132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[20:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni að ég hafði rætt svolítið um málefni Háskólans á Akureyri og byggðamál. Reyndar byrjaði ég á því að ræða aðeins um vinnubrögð hv. fjárlaganefndar milli umræðna því að það vakti satt best að segja verulega athygli að hv. nefnd virtist í byrjun ekki hafa ætlað sér að taka frumvarpið yfir höfuð inn í nefndina milli umræðna, sem þó er lögbundið og áskilið í þingsköpum. En úr því var bætt og nefndin hélt að mér er tjáð einn stuttan fund þar sem málið átti að heita tekið á dagskrá en í raun og veru þó eingöngu til að afgreiða það út aftur. Voru gefin þau svör, bæði leynt og ljóst, að ekkert þýddi að bera upp ný erindi eða ámálga afgreiðslu einstakra fjárlagaliða sem ekki höfðu fengið fullnægjandi fyrirgreiðslu eða meðhöndlun við 2. umr. því að búið væri að loka málinu. Menn virðast líta svo á að þeir geti tekið um það einhvers konar geðþóttaákvörðun að ákveða á einhverjum tilteknum tímapunkti að hér með sé málinu lokað og þar með koma menn ekki frekari rökum við, svona eins og um væri að ræða búð sem er með fyrir fram auglýstan opnunartíma. Þetta er svolítið snautlegt þegar í ljós kemur að í sumum tilvikum t.d. eru að koma fram nýjar upplýsingar og ný gögn í málum sem meira að segja fjárlaganefnd sjálf hefur óskað eftir.

Ég ætla að víkja aðeins að einu litlu atriði og stóru þó sem ég veit vel að fyrri ræðumenn hafa gert á undan mér, og einnig var nefnt af ýmsum og þar á meðal mér við 2. umr., en ég ætla að nefna það engu að síður og fara um það nokkrum orðum af því að smán hæstv. ríkisstjórnar verður kannski óvíða meiri en í því máli. Þar er ég að tala um afgreiðsluna á Mannréttindaskrifstofu Íslands. Það er alveg ótrúlegt að menn skuli standa í slíku, að troða illsakir við slíka starfsemi sem hefur fengið fáeinar milljónir króna á fjárlögum undanfarin ár til þess að hægt sé að hafa einn starfsmann í föstu starfi, til þess að hægt sé að sinna í algjöru lágmarki þó þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi á sviði mannréttindamála, t.d. að vera fulltrúi Íslands gagnvart mannréttindastarfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það hefur Mannréttindaskrifstofan sannarlega gert og sinnt því hlutverki með ágætum, meira að segja svo miklum ágætum að núverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hét hann síðast þegar ég vissi, hældi Mannréttindaskrifstofunni sérstaklega í ræðu, eða hvort það var ekki bréf sem frá honum gekk í embætti þá sem utanríkisráðherra, og taldi það til marks um stuðning íslenskra stjórnvalda við mannréttindastarf að Mannréttindaskrifstofunni væri nú lagt fé og starfsemi hennar tryggð með stuðningi stjórnvalda. Þetta var þannig eins og menn muna að skrifstofan fékk fjárveitingar úr tveimur áttum en þær voru eyrnamerktar henni, 4 milljónir í hvoru tilviki, annars vegar frá dómsmálaráðuneytinu og hins vegar utanríkisráðuneytinu, en við fjárlagaafgreiðsluna var þetta gert þannig að þessar fjárveitingar voru eyrnamerktar Mannréttindaskrifstofunni. Hún gekk að fjárveitingum sínum vísum í gegnum þessa tvo mismunandi farvegi upp á þessa upphæð, ef man rétt, árin hér á undan.

Þangað til í fyrra að það bar svo við að í öðru tilvikinu birtist fjárlagaliðurinn hér, ég hygg að það hafi verið í dómsmálaráðuneytinu, þegar við vorum að skoða fjárlagafrumvarpið fyrir árið í ár á haustþinginu 2004, að þá er þetta allt í einu orðinn almennur liður til mannréttindamála. (Gripið fram í.) Ætli það hafi ekki verið í dómsmálaráðuneytinu sem þannig var frá málinu gengið þannig að Mannréttindaskrifstofan gat ekki lengur gengið að því sem vísu að hún fengi þetta fé, enda var upplýst og boðað að nú yrði hún að sækja til ráðuneytisins um fjárveitingu eins og aðrir aðilar gætu gert sem sinntu verkefnum á sviði mannréttindamála. Og svona til að láta þetta ekki nægja tók meiri hlutinn sig til og breytti þessu hjá hinu ráðuneytinu líka. Í báðum tilvikum var því hætt að merkja Mannréttindaskrifstofunni þessa fjármuni þannig að hún gengi að þeim vísum og þetta sett undir vald ráðherrans á því formi að menn yrðu að sækja til hans um fjárveitinguna.

Þetta var auðvitað gagnrýnt harðlega og m.a. bent á hversu óviðeigandi þetta væri þegar í hlut ætti aðili eins og Mannréttindaskrifstofan sem m.a. og ekki síst hefur það hlutverk að veita stjórnvöldum aðhald, gagnrýna þau og gefa álit sitt á frammistöðu þeirra í samstarfi við erlenda aðila til upplýsingamiðlunar á alþjóðavettvangi. Þetta létu menn hér eins og vind um eyru þjóta, gerðu þessar breytingar og það sem verra var, menn reyndu að afsaka sig og komast ódýrt frá afgreiðslunni við fjárlagagerðina í fyrra með því að sverja og sárt við leggja að þetta væri bara kerfisbreyting, Mannréttindaskrifstofan mundi að sjálfsögðu fá þessa peninga eins og verið hefði. Ég þykist muna að ekki ómerkari maður en formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Magnús Stefánsson, hafi tekið þátt í þessu. Það voru fleiri en einn og fleiri en tveir stjórnarliðar sem reyndu að afgreiða málið svona í fyrra. En hver var reyndin? Það reyndist ekki orð að marka þetta og fótunum var kippt undan rekstri Mannréttindaskrifstofunnar með því að láta hana aðeins hafa brot af þeim fjárveitingum sem hún hafði gengið að vísum undanfarin ár. Mér er meira að segja sagt að ónotaðir séu inni í öðru ráðuneytinu einhverjir peningar sem til stóð að setja í annað mál en Mannréttindaskrifstofan fær þá ekki eða hafði ekki gert síðast þegar ég vissi.

