132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:42]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá hlýt ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort í þeim breytingum sem hann boðar, þ.e. ef dregin verður til baka sú fyrirætlun að skerða vaxtabæturnar eða þær fjárhæðir sem vaxtabæturnar ættu að vera miðað við gildandi reglur, eigi þá jafnframt að draga til baka þær verðlagshækkanir sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu, sem áttu að valda þeirri hækkun sem fyrirhuguð er upp á 200 milljónir. Er það ástæðan fyrir því að hann fær það út að þetta standist á eða jafnist út að þetta verði gert? Að hér sé verið að draga það til baka, skerðingarnar séu dregnar til baka en á móti eigi að draga til baka það sem er áætlun um hér, verðlagshækkun á viðmiðunarfjárhæðir við útreikning bótanna, er það aðgerðin?