132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:35]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra svaraði mér í engu hvort einhver áform væri uppi um að setja hugsanlegt þak á það hvað þessi sérskóli á sviði listmenntunar og þetta sérnám muni kosta mögulega nemendur. Við sjáum að hér eru einkareknir sérskólar sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi áðan, glæsilegir skólar en þeir taka himinhá skólagjöld. Þess vegna hefði ég viljað heyra frá hæstv. menntamálaráðherra hvað hún sjái í þessu.

Það er ekki mikill tími til stefnu. Skólinn verður lagður niður í vor en hæstv. menntamálaráðherra hefur núna haft fjóra mánuði eða svo síðan tilkynnt var um niðurlagningu Listdansskólans til að hugsa það hvernig eigi að koma þessu fyrir og tala við einhverja sem hún ætlast til að taki við þessu. Ég bjóst við að fá hér skýrari svör um það hvernig staðið verði að fjármögnun þessa náms í nánustu framtíð ef halda á áfram að bjóða upp á námið í haust.