132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:37]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. 3. umr. um fjárlögin hefur nú staðið hér í nærfellt sjö tíma og á sjálfsagt eftir að standa lengi enn. Það er kannski skiljanlegt því að þessi umræða er auðvitað stefnumótandi. Fjárlög ríkisins, eins og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og sveitarfélaga, eru auðvitað stefnumótandi um það sem menn ætla sér að gera, ekki bara á næsta ári, heldur næstu árum og segir okkur svolítið um það hvert sú ríkisstjórn sem situr hverju sinni ætlar sér að stefna.

Um þau fjárlög sem við erum að fjalla hér um má segja að þau séu fyrir ýmissa hluta sakir nokkuð merkileg. Ég vil líka segja það um fjáraukalögin sem voru afgreidd í síðustu viku. Bæði fjárlögin núna og fjáraukalögin eru merkileg fyrir það að tekjur ríkissjóðs hafa aldrei verið meiri. Líklega hafa tekjur ríkissjóðs á milli ára aldrei vaxið eins og á milli áranna 2004 og 2005, og það er viðbúið að það verði líka verulegur vöxtur milli áranna 2005 og 2006 þó að því sé ekki sérstaklega spáð í þessu fjárlagafrumvarpi. Með öðrum orðum hefur íslensk ríkisstjórn aldrei haft úr meiru að moða en sú ríkisstjórn sem nú situr. Það er auðvitað ágæt staða að vera í en hún er mjög vandasöm því að það þarf sterk bein til að þola góða daga.

Á árinu 2005 fékk ríkissjóður búhnykk upp á rúmlega 30 milljarða kr. fyrir utan sölu Símans, þetta var bara búhnykkur sem kom mest í gegnum óbeinu skattana. Með sölu Símans fór þetta yfir 90 milljarða kr. Í fjárlögum næsta árs er ekki gert ráð fyrir sama búhnykk eins og frumvarpið lítur hér út. Í nýútkomnum Peningamálum Seðlabankans er spáð meiri tekjuauka á árinu 2005 en gert var í fjáraukalögunum. Mér sýnist gert ráð fyrir 10 milljörðum til viðbótar í ríkissjóð á árinu 2005 umfram það sem var í fjáraukalögunum. Enn fremur er þar gert ráð fyrir verulegum búhnykk á árinu 2006 sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu þannig að tekjuaukinn verði enn meiri bæði á árinu 2005 og 2006 en fjármálaráðuneytið hefur áætlað. Það er því úr verulegum fjármunum að spila.

Tekjuáætlun ársins 2005 var vanáætluð af hálfu ríkisins í síðasta fjárlagafrumvarpi og það má færa sterk rök fyrir því að tekjurnar séu mjög vanáætlaðar líka á næsta ári í því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir. Það er kannski svolítið ný staða og lýsir þeirri sérstöðu sem þessi fjárlagafrumvörp hafa. Sú hefur ekki verið raunin í gegnum tíðina að menn hafi mjög vanáætlað tekjur sínar. Hins vegar hafa útgjöld alltaf verið vanáætluð. Útgjöld hafa alltaf verið vanáætluð vegna þess að það er ákveðin fegrunaraðgerð sem er farið í þegar fjárlagafrumvarpið er lagt fram. Ef við horfum bara yfir síðustu ár, árin 2000 til 2004, voru útgjöldin vanáætluð um 90 milljarða kr. á því árabili, þ.e. um 18 milljarða kr. á ári að meðaltali. Þá má búast við því að hið sama sé upp á teningnum í þessu fjárlagafrumvarpi eins og áður, svona út frá fegurðaraðgerðunum séu útgjöldin vanáætluð, enda er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að raunútgjöld standi í stað á milli ára án óreglulegra liða og vaxta. Ég held að það sé mjög óraunsætt að gera það og að þarna sé enn einu sinni á ferðinni óskhyggja eða fegrunaraðgerð til að láta frumvarp til fjárlaga líta heldur betur út.

Ég segi að þetta sé óraunsætt og það kemur reyndar líka fram í fyrrnefndum Peningamálum Seðlabankans að þetta sé að minnsta kosti mjög metnaðarfullt, eins og Seðlabankinn orðar það, vegna þess að hingað til hafa útgjöld ríkissjóðs hækkað um að minnsta kosti 2% á ári umfram verðlag frá árinu 1998. Ég held að það sé tvennt í áætlanagerð frumvarpsins sem líklega fái ekki staðist, annars vegar vanáætli menn tekjur sínar eins og þeir gerðu á þessu ári og hins vegar vanáætli þeir útgjöldin, þau verði meiri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það er kannski ekkert skrýtið því að eins og við vitum er mikill útgjaldaþrýstingur. Við vitum líka, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur svo sem verið óþreytandi við að benda á hér í pontunni, að víða er kallað eftir auknum framlögum. Það er víða sem mætti gera betur eins og hér hefur komið fram. Það er auðvitað mjög freistandi fyrir menn að gefa eftir gagnvart þeim óskum og það verður gert þegar fram líða stundir. Við munum sjá aðrar tölur í frumvarpi til fjáraukalaga þegar það kemur fram næsta haust. Þá munum við að sjálfsögðu sjá aðrar útgjaldatölur.