Frú forseti. Hvar er hv. þm. Magnús Stefánsson? Vill hann fara yfir það með okkur sem hann sagði hérna í fyrra? Hvar er hæstv. dómsmálaráðherra? Eru menn hreyknir af þessu? Finnst mönnum það á sig leggjandi fyrir ekki stærra mál en þetta í fjármunum talið að troða illsakir við þessa litlu veikburða skrifstofu sem er að reyna að halda uppi merkjum mannréttindabaráttu og alþjóðlegrar samvinnu og alþjóðlegrar þátttöku af Íslands hálfu í samstarfi á því sviði? Hverjir eru bakhjarlar þessa starfs? Það eru mannúðarsamtök, líknarfélög, samtök öryrkja og aðrir slíkir aðilar. Það eru undirfélög stofnana Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Amnesty International, UNIFEM og slíkir aðilar, Kvenréttindasamtök Íslands og hvað það nú er. Þetta eru aldeilis óvinirnir sem ríkisstjórnin telur ekki eftir sér að kljást við. Það er nú gaman fyrir ríkisstjórnina að glíma við svona verðuga andstæðinga, er það ekki, eins og Mannréttindaskrifstofu Íslands, eins manns stofnun sem menn hafa verið að reyna að halda úti hér af ákaflega veikum burðum. En það virðist henta hæstv. ráðherrum að þjóna lund sinni m.a. í þessu og stjórnarmeirihlutinn er þá ekki stærri í sniðum en svo að þingmennirnir ganga götuna á eftir foringjum sínum án þess að hiksta, án þess að þaðan heyrist hósti eða stuna.

Ég óska eftir því að hv. þm. Magnús Stefánsson komi hingað áður en þessari umræðu lýkur og fari yfir þetta með okkur, rifji upp það sem hann sagði um málið í fyrra. Ég vil ekki leggja hv. þingmanni orð í munn eða gera honum upp skoðanir ef ég fer ekki alveg hárrétt með en það stendur ákaflega sterkt í minni mínu að hv. þm. Magnús Stefánsson og fleiri talsmenn stjórnarliðsins hafi reynt að afgreiða máli í fyrra með því að fullvissa okkur um að þetta væri bara kerfisbreyting. Það væri bara verið að skíra liðinn upp á nýtt en það yrði ekki nein efnisbreyting og Mannréttindaskrifstofan fengi sína peninga. Finnst formanni fjárlaganefndar þá gaman að mæta hér til leiks ári síðar með útkomuna í málinu eins og raun ber vitni? Er það bara allt í lagi? Ekki nokkur ástæða til að taka á því máli milli 2. og 3. umr. enda búið að loka. Lokað klukkan sex, segir formaður fjárlaganefndar, ef menn koma mínútu yfir.

Það er líka þannig, frú forseti, svo maður tali nú líka um þetta kannski af því viti sem á við í þessu máli að hæstv. ríkisstjórn ætti nú aðeins að gá að sér með þann feril sem hún á að baki í þeim efnum þegar kemur að samskiptum og ýmsum mannréttindatengdum atriðum. Ætli þetta sé ekki ríkisstjórnin sem misnotaði nafn Íslands og studdi hið ólögmæta árásarstríð í Írak? Og ætli þetta sé ekki ríkisstjórnin sem er svona heldur linkuleg þegar kemur að því að krefja Bandaríkjamenn svara og tryggja að Ísland sé ekki gert meðsekt í þeirri óhæfu sem nú hefur verið upplýst um ólöglegt fangaflug, rekstur leynifangelsa og flutninga á föngum fram og aftur um heiminn, sem er haldið án dóms og laga í búrum, hlekkjuðum í samfestingum án þess að þeim sé birt ákæra, án þess að þeir fái lögfræðiaðstoð, án þess að þeir njóti lágmarksmannréttinda annaðhvort sem stríðsfangar eða borgarar? Ætli veiti nú af að hafa virkt starf á verksviði mannréttindamála þegar svona er í pottinn búið í heiminum? Þeir tímar eru liðnir að Ísland sé hér í friði með sín mál, einangrað frá umheiminum og komi þessir hlutir ekki við. Það hafa m.a. þeir höfðingjarnir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, núverandi hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi, gert að verkum með því að þvæla Íslandi inn í stríðsrekstur og með því að styðja loftárásir og ýmsar aðgerðir hernaðarhaukanna í Bandaríkjunum og í NATO. Það er bara alveg jafnbrýnt og gilt að hér á Íslandi sé haldið uppi vakandi starfi á sviði mannréttindamála og vöktunar í þeim efnum og að íslenskum stjórnvöldum sé veitt aðhald eins og öðrum.

Ferill okkar er kannski ekki alveg eins glæsilegur og við höldum þegar betur er að gáð. Staðreyndin er nefnilega sú að í skýrslum, bæði frá Sameinuðu þjóðunum og aðilum í Evrópu, hafa íslensk stjórnvöld ítrekað fengið áminningar og umkvartanir fyrir ýmislegt sem ekki hafði verið í lagi í stjórnarframkvæmd okkar og í löggjöf okkar og við erum heldur ekki laus undan ábyrgð, a.m.k. ekki gagnvart þeim hlutum sem okkur hefur verið þvælt inn í með þeim hætti sem ég hef hér farið yfir.

