132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:49]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur auðvitað ekki orðið nein stefnubreyting hjá Seðlabankanum hvað það varðar að halda niðri verðbólgu og nálgast það markmið sem honum hefur sett. Það sem er hins vegar breytingin í þessu er að Seðlabankinn fjallar um það í umfjöllun sinni núna að gengið muni lækka og hann ætli að hafa áhrif á hvernig það gerist. Hann fjallar um það að innan tíðar, þó að það sé óskilgreint hversu langur tími það er, muni gengisvísitalan verða hærri og það mun auðvitað, eins og ég gat um áðan, létta ákveðnum áhyggjum af atvinnuvegunum. Þá er Seðlabankinn raunverulega kominn nær því að spá á svipaðan hátt og fjármálaráðuneytið hefur gert og greiningaraðilarnir um þær breytingar sem verða munu á genginu í framtíðinni