Í þeirri miklu tekjuaukningu sem hér hefur verið á þessu ári og væntanlega því næsta vega tekjur vegna óbeinna skatta þyngst. Það eru þessar tekjur sem auðvitað sveiflast mest. Við höfum séð ákveðna toppa í þeim. Það var toppur árið 1982, 1987, árið 2000 og svo núna á þessum árum, 2005 og 2006. Hjá Seðlabankanum er því spáð að ef þjóðarbúskapur hyrfi aftur til eðlilegra efnahagsskilyrða, eins og það er orðað, yrði tekjutap ríkissjóðs upp á 12–13 milljarða kr.

Virðulegi forseti. Þetta var svona almennt um tekju- og útgjaldahlið frumvarpsins. Það sem ég vil hins vegar leggja nokkra áherslu á, þegar við fjöllum um frumvarpið fyrir næsta ár og þær spár sem koma fram bæði í þjóðhagsspá og víðar, er að gert er ráð fyrir að á árunum 2006 og 2007 munum við áfram búa við erfitt efnahagsástand að því leytinu til að viðskiptahallinn verði mikill, verðbólguhorfur verði talsvert háar, gengið verði sterkt, stýrivextir verði háir og þetta muni hafa umtalsverð áhrif á umhverfi íslenskra fyrirtækja. Ef fram heldur sem horfir og með þeim háu stýrivöxtum sem núna eru næst ekki verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrr en árið 2008, þ.e. við eigum eftir að fara í gegnum árin 2006 og 2007 með talsvert meiri verðbólgu en verðbólgumarkmið Seðlabankans gerir ráð fyrir. Það þýðir að við munum fara í gegnum þessi ár með háum stýrivöxtum og því er spáð að stýrivextirnir muni hækka enn frekar. Þeir voru hækkaðir núna um 0,25% eða 25 punkta og gert er ráð fyrir að ekki sé séð fyrir endann á þessum vaxtahækkunum og að hækka þurfi þá frekar, þó að það verði kannski gert í smærri skrefum, og þeir geti farið í allt að 12%. Greiningardeildir bankanna spá því að stýrivextirnir geti farið í allt að 12%. Það setur auðvitað mikinn þrýsting á gengið. Samkeppnisatvinnugreinar okkar, útflutningsatvinnugreinarnar, sprotafyrirtækin, nýsköpunarfyrirtækin og ferðaþjónustan munu því búa áfram við mjög erfið skilyrði.

Það eru auðvitað mjög alvarlegar blikur á lofti af þessum sökum og er mjög mikilvægt að við ræðum um það í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og gerum okkur grein fyrir því ástandi sem gæti verið fram undan. Seðlabankinn og fleiri aðilar hafa sameiginlega gert kannanir hjá stjórnendum fyrirtækja, gerðu það í febrúar og aftur núna, til að reyna að átta sig á hvernig þeir mætu stöðuna. Það kemur fram að þeir eru mun svartsýnni á efnahagsástandið og sitt umhverfi en þeir voru í febrúar. Það er því meiri svartsýni ríkjandi vegna þess að menn sjá fram á að þetta er langvarandi ástand. Þetta er ekki bara eitthvert ástand til skamms tíma, það er ekki bara spurning um að þreyja þorrann og góuna núna heldur er um að ræða ástand sem mun að öllum líkindum vara allt til ársins 2008. Það eru mjög mörg fyrirtæki sem eiga erfitt með að þola þetta ástand. Það hefur að vísu hjálpað t.d. sjávarútvegsfyrirtækjunum að það hefur verið hátt verð á sjávarafurðum á okkar erlendu mörkuðum. Það hefur bjargað þeim og þess vegna getur vel verið að þau geti kannski þolað þetta ástand ef verðið heldur áfram að vera gott á þeim mörkuðum.

En það eru ýmis önnur fyrirtæki sem munu eiga mjög erfitt uppdráttar, t.d. ferðaþjónustan og tæknigreinarnar. Það er dálítið athyglisvert að lesa það sem Samtök iðnaðarins hafa sent frá sér um hátækniiðnaðinn og eru þar með framtíðarsýn og spá, og síðan það sem ýmis fyrirtæki í þessum geira hafa sent frá sér. Það kemur m.a. fram í plaggi frá Samtökum iðnaðarins þar sem vitnað er í ýmsa aðila sem stjórna fyrirtækjum í hátæknigreinum að það sé tvennt sem sé kannski mesta áhyggjuefni allra þessara fyrirtækja í dag. Það eru annars vegar gengissveiflurnar og það ástand sem er í efnahagsmálunum og hins vegar, og það kemur líka fram hjá þessum aðilum, að það sé skortur á nægilega vel menntuðu vinnuafli á íslenskum vinnumarkaði. Og það er kannski það sem menn hafa verið að tala um hér í umræðunni við menntamálaráðherra, hvernig standa eigi að menntamálum og hvernig það endurspeglist í fjárlagafrumvarpinu, vegna þess að eitt mikilvægasta málið sem við stöndum andspænis núna er að renna styrkari stoðum undir menntakerfið í landinu.