Það er því þeim mun meira óviðeigandi að svona skuli vera komið fram við það veikburða starf sem þarna hefur verið unnið og menn þó almennt sammála um að hafi tekist ótrúlega vel miðað við hvað menn hafa þar haft úr að moða. Það hefur rignt yfir okkur þingmenn áskorunum, ég geri ráð fyrir að það hafi ekki bara verið stjórnarandstaðan sem fékk þær. Áskoranir skipta orðið tugum, víða að úr þjóðfélaginu, að kippa þessu litla máli í liðinn, að sjá til þess að Mannréttindaskrifstofan hafi tryggar fjárveitingar og geti sinnt starfi sínu óháð stjórnvöldum og þurfi ekki að fara að knékrjúpa og mæta í viðtöl hjá þeim hinum sömu ráðherrum og hún á m.a. að hafa eftirlit með. En þannig vilja þeir hafa þetta, höfðingjarnir, það þjónar lund þeirra.

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að láta taka kaleikinn frá sér. Nú er þetta alfarið orðið hausverkur dómsmálaráðuneytisins, að taka við umsóknum þeirra sem sinna verkefnum á sviði mannréttindamála. Eða finnst mönnum sérstaklega viðeigandi að dómsmálaráðuneytið úthluti þessum peningum, frú forseti? Ráðuneytið fer með þau mál sem gjarnan hafa mesta mannréttindaskírskotun og eru tengdust þeim málaflokki. Nei, ég er ekki viss um að það sé mjög rökrétt eða skemmtilegt. Látum vera að forsætisráðuneytið eða fjármálaráðuneytið hafi starfið með höndum. En eitt síðasta ráðuneytið sem ætti að vera í þessari stöðu gagnvart eftirlits- og aðhaldsaðilum á sviði mannréttindamála er einmitt dómsmálaráðuneytið, af ástæðum sem þarf ekki að útskýra.

Langeðlilegast, frú forseti, er að Alþingi afgreiði þetta mál og sjái einfaldlega um að Mannréttindaskrifstofan hafi trygga fjármuni til þeirrar starfsemi sem talin er duga að lágmarki. Mætti örugglega færa rök fyrir því að til þess þyrfti meira en það sem hún hefur fengið undanfarin ár. En að svelta hana þannig að menn séu á harðahlaupum um þjóðfélagið, að reyna að skrapa saman peningum og vera upp á náð og miskunn velviljaðra aðila komnir til að halda þeirri starfsemi úti, er til skammar. Það er ríkisstjórninni til minnkunar að standa þannig að verki og öllum þingmönnum hennar, stuðningsmönnum hennar, sem láta hafa sig til þeirra verka að greiða því atkvæði. Ég skora á menn að skoða hug sinn vel til að styðja breytingartillögur um að Mannréttindaskrifstofan fái trygga fjármuni og þeir verði færðir undir Alþingi þannig að hún þurfi ekki að vera upp á náð og miskunn ríkisstjórnarinnar komin.

Fleiri málaflokkar, frú forseti, fá ekki afgreiðslu sem hægt er að segja að sé sómasamleg. Tímans vegna nefni ég fyrst og fremst tvennt. Ég nefni málefni aldraðra og hjúkrunarheimili og uppbyggingu á því sviði. Í þeim efnum er mikið metnaðarleysi hjá ríkisstjórn, ekki síst í ljósi hinnar miklu umræðu sem orðið hefur í þjóðfélaginu um aðbúnað og kjör aldraðra, sem eru langt frá því að vera sómasamleg. Í mörgum tilvikum eru húsnæðismál á gömlum þröngum hjúkrunarheimilum þannig að ekki er hægt að ræða kinnroðalaust um það. Aldrað fólk er í fjölbýli, sem nánast þekkist ekki orðið í nálægum löndum. Ástand þess húsnæðis er oft og tíðum ekki sérlega beysið.

Sama gildir um kjör þess hóps aldraðra sem ekkert hefur annað en tryggingabæturnar. Ef menn búa heima hjá sér og reyna að reka heimili þá gefur augaleið að það er ekkert sældarlíf. Hvað þá hinir sem eru inni á stofnunum og fá hina margfrægu vasapeninga og hafa það eitt til ráðstöfunar fyrir sjálfa sig eða til að reyna að gleðja einhverja í kringum sig með jólagjöfum eða öðru slíku. Þetta er auðvitað neðan við allar hellur að ekki hafi verið tekið verulega á í þessum efnum. Ég tala ekki um þegar ríkidæmi þjóðfélagsins er jafnmikið og stjórnarherrarnir sjálfir þreytast aldrei á að tala um. Það stendur bunan upp úr mönnum þegar þeir koma í ræðustólinn. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson, brosti aftur á hnakka í dag þegar hann fjallaði um góðærið og hversu allt gengi vel. En hvernig stendur þá á því að ekki skuli hægt að gera aðeins betur við þennan hóp, sem hefur ekkert annað sér til framfærslu og er algjörlega óumdeilt að býr við einhver lökustu kjörin sem nokkrum er boðið upp á á Íslandi í dag? Um það er ekki deilt.

