132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:48]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér fannst hæstv. fjármálaráðherra túlka ákvarðanir og yfirlýsingar Seðlabankans nú á dögunum nokkuð frjálslega rétt eins hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa líka gert, sem hafa talað um að þar hafi orðið stefnubreyting. Það kom skýrt fram í kvöldfréttum sjónvarpsins í kvöld í viðtali við formann bankastjórnar Seðlabankans að hér væri ekki um stefnubreytingu að ræða. Bankinn væri enn við sama heygarðshornið og hann var í september þegar hann hækkaði síðast vexti og það kemur fram í Peningamálum að áfram sé gert ráð fyrir miklum viðskiptahalla á árunum 2006 og 2007. Það er gert ráð fyrir mikilli framleiðsluspennu sem skapar verðbólguþrýsting. Það er gert ráð fyrir því hjá greiningaraðilum að stýrivextir fari í 12% á næsta ári, síðan í 11% eftir rúmt ár og í 8% í ársbyrjun 2008. Þetta þýðir einfaldlega að verið er að spá hærri stýrivöxtum en gert var í september. Það þýðir því ekki að tala um að hér sé einhver mikil breyting fram undan.