Hér eru skilaboð til stjórnvalda. Þau eru frá iðnþingi sem reyndar var haldið í vor. Þar er vitnað í framkvæmdastjóra Actavis sem segir að það sé áhyggjuefni að einungis 40% af vinnuaflinu hér á landi ljúki stúdentsprófi en það sé undir meðaltali OECD-ríkja. Vitnað er í forstjóra Marels og hann talar sérstaklega um gengissveiflur krónunnar sem hafi mjög slæm áhrif á fyrirtæki með mikinn virðisauka. Vitnað er í framkvæmdastjóra Marorku sem talar um að fjárhagsleg staða sprotafyrirtækja sé mjög slæm. Vitnað er í framkvæmdastjóra Líftækni hf. þar sem hann talar um hágengið, hversu erfitt það sé og að uppbyggingin krefjist seiglu og fjármagns sem er mjög erfitt við þær aðstæður sem nú séu í efnahagslífinu.

Það kemur fram líka í þessu sama plaggi hvílíkur vaxtarbroddur sé á ferðinni í hátækninni, hve hún sé mikill vaxtarbroddur í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Þar segir að útflutningur á sjávarafurðum hafi vaxið að meðaltali um 4,3% á ári undanfarin 13 ár en meðaltalsvöxtur hátæknigreina hafi verið 36%. Sambærileg tala fyrir stóriðju sé um 14%. Auðvitað mun stóriðjan taka ákveðið stökk núna í framhaldi af framkvæmdunum á Austurlandi. En þetta segir okkur hvað hátæknigreinarnar hafa skipt miklu máli bæði fyrir útflutning okkar og atvinnusköpun. Þá kemur fram að hlutdeild hátækni í verðmætasköpuninni hafi stokkið úr 0,6% í 3,9%. Þetta eru auðvitað ekki stórar tölur í verðmætasköpuninni en þetta sýnir þróunina. Þetta sýnir getu þessara fyrirtækja ef þau búa við stöðug starfsskilyrði, stöðuga mynt og öflug framlög til menntunar og rannsókna.

Mér barst líka, eins og kannski ýmsum öðrum, grein í hendurnar í dag vegna uppsagnanna hjá Hjartavernd og áhyggjur manna af því. Þetta er ekki grein sem kemur frá fólki sem þar starfar, heldur fólki sem starfar í hátækni- og líftæknigreinunum, sem hefur miklar áhyggjur af því að við séum að missa af lestinni ef þessi störf detta út vegna hágengis og stöðunnar í efnahagsmálunum. Talað er um stefnu stjórnvalda í því bréfi sem mér barst um iðnbyltinguna á Íslandi. Þar segir með leyfi forseta:

„Það er magnað að stjórnvöld telji að með því að auka fé til rannsóknasjóða sé verið að leysa þau mál sem skapast þegar rekstrartekjur vegna erlendra viðskipta falla vegna ruðningsáhrifa frá ríkisstyrktum gæluverkefnum ráðamanna, en á þann veg eru svör ráðherra. Það virðist skorta á skilning á þeirri staðreynd að það tekur yfirleitt langan tíma að byggja upp söluhæfa vöru eða þjónustu á hátæknisviði og aðeins lítið brot af því sem reynt er gengur upp.

Hér er verið að leggja í rúst það sem tekist hefur að byggja upp síðustu 20–30 árin bæði hjá Hjartavernd og öðrum. Nýsköpunarstyrkir stjórnvalda breyta þar engu um vegna þess að umhverfið sem þessum fyrirtækjum er búið, rekstrarskilyrðin sem þeim eru búin, gerir það að verkum að þau fá ekki staðist þrýstinginn af háum vöxtum og háu gengi og þeim gengissveiflum sem hér hafa verið.“

Ég kem inn á þetta hér, virðulegi forseti, vegna þess að það kom fram í máli a.m.k. tveggja stjórnarþingmanna sem töluðu hér fyrr í dag að það væri atvinnustefnan sem skipti svo miklu máli og það væri að renna styrkari stoðum undir atvinnufyrirtækin í landinu og það væri ríkisstjórnin að gera. Þetta kom fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni og hv. þm. Birki Jóni Jónssyni. (Gripið fram í: Það eru fúnar stoðir.)