Frú forseti. Það er ástæða til að minna á að við erum að tala um að dæma til þessa ákveðinn hóp, í raun aðeins tiltekna kynslóð sem er núna komin á eftirlaun eða að fara á þau og hefur ekki myndað umtalsverðan eða jafnvel nokkurn lífeyrisrétt sökum þess að annaðhvort fór viðkomandi seint eða alls ekki að greiða í lífeyrissjóð eða að lífeyrissjóður viðkomandi er veikur. Við Íslendingar gerum okkur vonir um það, ekki satt, að innan svona 15–25 ára verði aðstæður velflestra talsvert breyttar að þessu leyti, ef áfram tekst vel til í uppbyggingu og rekstri lífeyrissjóðakerfisins. Þá fer að muna mikið um það sem þar hefur verið byggt upp, eftir svona 15–25 ár. Þá styttist í að kerfið komist í fullt jafnvægi, þ.e. að allir hafi þá greitt í lífeyrissjóð sem á annað borð hafa verið á vinnumarkaði og lokið fullri starfsævi. Þeir hafa eftir um 25 ár greitt í sjóð stærstan hluta starfsævi sinnar af öllum launum, frá og með 1996. Þá verður staðan vonandi verulega breytt. Þá má gera sér vonir um að almennt verði kjör þeirra betri en þau eru í dag. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að hafa á þessu ýmsa fyrirvara en svona lítur dæmið út og menn hafa meira að segja slegið því upp með gylltum stöfum og stórum fyrirsögnum hversu bjart sé framundan í þeim efnum. Ekki ómerkari maður en sáttasemjari ríkisins, hagfræðingurinn Ásmundur Stefánsson, hélt um það fræga tölu hversu gott þetta ætti að geta orðið innan 25–40 ára.

Við erum í raun að segja, með þeim hlutaskiptum sem við bjóðum upp á í dag, að við ætlum bara að láta þessa kynslóð ljúka ævi sinni við þessi bágu kjör en svo fái hinir miklu meira sem á eftir koma. Þarf að hafa þetta svona? Er ekki ríkidæmi þjóðfélagsins nóg til að við getum búið betur að þessu fólki, kynslóðinni sem nú er að fara á eftirlaun, sem byggði upp þetta land og við njótum öll góðs af. Þar er sennilega einhver vinnusamasta og fórnfúsasta kynslóð sem lengi hefur verið uppi í þessu landi, lýðveldisbörnin. Þeir sem tóku við af aldamótakynslóðinni. Við eigum mörg foreldra í þessum hópi og getum sjálfsagt rakið ýmislegt um hvernig var unnið á þessum árum, t.d. á þessum mestu uppbyggingarárum í sögu Íslands. Þar slógu menn ekki slöku við og eru margir slitnir eftir þau störf til sjávar og sveita, í borg og bæ, sem þá tóku til höndum og bjuggu til Ísland nútímans, í þeirri mynd sem það er í dag. Menn tala hér oft eins og klukkan hafi farið af stað 1991. Það er mjög algengt að menn tali eins og Ísland hafi nánast ekki verið til eða minnsta kosti verið á steinaldarstigi fram til 1991.

Reyndar var fyndið að heyra í dag hvaða tímabil menn tóku til viðmiðunar eftir því hvað hentaði þeirra pólitísku hagsmunum. Framsóknarmenn byrja alltaf 1995. Allt var alveg skelfilegt fyrir 1995 en þá kom sólin upp af því að Framsókn komst í ríkisstjórn. Aðrir muna eitthvað eftir tímabilinu 1991 til 1995. Sjálfstæðismenn tala með ósköpum um skelfingarástandið á árunum 1988 til 1991. Þeir minnast aldrei á það hverjir skildu við árið 1988. Þeir tala aldrei um hverjir báru ábyrgð á mesta kaldakoli í íslensku atvinnulífi og efnahagsmálum sem að á síðustu áratugum hefur litið dagsins ljós, þegar allt var að stöðvast og var í upplausn síðsumars og haustið 1988 þegar ríkisstjórn undir forustu Sjálfstæðisflokksins hrökklaðist frá völdum.

Fyndnast er þó þegar fulltrúar stjórnarflokkanna, annars hvors eða beggja, tala um hina svart/hvítu mynd, hversu allt sé gott síðan núverandi ríkisstjórn komst að völdum og hve skelfilegt allt hafi verið áður. Reyrt í boð og bönn, skelfileg höft og sósíalismi þannig að það var alveg skelfilegt. En hverjir voru nú lengst af við völd? Hverjir sátu lengst af í ríkisstjórnum allan lýðveldistímann og frá því að flokkastjórnmál urðu til á Íslandi? Sömu flokkar. Gallinn er nefnilega sá að á þeim tíma voru allt of sjaldan vinstri stjórnir. Þær gerðu mikið þegar þær komust til þess og voru við völd. En það eru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sem hitta öllum öðrum flokkum fremur sjálfa sig fyrir þegar þeir ræða um stjórnmál síðustu áratuga, og reyndar allrar síðustu aldar, á Íslandi. Er ekki Framsóknarflokkurinn stoltur af því að vera elsti starfandi stjórnmálaflokkur í landinu? Hann hefur verið oftar og lengur í ríkisstjórn en hann á skilið og nokkur glóra er í þannig að það hálfa væri nóg.

Það dugir ekki fyrir menn með lágmarksþekkingu á stjórnmálum að tala um hina dásamlegu tíma sem hafi haldið innreið sína frá 1995, eða 1991 þegar Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut, og bera saman við skelfinguna og ósköpin sem viðgengust áður eins og þeir hafi þar hvergi nærri neinu komið. Voru kannski Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn í stjórnarandstöðu frá 1930 og fram til 1991? Er það allt saman á ábyrgð einhverra annarra? Ég held ekki.

Það er dálítið merkilegt, frú forseti, hvernig menn tala stundum um hlutina. Þegar frá líður greina menn það með öðrum hætti og skoða sögu þjóða í lengri tímabilum og hvernig þeim vegnar óháð slíkum ártölum. Það er út af fyrir sig fróðlegt að skoða þróunina á Íslandi, hvort heldur við tökum útgangspunkt í upphafi heimastjórnar og þingræðis 1904, frá fullveldinu 1918 eða skoðum bara tímann frá og með lokum kreppunnar og þess vegna eftir seinna stríð. Þá kemur í ljós sá að flestu leyti ánægjulegi veruleiki að Íslandi hefur nánast samfellt vegnað mjög vel á þeim tíma. Það er mjög gleðilegt. Við erum að mörgu leyti gæfusöm þjóð. Við höfum náð miklum árangri. Síðasta öld, 20. öldin, var öld mikils árangurs og margra sigra á Íslandi í uppbyggingu þjóðfélagsins. Þar kemur margt til. Ég er ekki í vafa um að stór breyta í því var dugnaður, bjartsýni og kraftur þeirra kynslóða sem gerði Ísland að því sem það er, aldamótakynslóðarinnar sem endurheimti sjálfstæðið og fullveldið og síðan kynslóðarinnar sem byggði upp atvinnulífið og skóp nútímasamfélag á Íslandi, einkum og sér í lagi á árunum frá og með 1945 og fram til dagsins í dag.

