132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:25]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta væri kannski hægt að kalla flokkapólitík. Það er alveg ljóst að okkar stefna hefur verið sú að við höfum ekki viljað mismuna háskólunum hvað það varðar í hvaða skóla nemendur vilja fara eða kjósa að fara. Ef þeir kjósa að fara í einkaskóla eða í opinberan háskóla þá gera þeir það og fá sama framlag með sér. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að ein ástæðan fyrir því að menn hafa ekki farið út í að skerða framlög til einkaskólanna sem nemur skólagjöldunum er m.a. mun hærri rannsóknarframlög, eins og ég fór yfir m.a. í ræðu minni áðan, til hinna opinberu skóla sem eiga síðan að jafna þetta út. En þrátt fyrir það fær Háskóli Íslands miklu hærri framlög með hverjum nemanda en til að mynda Bifröst eða Háskólinn í Reykjavík.