132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:28]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ráðherra talaði hér nokkuð roskinmannlega um flaggskip og um Árnastofnun þá sem koma skyldi. Vegna þess er rétt að spyrja ráðherrann hvar þess sjái stað í fjárlögum að verið sé að efla hugvísindadeild háskólans, hvar þess sjái stað sérstaklega að verið sé að efla íslenskuskorina í þeirri hugvísindadeild, þar sem kennarastöðum hefur fækkað, lektorum, dósentum og prófessorum, frá 1997–2005 úr 15 í 11 og hvar þess sjái stað að verið sé að hefja þá uppreisn í hinni nýju Árnastofnun sem á þyrfti að halda miðað við starfsmannaþróun undanfarið í þeim stofnunum sem eiga að vera forverar hennar.