einnig komið inn á Safnasjóð og fornleifasjóð.

Út af framhaldsskólanum vil ég aðeins endurtaka það sem ég sagði áðan. Langmest aukning framlaga er til menntamála og sú aukning skilar sér inn í háskólana. Sú aukning skilar sér einnig inn í framhaldsskólana. Svo mikil hefur aukningin til framhaldsskólanna ekki verið í áraraðir. Um hvaða fjárhæðir erum við að tala? Við erum að tala um ríflega 1,5 milljarða kr. hækkun á milli ára, þar af eru verðbætur tæpur milljarður og 680 millj. kr. í hreina hækkun, nettóhækkun á milli ára. Ætla menn að halda því fram að ekki hafi verið bætt við framlög til framhaldsskóla?

Það er rétt að fara aðeins yfir þau mál. Við höfum breytt aðeins vinnubrögðum varðandi innritun í framhaldsskóla. Ég er ekki viss um, eins og menn hafa talað, að menn séu meðvitaðir um þá breytingu. Hún skilar sér í því að við færumst nær og nær því að áætla hve margir muni sækja um í framhaldsskólann. Við viljum geta tekið á móti öllum inn í framhaldsskólann, það er stefnan. Framhaldsskólinn er og á að vera öllum opinn.

Síðasta sumar fórum við í að innrita nemendur miðlægt þannig að við sáum alla nýnema og gátum frá mínútu til mínútu séð hvar nemendur sóttu um pláss, í hvaða skóla þeir vildu komast. Við sáum þannig líka forgangsröðina, hvaða skólar voru settir í fyrsta sæti, annað sæti, þriðja sæti o.s.frv. Við gátum um leið séð og áætlað fjölda nýnema. Þetta gátum við hins vegar ekki varðandi eldri nemana. Hið ánægjulega er að eldri nemum innan skólakerfisins fjölgar. Við náum til þeirra í auknum mæli og þurftum líka að gera það, það er rétt að það komi fram. Við förum aðrar leiðir en hinar Norðurlandaþjóðirnar varðandi símenntun og fullorðinsfræðslu. Við tengjum slíkt nám við framhaldsskólana. Það eru ekki allir sem átta sig á því að framhaldsskólarnir gegna ákveðnu hlutverki, t.d. með kvöldskólunum, með fjarkennslunni o.s.frv. Þeir gegna ríku hlutverki í fullorðinsfræðslunni, í þeim hópi sem við viljum ná til, sem hefur í raun eingöngu grunnskólamenntun í dag.

Það er erfitt að áætla þennan hóp en við munum stefna að því að koma upp svipuðu kerfi og varðandi nýnemana, þá nema sem koma beint úr grunnskóla. Okkur miðar mun betur í áætlunum en gerst hefur áður varðandi fjárlagagerðina. Að sjálfsögðu er markmið okkar að tölurnar sem við setjum fram af hálfu menntamálaráðuneytisins nái yfir alla þá nemendur sem sækja um. Það er markmiðið. Í reynd hafa þeir stundum verið fleiri og stundum verið færri. Þá hefur verið komið til móts við þá skóla sem leitað hafa eftir því. Sumir hafa staðið frammi fyrir því að nemendum hafi fækkað meðan aðrir hafa fengið fleiri nemendur.

Hv. þingmenn þekkja líka að það eru tískusveiflur á milli ára. Sumir skólar eru vinsælli en aðrir eitt árið meðan allt annað er uppi á teningnum næsta árið. Undir þetta þarf kerfið að vera búið. Við þurfum að geta brugðist við þessum þáttum sem spila m.a. inn í alla áherslu okkar í fjárlagagerð. Markmiðið hjá okkur við fjárlagagerðina er að ná yfir alla nemendur sem ætla sér í framhaldsskóla.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir spurði líka sérstaklega um reiknilíkanið og hvort það hentaði öllum skólum. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp umræðuna reiknilíkanið. Það er afar mikilvægt að reiknilíkanið verði ekki staðnað verkfæri sem bara er þar og enginn horfir til. Að sjálfsögðu á reiknilíkan alltaf að vera í sífelldri endurskoðun. Ég hef bent á að við breytingu á reiknilíkani hafi til að mynda verið komið til móts við skóla með starfs- og verkmenntun og verið reynt að lagfæra reiknilíkanið í þá veru. Við verðum alltaf að horfa á hvernig skóla við bjóðum upp á og hvernig námsframboð er til staðar. Reiknilíkanið verður að svara þörfum skólanna og verður líka að svara þörfum nemendanna.

