132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:29]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var svo dularfullt að meira að segja ég gat ekki skilið þetta. Þá er nú mikið sagt.

Við höfum því miður fylgt efnahagsstefnu varðandi gengi íslensku krónunnar sem hefur komið illa við framleiðslu á Íslandi og við samkeppnisstöðuna. Stefnan hefur komið illa við þau fyrirtæki í framleiðslu og getu þeirra til þess að borga verkafólkinu sem vinnur við framleiðsluna laun. Það hefur setið eftir. Það er alveg hárrétt.

Ég hef reynt að mótmæla þessu og sagt að þessi rétttrúnaður í Seðlabankanum geti ekki leitt nema til ófarnaðar, til skuldasöfnunar erlendis sem muni hefna sín grimmilega, fyrr en seinna. Það er sá ójöfnuður sem er okkar vandamál.

Ef ég fæ ekki svar við því hvort bæturnar eigi að fylgja launavísitölu, eins og lesa mátti í greininni í gær, þá hlýt ég að halda að svo sé í dag. Ég benda hv. þingmanni í fullri vinsemd á að velta fyrir sér hvað menn geri þegar framfærsluvísitalan verður hærri en launavísitalan. Hvað gera menn þá? Þá rýrna kjör fólksins. Ætla menn þá að miða bæturnar við launavísitöluna? Menn verða að hugsa þetta til enda, það eru tvær hliðar á hverjum peningi. Eins og við höfum gengið frá þessu í núgildandi lögum miðast bæturnar við almenna þróun launa nema þegar kjararýrnun verður, þá miðast bæturnar við neysluvísitöluna til að forða því að þær stéttir sem standa veikast að vígi, öryrkjar og eldri borgarar, fái á sig kjararýrnun. Það er megininntakið.

Við viljum koma í veg fyrir að það endurtaki sig sem gerðist því miður á árunum 1988–1991 að kjararýrnun öryrkja og eldri borgara varð mjög mikil, meira að segja meiri en launþega. Þegar launþegar urðu fyrir (Forseti hringir.) 10% kjaraskerðingu skertust kjör öryrkja um 16%. Það viljum við ekki að endurtaki sig.