Það eru fúnar stoðir sem verið er að renna undir atvinnustarfsemina í landinu þegar þetta blasir við okkur og þetta er áhyggjuefni fólks. Það er áhyggjuefni fólks núna úti um allt land, á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, að fyrirtækin sem eiga að leggja grunninn að atvinnusköpun og verðmætasköpun og tekjum fólks í framtíðinni eru að leggja upp laupana. Þau eru að gefast upp, þau eru að segja upp fólki, þau eru að flytja starfsemi sína úr landi og þau fá ekki staðist þetta hágengi og þá þróun sem hér hefur orðið. Þetta eru auðvitað ekki neinar náttúruhamfarir. Þetta er ekki eitthvað sem hefur bara gerst sisona af slysförum. Það eru stjórnvaldsaðgerðir sem þessu valda.

Það vissu allir fyrir síðustu kosningar að mikill vandi yrði í hagstjórninni á þessu kjörtímabili og það var um fátt meira talað fyrir síðustu kosningar en vandann sem við stæðum andspænis í hagstjórninni. Það var auðvitað vegna þess að ákveðið var að ráðast í stórvirkjanir og álver á Austurlandi og menn vissu að það mundi þýða mikinn innflutning á gjaldeyri og skapa mikinn þrýsting á hagstjórnina, á peningastefnuna og ríkisfjármálin. Um þetta var talað fyrir síðustu kosningar og við lögðum áherslu á það, í Samfylkingunni, að ef menn ætluðu að ná utan um þetta þyrfti samstillt átak allra. Þá þyrfti ríkisstjórnin, hver sem hún yrði, að leita samráðs við alla þá aðila sem skipta máli á þessum markaði því að það er ekki bara ríkisstjórnin sem skiptir máli og ekki bara Seðlabankinn sem skiptir máli. Auðvitað skipta bankarnir máli, auðvitað skiptir verkalýðshreyfingin máli, Samtök atvinnulífsins skipta máli á þessum markaði. Þetta var spurningin um að reyna að skapa eins víðtækt samráð og kostur væri við alla þessa aðila til að sigla í gegnum þessa vandasömu hagstjórn sem hér blasti við. En þetta var ekki gert og hefur ekki verið gert.

Ríkisstjórnin ákvað einhliða og án þess að hafa samráð um það við aðra aðila að fara út í 80% lán Íbúðalánasjóðs og fer þar að hluta til inn á markað bankanna sem bregðast hart við og fara í bullandi samkeppni. Við vitum alveg hvað það hafði í för með sér. Það er kannski stóri orsakavaldurinn í því sem nú er að gerast að þetta skyldi gert á þessum tímapunkti. Þessi ríkisstjórn hefur heldur ekki viðhaft neitt sérstakt samráð við aðila vinnumarkaðarins um það hvernig menn ættu að stíga ölduna í því ástandi sem núna er. Það hefur ekki verið gert. Það má eiginlega segja að slíkt samráð hafi að mestu verið aflagt eftir fyrsta kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar. Hún var sæmilega góð í samráði við aðila vinnumarkaðarins á fyrsta kjörtímabilinu frá 1995–1999 en síðan eiginlega ekki söguna meir. Það hefur auðvitað haft þau áhrif að menn hafa ekki lagst sameiginlega á árarnar til að takast á við þá stöðu sem hér er.

Það sem við blasir ef svo heldur fram sem horfir, og það kemur m.a. fram í þessu marg- og títtnefnda riti Peningamálum Seðlabankans, og ef menn ná ekki tökum á þessu, sem virðist ekki ætla að gerast fyrr en á árinu 2008, er að við þróumst í átt til þess að verða hrávöruframleiðendur í stað þess að búa við öflugan hátækniiðnað.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í Peningamál. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sterkar vísbendingar eru um að hátt raungengi sé farið að hafa veruleg áhrif á ýmsar útflutningsgreinar. Hækkun afurðaverðs hefur reyndar komið ýmsum greinum sjávarútvegs til góða, en áhrif hágengisins birtast meðal annars í hlutfallslega meiri útflutningi óunnins fisks.“ — Það er fiskiðnaðurinn sem líður auðvitað fyrir þetta. — „Samdráttur iðnaðarvöruútflutnings stafar sennilega að verulegu leyti af háu raungengi sem fyrr segir. Þessi áhrif kunna að vera enn sterkari nú en áður þar sem sumir framleiðendur reka framleiðslustarfsemi víða um heim og geta flutt framleiðslu að einhverju leyti úr landi ef aðstæður krefjast þess.“

Við erum orðin alþjóðavætt samfélag, það er jákvætt, það er fínt. En það þýðir líka að menn eru með starfsstöðvar víðar en á Íslandi og geta flutt framleiðslu sína á milli eftir því sem hentar. Þetta þekkjum við frá hátæknifyrirtækjunum. Þekkjum þetta frá Össuri, við þekkjum þetta frá Marel og frá Actavis, að við þær aðstæður sem núna eru kjósa þessi fyrirtæki ekki endilega að flytja starfsemi sína úr landi, en viðbótin, stækkunin verður ekki til á Íslandi heldur annars staðar. Eins og ég segi, það eru ekki náttúruhamfarir heldur stjórnvaldsaðgerðir sem þessu valda.

