132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:40]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá ráðherra sem hér stóð og talaði er alveg með endemum minnislaus ráðherra. Það hefur ekkert með það að gera hvort mínar ræður eru ódauðlegar eða ekki. Í fyrsta lagi man hann ekkert eftir því sem gerðist nú í vikunni, ekki síðustu heldur þar áður eða kannski aðeins fyrr, en þá talaði ég um fjárlagafrumvarpið. Í öðru lagi man hann ekkert eftir því heldur hvernig umræðan um EES-samninginn fór fram. Vegna þess að ég studdi EES-samninginn efnislega og lýsti þeim stuðningi yfir hér í ræðustól Alþingis og fékk fyrir það ýmsar kárínur (ÁMM: Greiddirðu atkvæði með honum?) en ég greiddi ekki atkvæði með honum vegna þess að ég taldi að þar væri um stjórnarskrárbrot að ræða. Ég taldi að þingið hefði ekki heimild til að framselja fullveldið með þeim hætti sem gert var í samningnum og það var af þeim sökum sem ég tók þá afstöðu að greiða samningnum ekki atkvæði mitt. En ég tók skýra afstöðu með samningnum og ég ætla að biðja þingmanninn að leita það líka uppi í þingtíðindunum. Því minnið er greinilega alveg óskaplega brigðult hjá hæstv. ráðherra.

Varðandi skólamálin vil ég segja að þótt 12% aukning hafi orðið milli ára, sem skýrist auðvitað að hluta til vegna þess að mikil nemendafjölgun á sér stað og henni verður auðvitað að mæta með fjárframlögum, þá vil ég benda á hvernig sveitarfélögin og Reykjavíkurborg þar í fararbroddi hafa staðið að uppbyggingu grunnskólans og hvernig þau tóku við honum úr höndum ríkisins og þess vegna segi ég líka: Sveitarfélögin eiga að taka við framhaldsskólunum. Ríkið og sú ríkisstjórn sem nú situr er ekki til þess bær að fara með málefni framhaldsskólans, sveitarfélögin eiga að taka þar yfir og byggja upp framhaldsskólann af sama metnaði og þau gerðu með grunnskólann. Það þarf ekki annað en að líta á húsnæðiskostinn, tölvukostinn, búnaðinn eða kennsluna. Það er alveg sama hvert litið er, það er himinn og haf á milli grunnskólans, hvernig hann hefur verið uppbyggður af hálfu sveitarfélaganna og Reykjavíkurborgar, og hins vegar framhaldsskólans.