132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:24]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ræðumaður sagði hreint út að við værum að vanmeta útgjöld næsta árs. Hún taldi það stafa af fegrunaraðgerðum af okkar hálfu, það væri fallegra að sjá frumvarpið ef þar væru minni útgjöld. En svo sagði hún líka að við værum örugglega að vanmeta tekjurnar. Það var þá fegrunaraðgerð líka. Ég hélt að frumvarpið liti fallegar út ef það sýndi meiri tekjur. Það er einhver vitleysa í þessu og hún hefur ábyggilega ekki hugsað þetta nægilega rétt. Ég ætla að benda á að það hefur komið fram margsinnis að kaupmáttur almennings á Íslandi hefur aukist um meira en 50% á tíu árum. Það er ekki undarlegt að ákveðnar stéttir hafi ekki náð því meðaltali. Á því eru til skýringar og við höfum margsinnis farið yfir það hvernig bótagreiðslum er háttað.

Það kom fram hjá hv. þingmanni, sem er alveg rétt og ég ætla að taka undir það með henni, að mikill ójöfnuður hefur orðið milli launagreiðslna á Reykjavíkursvæðinu og í þéttbýlinu, í þéttbýlinu sem byggir alla afkomu sína á framleiðslunni, samkeppnisiðnaði og útflutningsgreinum. Ég minni á að fyrir meira en ári stóð ég og mótmælti þeirri vaxtastefnu, hávaxta- og hágengisstefnu, sem þá var kynnt og hóf innreið hér. En kom einhvern að hjálpa mér? Ég man ekki eftir að nokkur maður úr Samfylkingunni hafi tekið undir með mér. Ég minnist þess ekki. Ég man ekki eftir að nokkur maður hafi samþykkt það þegar ég fór rækilega yfir það sem mundi gerast og hvernig landsbyggðin færi út úr þeirri þróun.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hv. þingmann: Er það rétt skilið hjá mér, sem ég þóttist lesa í opnugrein í Morgunblaðinu, að hv. þingmaður vilji miða bætur almannatrygginga við launavísitölu og þróun hennar?