Ríkisstjórnin hefur að mörgu leyti lifað mjög góða daga eins og ég sagði í upphafi. Hún hefur haft miklar tekjur. Góðæri hefur verið í landinu. Miklar breytingar hafa orðið á atvinnuháttum. Ég kom inn á hvað hátæknigreinarnar hafa verið að vaxa. Þetta á m.a. rót sína að rekja til ákveðinna breytinga sem við höfum verið að fara í gegnum í atvinnuháttum. Stærsti orsakavaldurinn í því var samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði.

Þegar samningurinn við Evrópska efnahagssvæðið var gerður stukkum við inn í ákveðinn nútíma með þeim samningi. Þar var mikill kraftur leystur úr læðingi. Það er dálítið merkilegt að hugsa til þess að á þeim 11 árum, hann tók gildi árið 1994, sem liðin eru höfum við gengið í gegnum þróun og breytingar sem tók kannski áratugi í öðrum löndum. Þetta leysti sannarlega mikinn kraft úr læðingi og mikið áræði hjá íslenskum athafnamönnum og það hefur skilað sér í auknum tekjum þjóðarinnar og í mikilli kaupmáttaraukningu sem hér hefur sannarlega orðið. Kaupmáttaraukningin er líklega um 50% frá árinu 1995. Eitthvað er það á reiki hver hún er, sumir segja hana enn meiri, en við skulum segja að hún hafi verið um 50% frá árinu 1995. Þetta er auðvitað mjög jákvætt. Það þýðir að góðærið sem hér hefur verið hefur komið almenningi til góða í aukinni kaupgetu. Það er jákvætt. En það sem er verst þegar maður horfir yfir þetta tímabil frá árinu 1995 við þær aðstæður sem hér hafa verið, í því góðæri sem hefur verið, það er að skynja eiginlega tvennt. Tvennt hefur gerst. Mönnum hefur mistekist að nýta góðærið með skynsamlegum hætti í tveimur veigamiklum þáttum. Annars vegar hafa menn ekki nýtt góðærið til að bæta stöðu þess fólks sem stendur höllustum fæti í samfélaginu. Menn hafa ekki nýtt góðærið til þess. Ójöfnuður hefur aukist á Íslandi í góðærinu á þessum tíu árum.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að hann sagði að við gætum ekki haft hærra og betra bótakerfi en sem næmi því sem framleiðslukerfi okkar gæti staðið undir. Framleiðslukerfið okkar yrði að geta staðið undir þessu. Við gætum ekki haft hærra og betra bótakerfi. En ef við höfum staðið andspænis því á síðustu tíu árum að kaupmáttur hefur verið að aukast um 50% almennt, hvernig getur þá staðið á því að við höfum ekki getað staðið þannig að málum að hlutur þess fólks sem verst er sett, aldraðir og öryrkjar, væri réttur þannig að það sæti ekki eftir í góðærinu eins og gerst hefur? Nú ætla ég ekki að halda því fram að það hafi ekki fengið aukningu. Ég ætla ekki að halda því fram, alls ekki. Ég veit að sett var viðbótarframlag í samninga við öryrkja, aldurstengt framlag. Ég veit að gerður var samningur við aldraða líka í þessum efnum. En staðreyndin er sú að þegar horft er á kaupmátt, alveg burt séð frá því hvernig tekjurnar verða til, annars vegar almenns launafólks og hins vegar öryrkja og aldraðra kemur í ljós að kaupmáttur öryrkja og aldraðra hefur aukist minna en almennt gerist í samfélaginu. Það er alveg furðulegt að í slíku góðæri skuli það hafa gerst.

Annað sem er auðvitað mjög sláandi þegar við horfum yfir síðustu tíu ár og tengist líka jöfnuði, eða ójöfnuði skulum við segja, er hvernig ójöfnuður hefur aukist á milli höfuðborgar og landsbyggðar. Ég talaði áðan um atvinnuháttabreytingar sem við höfum verið að ganga í gegnum. Þær eru mjög mikilvægar og í eðli sínu mjög jákvæðar. Þær eiga eftir að skila okkur miklu þegar til framtíðar er litið. Ef fyrirtæki þola eða getað staðist það áhlaup sem nú er vegna gengisskráningar og stöðunnar í efnahagsmálunum, þá mun þessi atvinnuháttabreyting skila okkur heilmiklu þegar til framtíðar er litið. En hún hefur gerst með þeim hætti að fólkið sem varð fyrir atvinnuháttabreytingunni, ekki síst úti á landi, situr eftir í þeirri þróun sem hefur verið án þess að gripið hafi verið til raunhæfra aðgerða gagnvart landsbyggðinni og án þess að reynt hafi verið að stuðla að atvinnuuppbyggingu á öðrum sviðum í byggðarlögum landsins. Ójöfnuður hefur aukist milli almenns launafólks og síðan aldraðra og öryrkja hins vegar og milli höfuðborgar og landsbyggðar. Þetta er þróunin sem hefur orðið á síðustu tíu árum.