Með hliðsjón af þeim fjárlagatillögum sem hér eru til umræðu, aukningunni sem við sjáum á milli ára til framhaldsskóla og háskólastigsins, hlýt ég að hvetja hv. þingmenn sem hafa bent á og rætt ályktun Félags framhaldsskólakennara að taka ekki þá ályktun, sem er athyglisverð, algjörlega hrátt og gagnrýnislaust upp. Þingmenn vinna með fjárlagafrumvarpið og þeir sjá muninn á milli ára. Menn sjá svart á hvítu að framlögin til framhaldsskólans aukast og að í rauninni er allt gert sem hægt er að gera til að mæta fjölgun nemenda. Það er því ekki allt rétt sem fram kemur í þessari ályktun þótt að öðru leyti sé sjálfsagt að fara yfir hana og skoða ábendingar sem þar koma fram. En ekkert er hafið yfir gagnrýni.

Varðandi listdansinn verðum við að horfa á hann eins og annað listnám, þ.e. í samhengi. Það hefur komið fram að Listdansskóli Íslands hafi í raun verið eini skólinn á vegum ríkisins sem varð eftir árið 1996, þegar grunnskólinn fór yfir til sveitarfélaganna. Menn hafa síðan reynt að koma því skikki á grunnnámið í skólum landsins, hvort sem það er listnám eða annað nám, að það sé á forræði sveitarfélaga en tónlistarnám og annað listnám á forræði ríkisins. Þetta er það fyrirkomulag sem við erum að vinna að. Við vinnum t.d. að því í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga eftir að tónlistarnámið var sett í uppnám fyrir ári þegar því var sagt upp einhliða af hálfu Reykjavíkurborgar.

Ég vonast til að við getum komið á einföldu og skýru skipulagi varðandi listnámið eins og annað nám. Það er óþarft að annað gildi um listdans en t.d. tónlistarnám. Ég sé þetta þannig að við fjölgum tækifærum þeirra sem vilja stunda listdans. Ég hef bent á og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði það einnig að við værum að auka gæðakröfur. Ég tel okkur gera það, annars vegar með námskrá sem samin hefur verið fyrir framhaldsskólastigið. Síðan ætlum við að einhenda okkur í að semja námskrá á grunnskólastigi og fá m.a. til þess foreldra, sem hafa sérstaklega óskað eftir að koma að þeirri námskrárgerð. Það er sjálfsagt að verða við því. Með námskránni, þar sem listdansinn er á framhaldsskólastigi, er búið að móta umgjörðina og tryggja sess listdansins í skólakerfinu sem slíku, búið að viðurkenna hann en svo var ekki áður miðað við fyrra fyrirkomulag.

Það var aldrei ætlunin að slíta samhengið á milli skólastiga, á milli grunnnáms og framhaldsnáms varðandi listdansinn, þ.e. Listdansskólans eins og hann er í núverandi mynd. Ætlunin var alltaf að tryggja samfellu. Það er mikilvægt, þegar Listaháskóla Íslands hefur verið heimilað að setja á laggir listdansnám á háskólastigi, að hugsa um skólagönguna sem eina heild. Það er mikilvægt að tryggja að skólastigin vinni saman og að ákveðin samfella sé á milli grunnnáms og framhaldsnáms. Þess vegna er búið að semja við Dansmennt, sem tekur við Listdansskóla Íslands. Í því húsnæði munu nemendur halda áfram námi og ríkið mun kaupa þá þjónustu, hvað varðar framhaldsskólastigið, en líka fyrir nemendur sem ekki eru í framhaldsskóla og eru núna innan skólans. Það verður tryggt.

Hins vegar er ætlunin að gera þetta í samvinnu við sveitarfélögin þannig að þau sjái þá til þess, eins og þau gera með tónlistarnámið, að grunnnámið í listdansinum verði til staðar og með þeirra aðkomu. En samfellan verður að vera til staðar og það er mikilvægt að hún sé tryggð.

