132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[20:55]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einmitt í þeirri ræðu sem hv. þingmaður nefndi, formanns bankastjórnar Seðlabankans, tekur bankastjórinn fram að um hafi verið að ræða mjög óvænt viðbrögð bankakerfisins. Hann segir það í ræðu sinni, segir reyndar orðrétt, með leyfi forseta, að „viðbrögð bankakerfisins komu hins vegar stjórnvöldum vissulega í opna skjöldu.“

Ég held að engum blandist hugur um hvað þarna var á ferðinni. Viðskiptabankarnir ætluðu sér og voru að nýta sér veikleika hjá Íbúðalánasjóði við skipti úr húsbréfakerfi yfir í íbúðabréf sem laut að uppgreiðslum lánanna. Þeir beittu sér fyrir því að fá viðskiptavini gegn því að þeir vinir kæmu með allar sínar lánveitingar til viðskiptabankanna og greiddu upp lánveitingar sínar í Íbúðalánasjóði. Þeir ætluðu sér beinlínis að koma Íbúðalánasjóði á kné með þessum uppgreiðslum. Það var það sem var verið að takast á um. Viðskiptabankarnir voru samtaka í því að reyna að koma Íbúðalánasjóði út af markaðnum.

Ég held að það hafi verið fyllsta ástæða til að gera athugasemdir við framgöngu viðskiptabankanna vegna þess að þeir voru ekki bara að vega að sjóðnum, þeir voru að vega að almenningi. Hefði þeim tekist ætlunarverk sitt hefði kostnaður almennings eða lántakenda hækkað af íbúðalánum sínum. Það var það sem málið snerist um.

Ég minni á að sumir bankarnir, þar með talinn KB-banki hafa viðurkennt að þeir séu að greiða niður íbúðalán sín og muni halda því áfram.