Eins og ég sagði er tvennt sem mér finnst að mönnum hafi mistekist sérstaklega á þessu tíu ára tímabili í góðærinu að takast á við. Það er annars vegar ójöfnuðurinn og hins vegar menntamálin. Í rauninni var grátbroslegt að hlusta á menntamálaráðherra áðan tala um úttektirnar sem búið er að gera. Það er búið að gera alls konar úttektir. Búið er að gera úttektir á vegum Ríkisendurskoðunar og Háskóla Íslands. Búið er að bera saman framlög til háskóla almennt á vegum Ríkisendurskoðunar. Búið er að gera evrópska úttekt á háskólanum. Það er búið að gera alls kyns kannanir, rannsóknir og úttektir á þessum háskólum og menntamálaráðherra stóð hér og sagði: Upplýsingar eru forsenda stefnumótunar. Nú getum við farið að móta stefnuna. Bíddu við, Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera í menntamálaráðuneytinu í 15 ár samfellt. Og það á að fara að móta stefnu núna þegar liggja loksins fyrir einhverjar upplýsingar, úttektir og kannanir. Hvað hafa menn verið að gera í 15 ár í ráðuneytinu? Flytja til pappíra?

Ég veit vel að aukin framlög hafa komið inn í menntamálin á fjárlögum á undanförnum árum og ég veit að við stöndum betur í OECD-samanburði en við gerðum. Ég veit að ef við horfum einungis á háskólastigið fer núna um 1,1% af vergri landsframleiðslu í háskólastigið en var áður 0,9%. En það bara dugir ekki til vegna þess að ef við horfum á Norðurlöndin er framlagið til háskólastigsins þar 1,7–2%.

Ég hlustaði líka á hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, varaformann fjárlaganefndar, þegar hann talaði um að vega þyrfti hlutina saman, það hefði verið gert í menntaumræðunni, að vega þetta sérstaklega saman við aldur og aðrar breytur. (EOK: Hliðrun.) Hliðrun. Þingmaðurinn sagði það, það er rétt, að ákveðin hliðrun ætti sér stað og menn yrðu að skoða það sérstaklega í þessu sambandi. Það er út af fyrir sig alveg rétt og ef við horfum á þessa svokölluðu hliðrun, við skulum kalla þetta hliðrun, við getum líka kallað það að vega þetta andspænis öðrum breytum, þá erum við með yngri þjóð en ýmsar aðrar þjóðir sem þýðir að við ættum kannski að verja meiru til menntamála en ýmsar aðrar þjóðir.

Þar að auki erum við með lægra menntunarstig og það er áhyggjuefnið okkar. Við erum með lægra menntunarstig en margar aðrar OECD-þjóðir. Þess vegna ættum við líka að vera með meiri framlög til menntamála, ef það er tekið inn í myndina, en þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Við erum ekki enn búin að ná því stigi að geta sagt að við séum að leggja sambærilegt til háskólastigsins og aðrar Norðurlandaþjóðir.

Ég geri mér alveg grein fyrir að ekki er hægt að ná slíkum áföngum eins og hendi sé veifað. Það þarf að vinna skipulega að því, hafa um það einhverja sýn hvert menn ætla að vera komnir og gera það síðan í einhverjum áföngum.

Það sem ég er að segja er að á þessum tíu árum hafa menn vanrækt þetta. Það er auðvitað ekki hægt að gera það í einum fjárlögum sisvona, hér og nú. En þetta hefur verið vanrækt á síðustu árum og þess vegna erum við ekki komin lengra en raun ber vitni. Þetta er hitt áhyggjuefnið þegar við komum að því að renna stoðum undir atvinnulíf framtíðarinnar, að við erum að vega að nýsköpunargreinunum, við erum að vega að nýgræðingnum í atvinnulífinu vegna þeirrar hávaxtastefnu og hágengisstefnu sem hér ríkir. En við erum heldur ekki í rauninni tilbúin að mæta þessum nýju atvinnugreinum vegna þess að við höfum ekki sinnt nógu vel grunninum sem er menntakerfi þjóðarinnar.

Ef til vill er ekki sérkennilegt, virðulegur forseti, í ljósi þess sem ég hef verið að segja — annars vegar hafa menn ekki verið nógu stefnufastir og ákveðnir í uppbyggingu menntakerfisins og hins vegar að menn hafa misst af tækifærinu á þessum tíu árum til að gera betur við það fólk sem verst er sett í samfélaginu — að tekist sé á um þrjá málaflokka núna í samfélaginu, eða sem hefur verið að koma upp á yfirborðið að verið sé að takast á um af mestri hörku í samfélaginu núna. Það eru byggðamálin, átökin í kringum Byggðastofnun og það sem þar er að gerast. Það eru málefni öryrkja og aldraðra. Ég vil leyfa mér að segja að ég hef sjaldan upplifað eins mikinn þunga og er í hópum aldraðra og öryrkja og núna. Ráðherrar og stjórnarþingmenn hljóta að finna þetta líka. Þessa uppsöfnuðu reiði, þennan urg, þessa óánægju sem er hjá þeim hópum. Það eru sem sagt byggðamálin og Byggðastofnun vegna þess að ójöfnuðurinn hefur verið að aukast á milli höfuðborgar og landsbyggðar. Það eru aldraðir og öryrkjar vegna þess að ójöfnuðurinn hefur verið að aukast á milli almenns launafólks og þessara hópa. Og svo er það þriðja sem eru menntamálin.

