132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:37]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að byrja á að biðja hv. þingmann afsökunar á því að mér skyldi hafa skjöplast minnið. En það er sennilega vegna þess að ég taldi að hún ætti að vera mér eftirminnilegri úr ræðustólnum en að hún reyndist vera. En ég skal reyna að bæta úr þessu í framtíðinni.

En hins vegar varðandi það sem hún segir um eðlismun á bótum félagsþjónustu Reykjavíkurborgar og bótum Tryggingastofnunar þá má vel vera að þar sé einhver munur á. En eftir sem áður hljóta þær bætur að vera þeim sem á þeim þurfa að halda jafnmikilvægar. Og því ættu bæturnar hjá Reykjavíkurborg ekki að dragast svona aftur úr á tímabili eins og hér er um að ræða og að því hefði hv. þingmaður auðvitað átt að gæta á þeim tíma sem hún hafði tök á því að hafa áhrif á þau mál.

Hv. þingmaður nefndi nokkur fleiri atriði sem vert er að tala um. Hún hefur áhyggjur af menntamálunum. En finnst henni ekki nokkuð vel í lagt að fjármunir til menntamála aukist um 12% á milli ára og um 20% yfir tveggja ára tímabil? Er það of lítið þegar á sama tíma er verið að tala um slaka í útgjöldum, bæði hvað varðar framkvæmd fjárlaganna og eins í fjárlagatillögunum, af hálfu hv. talsmanna hennar flokks í þessum efnum?

Hv. þingmaður talaði líka um að það hefði verið góðæri í landinu. En góðæri kemur ekki af sjálfu sér. Það þarf að hafa fyrir því. Það hafa tveir flokkar setið við stjórnvölinn í 10 ár. Og þeir hljóta að eiga einhvern hlut í því góðæri sem hv. þingmaður var að nefna. Hv. þingmaður nefndi líka að góðærið ætti að einhverju leyti upptök sín í því að við samþykktum EES-samninginn. Ég get verið sammála henni um það. En kom hún eitthvað nálægt því? (Forseti hringir.) Hafði hún eitthvað með það að gera að EES-samningurinn var yfir höfuð samþykktur?