132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:51]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að þetta hafi ekki verið stefnubreyting. Jæja, gott að vita það. Fjármálaráðherra segir: ekki stefnubreyting. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra segja: stefnubreyting, þannig að það rekur sig hvað á annars horn í málflutningi þessara ágætu ráðherra. Meðan gert er ráð fyrir því að stýrivextir verði jafnháir og raun ber vitni þá eru mjög litlar líkur á því að gengið gefi eitthvað verulega eftir, mjög litlar líkur á því og meðan það ástand varir sem er spáð að geti varað allt til ársins 2008 þá er ekki líklegt að það séu miklar breytingar fram undan fyrir atvinnulífið í landinu því miður. Auðvitað væri það gott ef svo væri en það er ekkert sem bendir til þess, hæstv. forseti, og ég held að menn séu hér, hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að reyna að tala kjark í atvinnulífið þrátt fyrir þau kólguský sem fram undan eru.