Það er rétt að það komi líka fram að með samningnum við Menntaskólann við Hamrahlíð er einfaldlega verið að tryggja að til staðar sé ákveðin leið, ákveðið ferli, í skólakerfinu. Við erum að tryggja að listdansinn geti átt sér leið í framhaldsskólakerfinu. Auðvitað er eðlilegt að semja við Menntaskólann við Hamrahlíð sem hefur haft mikinn metnað varðandi listnám allt. En um leið segjum við að ef aðrir framhaldsskólar vilja semja við Listdansskóla Íslands eða Dansmennt um að þeirra nemendur geti stundað þar nám líka þá gera þeir það að sjálfsögðu. Ríkið mun þá borga fyrir það. Í rauninni er því verið að víkka aðkomu nemenda á framhaldsskólastigi með því að opna allt framhaldsskólastigið. Með því að semja við MH er verið að tryggja að alla vega ein leið sé til staðar. En ég sé ekkert því til fyrirstöðu að aðrir framhaldsskólar í landinu setji á fót listdansbraut eða heimili nemendum sínum sem eru líka í listdansi að fara þá leið. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu. Ég tel okkur miklu frekar vera að víkka út þá möguleika sem eru til staðar fyrir þá nemendur sem hyggjast stunda listdans.

Hv. þingmaður Kolbrún Halldórsdóttir nefndi áðan Safnasjóð. Ég verð að viðurkenna að ég get tekið undir með hv. þingmanni um að ég hefði talið æskilegra að alla vega hluti þeirrar fjárhæðar sem fjárlaganefnd er að útdeila og tengist söfnun ætti frekar að renna í Safnasjóð. Það þarf að auka enn frekar framlög til Safnasjóðs m.a. með það í huga að við erum ekki síst að stuðla að uppbyggingu á landsbyggðinni. Ég er margoft búin að segja að með því að efla menntun og menningarþáttinn þá erum við ekki síst að styrkja landsbyggðina með öflugum framlögum til rannsókna. Og talandi um rannsóknir þá var einkar ánægjulegt að fá að vera viðstödd núna síðustu úthlutun Kristnihátíðarsjóðs varðandi fornleifarannsóknir. En við þurfum að huga að hvert framhaldið verður varðandi þær rannsóknir sem hafa fengið úthlutað og verið styrktar, þ.e. hvert framhaldið verður á þeim rannsóknum sem þar um ræðir. Ég er t.d. með í huga Skriðuklaustursrannsóknina sem þarf lengri tíma en bara eitt ár í viðbót. Að mínu mati hvað það varðar þá er réttast að fara inn í það kerfi sem er til staðar og þá þekkingu sem er til staðar til að leysa þau málefni. Ég er þá sérstaklega með fornleifasjóð í huga sem er, að mig minnir, með 7 millj. kr. á þessu ári. En ég tel rétt að menn meti hvaða rannsóknir á vegum Kristnihátíðarsjóðs sem hafa fengið úthlutanir þurfa á lengri tíma að halda varðandi sínar rannsóknir og þá beina því í þann farveg að fornleifasjóður komi til með að halda utan um framhaldið. Þetta eru náttúrulega gríðarlega merkilegar rannsóknir fyrir menningarsöguna, fyrir menningararfinn, en þær hafa líka leitt til þess að nokkur störf hafa skapast í kringum þetta á landsbyggðinni og rannsóknarþátturinn hefur verið styrktur og efldur. Þetta er nú það sem ég vildi segja um safnamálin sem slík. Auðvitað fagna ég öllum framlögum sem m.a. fjárlaganefnd hefur lagt fram. Ég ætla ekki að efast um að faglegar forsendur hafi ráðið velflestum úthlutunum þar. Ég fagna því einfaldlega að menn eru að auka framlög til safnamála. En ég hefði kosið að Safnasjóður yrði styrktur enn frekar í stað þess að að fara þessa leið.

Að öðru leyti þá þakka ég fyrir umræðuna og þann áhuga og metnað sem hv. þingmenn hafa sýnt þeim málaflokki sem ég ber ábyrgð á.