132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:31]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal byrja á að svara þessu með launin og bæturnar. Sú gliðnun sem hefur orðið varð vegna þess að við afgreiðslu fjárlaga 1996 tóku menn hina beinu tengingu launa og bóta úr sambandi. (EOK: Það var 1992.) En til að tryggja að menn yrðu ekki fyrir kaupmáttarrýrnun var sett inn ákvæði, eins og hér hefur komið fram, um að hún mundi aldrei fara lægra en neysluverðsvísitalan. Það er auðvitað hægt að fara ýmsar leiðir í þessu. Það er hægt að setja inn að það sé hægt að miða við þá vísitöluna sem hærri er hverju sinni. Það er víst hægt að gera það. (Gripið fram í.) Það er hægt að setja inn að það skuli miða við, við skulum segja að miða við launavísitöluna, verði þróun neysluverðsvísitölunnar hins vegar þessum hópum hagstæðari, þá skuli miða við hana. Það er auðvitað hægt að fara og setja allt mögulegt inn í lögin ef menn vilja raunverulega tryggja að þessir hópar sitji ekki eftir heldur njóti þeirrar kaupmáttaraukningar sem verður í samfélaginu.

Hins vegar varðandi stefnu Seðlabankans, þá hlýt ég að vísa ummælum þingmannsins til föðurhúsanna. Auðvitað kemur þetta niður á landsbyggðinni. Auðvitað kemur þetta niður á þróun hátæknigreinanna. En eins og ég sagði áðan, það eru stjórnvaldsaðgerðir sem valda þessu. Það eru ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið og það er skortur þeirra á samráði við alla þá aðila sem eru á þessum markaði og eru áhrifavaldar, þar er orsakavaldurinn. Það er ekki Seðlabankinn sem er orsakavaldurinn í þessu efni, það er ríkisstjórnin sjálf. Þegar hin kröftugu meðul Seðlabankans koma í formi vaxtahækkana, stýrivaxtahækkana og það fer að bíta þá er það bara lyfið sem gefið er. Væntanlega telur þá hv. þingmaður að þetta sé röng lyfjagjöf hjá Seðlabankanum, en það er bara ekki mörgum öðrum til að dreifa.