Þar hafa margir lagt hönd á plóg. Menn hafa gert margt gott en þeir hafa líka gert ýmis mistök eins og skylt er að játa. Ég spái því að eftir 10–15 ár muni mönnum þykja umræðan um hið mikla góðæri og hinn ævintýralega árangur, sem menn hafa montað sig mikið af síðustu árin, harla sérkennileg. Það er ekki vegna þess að menn muni ekki viðurkenna að að ýmsu leyti hafi okkur vegnað vel. En þá verður önnur birta farin að falla á atburðina. Þá verður m.a. búið að reyna á, að ég óttast því miður með býsna sársaukafullum hætti, hve þungar byrðarnar verða á komandi árum af hinni gríðarlegu skuldsetningu þjóðarbúsins. Menn tala eins og þeir hafi alls enga hugmynd um þá staðreynd að frádráttarliðirnir á svokölluðu góðæri eru auðvitað hin gríðarlega skuldsetning þjóðarbúsins sem orðið hefur á þessum tíma og verður að standa undir. Væri það svo að skuldir hefðu allar stofnast vegna fjárfestinga í framleiðslutækjum og lagt grunninn að aukinni verðmætasköpun í öllum tilvikum þá væri það mikil huggun harmi gegn. Við mundum gera okkur von um arð af þeim fjárfestingum á komandi árum til að standa undir skuldunum. En það á við því miður um minni hlutann af viðskiptahalla undanfarinna ára og yfirstandandi viðskiptahalla. Hann er að meira en helmingi einfaldlega hrein umframeyðsla, umframneysla þjóðarbúsins sem tekið er lán fyrir erlendis.

Núna segir Seðlabankinn, frú forseti, að viðskiptahallinn verði sennilega 15–15,5%, er það ekki? (Gripið fram í: 15,6%) Eða 15,6% af landsframleiðslu. Það er náttúrulega meira en Íslandsmet. Það er langtum meira en fjármálaráðuneytið spáði. Þetta er hæsta spá sem hingað til hefur sést. Af hverju ætli hún sé svona há? Jú, það vegna þess að árið er að verða búið. Þetta eru að verulegu leyti rauntölur, að við rekum þjóðarbúið með um 150 milljarða kr. halla út á við á þessu ári. Það þýðir að við tökum lífskjör í verulegum mæli, neyslu okkar, að láni. Af þeim lánum þarf að borga síðar meir. Geta menn, hvort sem þeir eru forsætisráðherrar, þingmenn eða eitthvað annað, látið sem þetta sé ekkert vandamál? Er það ekki til að hafa neinar áhyggjur af að við rekum þjóðarbúið með dúndrandi halla ár eftir ár og söfnum hratt skuldum af því við teljum okkur trú um að það sé góðæri og því sé allt í lagi? Ég kem með engu móti auga á hvernig menn geta fjallað um hlutina með þeim hætti, frú forseti.

Dökkar blikur eru á lofti í efnahagsmálum, miklir erfiðleikar í okkar útflutnings- og samkeppnisgreinum og þeir blasa við, þeir æpa á mann hvert sem litið er. Nú er þetta allt komið upp á yfirborðið og nú neitar þessu enginn lengur sem fyrirsjáanlegt var auðvitað og margreynt var að vara við fyrir tveimur, þremur, fjórum árum þegar stofnað var til þess ástands sem nú ríkir í landinu. Þetta eru ekki utanaðkomandi og óvæntir atburðir. Þetta eru að langmestu leyti beinar afleiðingar pólitískra ákvarðana sem ríkisstjórnin og meiri hluti hennar á Alþingi ber ábyrgð á. Stærstu orsakavaldarnir eru stóriðjustefnan, eru bæði efnisleg áhrif hinna gríðarmiklu stórframkvæmda sem troðið er með handafli inn í hagkerfið á örfáum árum. Á þremur til fjórum árum koma inn í hagkerfið vegna stóriðjufjárfestinga fjárhæðir sem nema um 1/3 af landsframleiðslu heils árs, segir Seðlabankinn og bætir við að ekkert sambærilegt hagkerfi þurfi að glíma við annað eins. Þetta eru afleiðingar af þeim væntingum sem þessar ákvarðanir hafa skapað því að efnahagsmál snúast ekki bara um beina mælanlega hluti og bein efnisleg áhrif, þau snúast líka mjög mikið um væntingar, um sálarástand, um tilfinningu fólks og einkum og sér í lagi um væntingar þess sem fram undan er, markaðurinn, einstaklingar, fyrirtæki, það stjórnast mikið af því sem þau trúa að sé í vændum.

Þess vegna skiptir tal ráðamanna máli. Þess vegna er það ábyrgðarhlutur að telja mönnum trú um að það verði kannski betri tímar í boði og menn geti látið meira eftir sér en raunverulegar innstæður eru fyrir. Með því að hvetja til og tala upp stemmningu fyrir eyðslu og spennu í þjóðfélaginu eru menn að gera það.