Það eru deilur nánast hvar sem litið er í menntakerfinu. Það eru deilur út af samræmdu stúdentsprófunum, það eru deilur út af styttingu framhaldsskólans, það eru deilur út af fjárframlögum til Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Af hverju skyldu menn nú vera með þennan uppsteyt út um allt ef allt væri í lukkunnar velstandi og það hefði bara flætt fjármagn úr ríkissjóði til þessara stofnana? Ég hygg að ástæðan fyrir deilum í menntamálunum sé einmitt þessi átakanlegi skortur á stefnumörkun og stefnufestu í menntamálum. Ég held að menn mundu betur sætta sig við þó að allt gangi ekki alltaf að óskum og þó þeir fái ekki allt sem þeir biðja um ef þeir væru vissir um hvert væri stefnt. Það vantar ekki að hér koma mjög staffírugar yfirlýsingar yfirleitt frá menntamálaráðherra um öll möguleg mál sem lúta að menntakerfinu. Og hún kemur fram og er mjög ákveðin í skoðunum sínum og afstöðu til þess sem á að gera eða ekki að gera. En þegar upp er staðið verður óskaplega lítið úr framkvæmdum og lítið úr efndum eins og sést best á því að líklega hefur komið eitt EES-mál inn í þingið í haust frá menntamálaráðuneytinu fyrir utan frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sem er væntanlegt á næstu dögum og tengist í sjálfu sér ekki menntakerfinu. Það er ekki nóg að vera staffírugur í tali þegar stefnan er óljós og þar að auki sífellt verið að breyta um kúrs. Tekið sterkt til orða en svo er snúið við á miðri leið.

Virðulegi forseti. Ég vitnaði í orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar þar sem hann talaði um bótakerfið, sem gæti ekki verið betra en svo að framleiðslukerfi okkar geti staðið undir því, í þeim mikla hagvexti sem hér hefur verið. Í því mikla góðæri sem hér hefur ríkt getur kerfið ekki staðið undir betri bótum en raun ber vitni. Hvaða bótakerfi erum við að tala um? Það kemur skýrt fram í skýrslu Stefáns Ólafssonar, um örorku og velferð á Íslandi. Það væri hægt að tína ýmis dæmi upp úr skýrslunni en það sem kemur hins vegar skýrast fram í henni er að það er kannski ekki öðru fremur það sem menn hafa sett í örorkubótakerfið með stjórnvaldsákvörðunum sem veldur þeim mismun sem orðið hefur. Það er tvennt, öðru fremur, þ.e. aftenging launa og bóta og skattkerfisbreytingar. Þetta tvennt hefur mestar afleiðingar haft fyrir bæði öryrkja og aldraða.

Það sem mér fannst merkilegt við það sem Einar Oddur Kristjánsson sagði áðan, ég hjó eftir því og vona að ég sé ekki að barna orð hans, en mér fannst hann tala um að kannski væri ekkert óskaplega mikið að marka skýrsluna af því skýrsluhöfundur hefði ákveðnar skoðanir á velferðarkerfinu. Hann taldi að skýrsluhöfundur væri þeirrar skoðunar að við værum norrænt velferðarríki og ættum að hafa norrænt velferðarkerfi. Ég er einnig þeirrar skoðunar og 70%, kannski 75% þjóðarinnar eru þeirrar skoðunar. Það er ekki eins og það sé einhver jaðarskoðun. Sú skoðun er ekki úti á jaðrinum og telst ekki öfgakennd skoðun. Þessi skoðun byggir í raun á þeirri grundvallarforsendu að hér deili menn kjörum. Hér sé ein þjóð í einu landi, að menn deili kjörum hver með öðrum og hafi skilning á því að sérstaklega þegar vel árar þurfi að gera meira fyrir þá sem standa höllum fæti en hina.

