132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:33]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, svo notuð séu hennar eigin orð, ræddi hér staffírug um efnahagsmálin við 3. umr., eins og hún sagði að væri eðlilegt að gera í fjárlagaumræðum. Þetta er reyndar hennar fyrsta ræða í fjárlagaumræðunni í ár ef ég hef tekið rétt eftir. (ISG: Það er ekki rétt tekið eftir hjá þér.) Hún fór enn einu sinni með tölur frá Samfylkingunni um að það hefði verið 90 milljarða mismunur á fjárlögum og niðurstöðum á síðustu fjórum árum. Þarna er enn þá einu sinni verið að bera saman epli og appelsínur þar sem óreglulegir liðir eru ekki teknir með í reikninginn, svo sem afskrifaðar skattakröfur, greiðslur í lífeyrissjóði, vaxtagjöld og þar fram eftir götunum. Hv. þingmaður gerði að umræðuefni það sem hún telur vera aukinn ójöfnuð í þjóðfélaginu. Það getur vel verið að það sé einhvers staðar aukinn ójöfnuður í þjóðfélaginu. Ég skal ekki fullyrða nákvæmlega um það. En hann er ekki orðinn til vegna þess að öryrkjar og aldraðir hafi ekki notið sömu kaupmáttaraukningar og aðrir hafa gert. Á árunum 1995 til 2005 hækkaði launavísitala um 37% en á meðan varð kaupmáttaraukning þeirra raungreiðslna sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir til sömu aðila um 58%, þ.e. kaupmáttur tengdur launavísitölunni hækkaði um 37% meðan kaupmáttur raungreiðslna Tryggingastofnunar ríkisins hækkaði um 58%.

Hins vegar gerðist það á sama tíma að hjá Reykjavíkurborg lækkaði hlutfall félagslegra bóta sem þar eru greiddar sem hlutfall af greiðslum Tryggingastofnunar úr því að vera 105% af greiðslum Tryggingastofnunar niður í 80%, þegar ekki er tekið tillit til aldurstengdrar uppbótar hjá örorkulífeyrisþegum. Og hver skyldi hafa ráðið ríkjum á þessum tíma hjá Reykjavíkurborg?