Sömu áhrif hafa hinar glórulausu skattalækkanir ríkisstjórnarinnar upp á samtals tæplega 30 milljarða kr. á þremur árum. Hvað eru 30 milljarðar kr.? Það eru næstum 10% af niðurstöðutölu fjárlaganna eins og þau eru núna. Losa þau ekki 300 milljarða, ef ég man rétt, á gjaldahliðin a.m.k. og eitthvað hærri á tekjur miðað við afgangsspána? Og alveg eins og skattáhrifin eru náttúrlega efnisleg og mikil, það munar um að losa 30 milljarða og setja þá í umferð, hafa þau líka væntingaráhrif. Fólk hugsar sem svo: Já, fínt, nú get ég farið að spýta aðeins í af því að skattarnir verða svo lækkaðir á mér á næsta ári og þarnæsta ári. Ein snilldin var sú að boða þetta langt fram í tímann.

Þriðja stóra breytan í þessu eru húsnæðismálin, fasteignamarkaðurinn þar sem allir viðurkenna núna að var auðvitað glórulaust að rjúka með lánshlutfallið jafnhátt og raun bar vitni í miðri þenslunni og lyfta öllum fasteignamarkaðnum og bankarnir komu síðan í kjölfarið og yfirbuðu, fóru upp í 100% lán miðað við uppsprengt fasteignaverð án nokkurra hámarka eða þaka sem er náttúrlega glórulaust. (JóhS: Bankarnir komu á undan Íbúðalánasjóði.) Nei, hv. þingmaður, Íbúðalánasjóður var náttúrlega — stefnan var mótuð af ríkisstjórn og það lá fyrir hvað í vændum var í þeim efnum. (JóhS: … á þremur árum …) Bankarnir fóru í samkeppni við Íbúðalánasjóð þegar þeim mistókst að knésetja hann með því að kæra hann til ESA. Það er staðreyndin í því máli. Og nú sjá allir eftir þessu auðvitað og eru að reyna að vinda ofan af vitleysunni þótt hægt gangi.

Síðan kom menn og reyna gjarnan að kenna um fjórða þættinum, sem vissulega hefur umtalsverð áhrif í dag, en það er skuldabréfaútgáfa og stöðutaka erlendra aðila í íslenskri krónu að undanförnu þar sem menn spila á og gera út á vaxtamuninn milli Íslands og nálægra landa. En það er að sjálfsögðu ekki frumorsök heldur eru það viðbrögð við því ástandi sem er orðið. Það er furðulegt að heyra menn koma hér og reyna að afsaka jafnvægisleysið með þessu. Við hverja ætla menn að skammast? Þó að spákaupmenn og erlendir aðilar bregðist við því ástandi og nýti sér þau færi sem þeir sjá í að gera út á vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa og í trausti þess að Seðlabankinn geti ekki annað gert en að reyna að halda aftur af þenslu og verðbólgu með því að halda uppi háum vöxtum.

Í raun og veru er það svo að þrjár af fjórum breytum sem verulega marka ástandið í dag eru allar meira eða minna á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Það var ekki Seðlabankinn sem ákvað að ráðist skyldi í Kárahnjúkavirkjun og uppbygginguna á Grundartanga og allar þær virkjanir sem þarf til og þetta allt saman gert á þremur, fjórum árum. Nei, ég held að Seðlabankinn hafi lítið skipt sér af því. Var það ekki ríkisstjórnin sem var í fararbroddi fyrir þeim leiðangri og hrósar sér af því? Eitthvað hrósuðu frambjóðendur Framsóknarflokksins á Austurlandi sér af því fyrir kosningarnar 2003, ef ég man rétt. Það væri gaman að bregða upp fyrir menn plakatinu góða með sjö myndum af iðnaðarráðherra. Ég hef aldrei séð á einu og sama plakatinu sjö myndir af sömu manneskjunni. Það var plakatið af iðnaðarráðherra sem var dreift fyrir kosningarnar á Austurlandi þar sem hún var ákaflega brosmild að klippa á borða og skrifa undir pappíra.

Það er því ríkisstjórnin sem á það umfram allt annað. (Gripið fram í: Og hafði áhrif …) Það voru stjórnarflokkarnir og reyndar fleiri sem auluðust til að lofa þessum glórulausu skattalækkunum fyrir kosningarnar 2003. Ég verð að segja, frú forseti, að það er einhver ömurlegasta umræða sem ég hef á köflum tekið þátt í í kosningabaráttu og hef ég þó marga fjöruna sopið, það var þetta glórulausa tal um skatta fyrir síðustu kosningar, því að það var svo fullkomlega ábyrgðarlaust að vaða þannig áfram þegar allir vissu hvað var fram undan í hagstjórn í landinu, að halda aftur af hættunni á verulegri verðbólgu og þenslu vegna þegar tekinna ákvarðana um stórframkvæmdir. Nei, þá koma menn og bæta við áformum um 30 milljarða skattalækkanir og 90% húsnæðislán í viðbót. Það var heldur dapurlegt, frú forseti. Ætli ýmsir vildu nú ekki kannski hafa farið aðeins vægar í sakirnar núna? Og þó veit ég það ekki, kannski finnst mönnum þetta bara allt í lagi, flýtur á meðan ekki sekkur, segja einhverjir.

Já, frú forseti, það mætti margt um þetta segja í viðbót. Ég gæti lengt t.d. verulega þann hluta ræðu minnar sem fjallar um erlendar skuldir, um hina háskalegu erlendu skuldasöfnun þjóðarbúsins vegna þess að ég hef miklar áhyggjur af því. Mér finnst það hreint ábyrgðarleysi af hvaða stjórnmálamanni sem er að hafa ekki kjark til að horfast í augu við það og ræða þær staðreyndir ef menn ætla sér að viðhalda og varðveita sjálfstætt hagkerfi sem getur staðið undir öflugu velferðarsamfélagi á komandi árum og áratugum á Íslandi. Menn geta auðvitað átt sér þá draumsýn að segja sig til sveitar eða gefast upp einhvern tíma á leiðinni og það er þá önnur saga. En ef menn ætlast til þess að fyrrgreindar skuldir verði greiddar þá mun það taka í og þá er ekki fagnaðarefni að sjá tölur eins og þær sem við erum að horfast í augu við t.d. núna um skuldastöðu íslenska þjóðarbúsins í lok septembermánaðar sl.