Mér finnst ekki sæmandi að reyna að gera þessa skýrslu tortryggilega vegna þess að höfundurinn hafi tilteknar skoðanir á velferðarkerfinu, hvernig það eigi að vera. (EOK: Ég geri það ekki.) Það er gott, þá leiðréttir hv. þingmaður það, hafi hann ekki gert það. (EOK: Ég sagði að mér kæmu efnistök hans á óvart.) Efnistökin koma hv. þingmanni á óvart. Ég heyrði í umræðunni að talað var um að höfundurinn færi ekki í grafgötur með afstöðu sína í þessum málum. Ég trúi því treysti að það hafi ekki áhrif á umræðu manna um þá skýrslu eða afstöðu þeirra til þess sem fram kemur í skýrslunni, að menn tortryggi skýrsluna vegna þess að Stefán Ólafsson sé þeirrar skoðunar að hér eigi að vera norrænt velferðarkerfi. Ég ætla að vona að það sé ekki raunin, að menn gagnrýni hana af þeim sökum. Það skiptir í sjálfu sér engu máli hver skoðun höfundar er. Spurningin er: Hvernig rök færir hann og hvaða upplýsingar koma fram? Ég vona að skoðun hans hafi ekki áhrif og menn fari að tortryggja skýrsluna af þeim sökum. Nóg er samt um þá tortryggni sem fólk í samfélaginu mætir sem ekki er sammála hæstv. ríkisstjórn um það sem hún gerir.

Í því sambandi ætla ég að tala aðeins, það verður örstutt, virðulegi forseti, um Mannréttindaskrifstofuna. Það sem gerðist varðandi Mannréttindaskrifstofuna við afgreiðslu fjárlaga síðast, sem virðist ætla að endurtaka sig við afgreiðsluna núna, er ekkert annað en eineltisstjórnmál. Tekið er á sjálfstæðum stofnunum og þær skornar niður við trog vegna þess að þær skoðanir sem þar eru uppi, sú afstaða sem þar er sett fram, sú vinna sem þar er unnin, er ekki með samþykki og samkvæmt sjónarmiðum þeirra sem sitja í ríkisstjórn.

Við afgreiðslu fjárlaga síðast var talað um að þótt fjármagn væri ekki eyrnamerkt sérstaklega til Mannréttindaskrifstofu eða nákvæmlega ákveðið við afgreiðslu fjárlaga til hvaða þátta féð færi þá mundu framlögin fara til mannréttindamála. 4 millj. kr. í dómsmálaráðuneytinu og 4 millj. kr. í utanríkisráðuneytinu mundu klárlega fara til mannréttindamála og menn gætu treyst því. Menn sögðu að hér væri um formbreytingu að ræða en ekki efnisbreytingu. Til mannréttindamála skyldu þessi framlög fara. Gegnum dómsmálaráðuneytið, sýnist mér, hefur féð gengið til mannréttindamála. En hvað hefur gerst í utanríkisráðuneytinu? Hvað hefur gerst þar? Af þessum 4 millj. kr. hafa 800 þús. kr. farið til mannréttindamála en 3,2 millj. kr. er enn óráðstafað á þessum tímapunkti. Talað var um að þetta ætti að fara í sérstakan mannréttindafulltrúa hjá ÖSE, að þar ættu Íslendingar einhvern vonarpening í einhverri stöðu og þetta ætti að fara til þess. Nú liggur ljóst fyrir og hefur legið fyrir síðan í haust að Íslendingar fá ekki þennan mannréttindafulltrúa hjá ÖSE. Peningarnir fara ekki í það. Þegar það varð ljóst sótti Mannréttindaskrifstofan aftur um til utanríkisráðuneytisins og fékk ósköp einfaldlega synjun. Þar liggja eftir 3,2 millj. kr. til mannréttindamála sem ekki eru notaðar í utanríkisráðuneytinu.

Ég er ekki á móti því að menn fari sparlega með fé. En ég trúi því að einhvers staðar sé stærri aðili sem gæti þolað meiri niðurskurð en Mannréttindaskrifstofan og að einhver staðar séu breiðari bök til að taka á sig þann niðurskurð en á Mannréttindaskrifstofunni. Það mætti kannski spara annars staðar í utanríkisráðuneytinu. Einhvers staðar hlýtur að vera matarhola í utanríkisráðuneytinu upp á 3,2 millj. kr. sem menn gætu sparað þótt þeir létu þessa peninga ganga til mannréttindamála. Ég trúi því að í risnu, ferðakostnaði og dagpeningum og öðru slíku hljóti einhvers staðar að liggja um 3,2 millj. kr. sem menn gætu séð af ef þeir vildu sinna mannréttindamálunum og sýna þeim einhvern sóma. En það gera þeir ekki.

Það er ljóst að þegar þetta var ákveðið við afgreiðslu fjárlaga í fyrra var ekki bara um formbreytingu heldur pólitíska ákvörðun að ræða, að skera þessa skrifstofu niður við trog vegna þess að sjónarmið manna þar voru stjórnvöldum ekki hugnanleg. Það er því miður þannig í samfélagi okkar að margir veigra sér við að setja fram afgerandi skoðanir sem ekki njóta velþóknunar á stjórnarheimilinu. Menn gætu einmitt lent í þessu. Til þess eru vítin að varast þau. Nú er búið að sýna mönnum hvernig hægt er að standa að verki og það var gert gagnvart Mannréttindaskrifstofunni.

Ég ætla að trúa því og treysta — spurningin er hvernig við stöndum að því máli — að Mannréttindaskrifstofan fái þau fjárframlög sem hún þarf til að standa undir starfsemi sinni.