Þá jukust erlendar skuldir Íslands um 4% milli mánaða. Það er nú ekkert smáræði, hann er dýr hver mánuðurinn sem líður með slíka þróun. Hann verður dýr á fóðrum þegar kemur að því að borga vextina og borga af þeim lánum. Erlendi skuldastabbi íslenska hagkerfisins nemur hátt í 2.500 milljörðum kr., 2.330 til 2.340 milljörðum kr. í lok september. Það er gríðarleg tala þegar landsframleiðslan er enn innan við þúsund milljarða í ljósi t.d. niðurstöðutölu fjárlaga upp á 300 milljarða, þá er þetta há tala. Jú, menn segja að það séu þarna eignir á móti, en því miður þegar nettóskuldirnar eru skoðaðar eru þær breytur í raun og veru síst hagstæðari, enda engin sú eignamyndun á móti þessu erlendis að hún mæti því að fullu.

Hugsum okkur bara þessar skuldir, 2.300 til 2.400 milljarða kr. og svo hækka raunvextir í þeim löndum þar sem þessar skuldir eru eða á þeim gjaldmiðilssvæðum, um 1%. Hvað fá Íslendingar þá í hausinn? Það er enginn smáreikningur og getur gamli stærðfræðikennarinn væntanlega reiknað það út. Það hleypur á milljörðum og milljarðatugum sem þjóðarbúið fær sem skell í andlitið, sem rýrir það sem til skipta er til að standa undir lífskjörum í landinu á komandi árum þegar við þurfum að takast á við að greiða af þeim skuldum. Það eru innlánsstofnanirnar okkar sem hafa verið þarna í fararbroddi. Þær hafa aukið skuldir sínar erlendis gríðarlega og atvinnulífið, heimilin, sveitarfélögin standa fyrir hluta af þessu að sínu leyti.

Frú forseti. Ég ætla í lokin aðeins að gera að umtalsefni framtíðina á svolítið öðrum nótum. Tekist hefur verið svolítið á í dag um það að Stefán Ólafsson, ágætur fræðimaður, hefur tekið saman skýrslu um kjör öryrkja sem heitir Örorka og velferð á Íslandi og í öðrum vestrænum löndum, og þóttist ég heyra í dag að menn væru eitthvað að reyna að grafa undan trúverðugleika þeirra niðurstaðna með því að tala um að þar væri villandi samanburður á ferð eða menn hefðu hagrætt viðmiðunarpunktum eða eitthvað í þeim dúr. Nú hef ég ekki lesið skýrsluna þannig að ég geti blandað mér sterkt í þá umræðu annað en það að allt sem ég hef lesið og haft saman við viðkomandi fræðimann að sælda hefur gert það að verkum að ég ber hið fyllsta traust til hans og met hann mikils sem fagmann og fræðimann á sínu sviði. Auðvitað er aldrei hægt að fullyrða að einhvers konar samanburður geti ekki verið umdeilanlegur þegar hann er tekinn milli landa og settur upp og menn velja sér tímabil o.s.frv., skárra væri það nú. Það væri mikil ósanngirni að ætlast til þess að þar væri allt svo gjörsamlega skothelt að ekki mætti út á það setja eða gagnrýna. Hins vegar er langur vegur frá því og hinu að telja að menn geti vefengt heildar- og meginniðurstöður af því tagi sem þar eru settar fram á mjög skýran hátt. Ég trúi því ekki að menn ætli að reyna að gera það. Það er alveg borðleggjandi og þetta gagn er mjög sterkt í því að enn vantar verulega upp á að Ísland standi sig sem skyldi og þoli samanburð, sérstaklega við sín næstu nágrannalönd, hin Norðurlöndin, í þessum efnum. Við eigum enn langt í land, það er augljóst mál, bæði hvað varðar það sem snýr að lífskjörum öryrkja og aðbúnaði að þeim í samfélaginu og líka hinu sem varðar virkni þeirra og þátttöku í samfélaginu.

En ég ætla líka að nefna hérna annað rit eftir sama mann eða sem hann er höfundur að ásamt öðrum og það er þetta rit hér, Hnattvæðing og þekkingarþjóðfélag, Ísland í breyttu þjóðfélagsumhverfi. Ég hvet menn til að blaða í því riti og skoða það sem þar er fram sett, sem er geysiviðamikill og vandaður samanburður, greining á stöðu Íslands og samanburður á því og stöðu þess og nágrannalandanna. Niðurstöðurnar eru að mínu mati sláandi og hafa mikið pólitískt gildi og þær falla mjög vel að margvíslegum mælingum og samanburðarrannsóknum sem hafa verið að berast okkur úr ýmsum áttum undanfarin missiri.

Hver er meginniðurstaðan? Jú, hún er sú að staða Norðurlandanna og Íslands þar með talið að því marki sem við getum enn talist eitt af norrænu velferðarsamfélögunum — en þar hallar því miður undan fæti — er ótrúlega sterk á tímum hraðra og mikilla breytinga í hnattvæddum heimi. Íslenska velferðarsamfélagið, norræna velferðarsamfélagið með blönduðu hagkerfi, öflugu opinbert fjármögnuðu velferðarkerfi í grunninn, stendur sig ótrúlega vel í hvers konar alþjóðlegum samanburði. Ekki bara af því sem okkur er tamt að reikna með, að hér sé jöfnuður og jafnrétti meira en yfirleitt fyrirfinnst annars staðar, hér séu lífsgæði meiri og almennari og jafnar dreift um samfélagið en er annars staðar. Það merkilega er að norræna velferðarmódelið reynist einnig eitt það allra samkeppnishæfasta í heiminum. Það spjarar sig mjög vel í þekkingargrunduðum samfélögum nútímans. Eru það ekki góðar fréttir? Ég hefði haldið það. Og það eru alveg sérstaklega góðar fréttir fyrir þá stjórnmálamenn og stjórnmálaöfl sem vilja sækja fram undir merkjum slíkrar baráttu, vilja þannig þjóðfélag. Um hvað snúast stjórnmál að lokum, frú forseti, ef við hugleiðum það hérna aðeins í endann í tvær, þrjár mínútur? Jú, þau snúast um það hvernig samfélag við viljum. Það er það sem skiptir máli í pólitík að menn að hafi meiningar um og sýn á það samfélag sem þeir telja að sé farsælt og gott fyrir fólk að búa í. Þetta snýst um það að setja velferð manns og umhverfis í öndvegi og ofar hagsmunum t.d. fjármagns og gróðahyggju.

Þessu hættir því miður ýmsum til að snúa við í anda þeirrar nýfrjálshyggju og hægri stefnu sem hér hefur tröllriðið húsum. Það er búið að halda uppi miklum rógi, miklum og skipulögðum rógi af hægri mönnum í vestrænum stjórnmálum, m.a. um samfélagskerfi eins og hið norræna. Hvað oft erum við búin að heyra ræðurnar um að nú sé Svíþjóð að fara á hausinn? Ég er nú búinn að fylgjast nokkuð vel með pólitík í 25, 30 ár. Jafnlengi hafa ræðurnar verið um hið dýra, þunga, stirðbusalega velferðarkerfi Norðurlandanna og sérstaklega Svíþjóðar, sem sé nú bara að verðleggja þá út af kortinu og þeir séu ekki samkeppnisfærir og þeir séu að fara á hausinn. En Svíþjóð er ekkert að fara á hausinn. Það gengur bara vel í Svíþjóð. Þar er hagvöxtur, heldur minnkandi atvinnuleysi og það er afgangur af viðskiptum Svíþjóðar við útlönd. Svo kemur mæling eftir mælingu, samanburðarrannsókn eftir samanburðarrannsókn sem sýnir að norrænu samábyrgu velferðarsamfélögin standa mjög vel og standa sig í nánast öllum samanburði sem marktækur er í þessum efnum.

Áhyggjuefni mitt hvað varðar íslensk stjórnmál er fyrst og fremst eitt. Það er hvernig Ísland er að reka frá öðrum Norðurlöndunum eftir 14 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins og tíu ár þar af með Framsóknarflokknum. Það er sláandi hversu Ísland er að þróast inn á annað spor hvað varðar vaxandi misskiptingu, ört vaxandi misskiptingu í launum og lífskjörum í landinu. Það eru á margan hátt mun veikari undirstöðuþættir hér í velferðarþjónustunni en við sjáum annars staðar á Norðurlöndunum, kannski helst að okkur svipi til Finna í sumum tilvikum. Öryggisnetið undir samfélaginu er gisnara, það falla fleiri niður um það, mun hærra hlutfall á hér í erfiðleikum með að ná endum saman, leitar aðstoðar hjálparstofnana, mælist fátækt, fátækt á mælikvarðanum hlutfallslega fátækt, hefur svo miklu minna til skiptanna en menn almennt hafa í landinu að það telst á alþjóðlega viðurkenndan samanburðarmælikvarða fátækt.

Menn geta auðvitað komið hér og sagt að þetta sé ekki fátækt, menn séu ekki fátækir fyrr en þeir svelti, en ég er ósammála þeirri skoðun. Ég tel að einstæð móðir sem getur ekki veitt börnum sínum nokkurn veginn sambærileg gæði hvað varðar t.d. skólagöngu og tómstundir eða klæðnað sé fátæk og sú fjölskylda sé fátæk þó að börnin svelti ekki. Fátækt er ekki bara örbirgð af því tagi sem við þekkjum í Afríku. Hún er líka að hafa svo miklu minna til skiptanna en almennt gerist í samfélaginu að menn geti ekki verið fullgildir þátttakendur í því. Þess vegna er það því miður þannig að við eigum enn langt í land með að útrýma fátækt á Íslandi og hún hefur jafnvel farið vaxandi mitt í góðærinu svokallaða hjá ýmsum hópum samfélagsins og það er dapurlegt.

Þessu þarf að breyta, frú forseti. Stjórnarflokkarnir hefðu, ef marka má þeirra eigin málflutning, kjöraðstæður núna til þess að takast á við ýmis verkefni, t.d. bæta svo verulega munaði kjör þess hluta aldraðra sem lakast er settur og taka vel til hendinni í sambandi við uppbyggingu, stoðþjónustu og húsnæðis í þeirra þágu. Það er ekki gert. Forgangsröðunin í frumvarpinu er ekki til þess að hrópa húrra fyrir. Hún styrkir ekki samábyrgt velferðarkerfi á Íslandi í sessi, færir okkur frekar í burtu frá öðrum Norðurlöndum sem hafa varið samfélagsgerð sína þrátt fyrir allt í gegnum ýmsar sviptingar umliðinna ára og áratuga af miklu meiri festu en við. Meira ístöðuleysi hefur verið ríkjandi í íslenskum stjórnmálum hvað varðar að standa vörð um sjálfa grundvallarsamfélagsgerðina. Það er bara því miður veruleikinn. Menn hafa látið hafa forgang að lækka skatta, sérstaklega á hátekjufólki, fjármagnseigendum og gróða fyrirtækja, það hefur haft forgang fram yfir það að veita fé til ýmissa brýnna samfélagsverkefna af því tagi sem ég hef verið að fjalla hér um. Um það snýst pólitík, þetta er pólitíkin. Hún er um hvernig samfélag við viljum sjá í landinu.