132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[23:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur í allan dag staðið 3. umr. um fjárlög. Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál um það efni, einfaldlega vegna þess að félagar mínir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hafa gert ágætlega grein fyrir sjónarmiðum okkar. Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd, gerði grein fyrir ítarlegu nefndaráliti um fjárlögin og vil ég gera hans orð að mínum. Aðrir þingmenn hafa vikið að einstökum liðum fjárlagafrumvarpsins og menn hafa farið nokkrum orðum um hinn almenna efnahagsramma sem við erum í. Ég ætla að byrja á því að víkja örfáum orðum að honum, stöðunni í þjóðarbúinu.

Að þessu leyti hefur umræðan skipst í tvö horn. Annars vegar er það ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sem horfir út um gluggana og sér stóru bílana, horfir á vaxandi kaupmátt í landinu, neitar að vísu að sjá aukna misskiptingu, horfir í meðaltölin og sér að þar stefnir margt upp á við, dregur þá ályktun að allt hljóti að vera í lukkunnar velstandi. Vissulega er það svo að það er margt ágætt í þjóðlífinu nú um stundir. Við höfum hins vegar mörg lagt áherslu á að velsæld verði byggð hér upp til framtíðar, að við reisum okkar efnahagskerfi á bjargi en ekki á sandi. Við höfum bent á ýmis teikn á lofti sem hljóti að vekja okkur til umhugsunar um hættur sem kunni að steðja að.

Við horfum á vaxandi skuldir þjóðarinnar. Skuldir þjóðarbúsins eru núna 315% af vergri landsframleiðslu, þreföld landsframleiðslan í skuldir. Þegar litið er á skuldir erlendis kemur fram í Hálffimm fréttum KB-banka í dag að í lok september hafi erlendar skuldir hagkerfisins numið 2.334 milljörðum kr. Það eru 235,3% af vergri landsframleiðslu. Nettóskuldirnar eru að sjálfsögðu lægri vegna þess að þetta byggist á peningum sem streyma inn í landið og út úr landinu en munu engu að síður vera núna um 1.000 milljarðar kr., nettóskuldir Íslendinga erlendis. Þetta eru geysilegar skuldir.

Í annan stað hafa menn horft á viðskiptahallann sem hefur verið viðvarandi núna í nokkur ár og er spáð á næstu árum — stefnir í 15% á þessu ári, um 150 milljarðar kr. Við höfum líka varað við þessari þróun og höfum fengið liðsauka í seðlabankastjóra sem var nú ekki á þeim buxunum fyrir nokkrum mánuðum þegar hann sat í stóli forsætisráðherra landsins. Nú segir hann hins vegar að þetta gangi ekki lengur, vísar annars vegar á stóriðjuframkvæmdir fyrir austan, en rekja megi um helming viðskiptahallans til fjárfestinga sem tengjast þeim, og síðan til neyslunnar.

Þá horfa menn til gengisins, menn horfa á vaxandi erfiðleika í ýmsum framleiðslugreinum íslenskum, horfa til ferðaiðnaðarins þar sem erfiðleikar eru einnig vaxandi — menn horfa þá á hið stóra samhengi hlutanna. Við höfum rætt hér í dag um vextina og á hvern hátt þeir hafi áhrif á gengið. Við höfum fylgst með því á undanförnum vikum og mánuðum hvernig erlendir og innlendir aðilar hafa pumpað fjármagni inn í íslenska hagkerfið. Peningar eru teknir að láni í útlöndum, þar sem vextir eru lágir, og fluttir yfir í hagkerfi okkar, lánaðir út á mun hærri vöxtum. Nú mun vaxtamunurinn á milli Íslands og evru-svæðisins vera um 7%. Í þessu samhengi ræða menn um leiðir til að ná vöxtunum niður og hvort það muni þá ekki leiða til lækkandi gengis krónunnar.

Ég hef fullan skilning á því og tel mjög mikilvægt að vextir fari lækkandi en þó það hægt og sígandi að þeir aðilar sem hafa pumpað fjármagni hér inn dragi þá ekki skyndilega til baka með tilheyrandi kollsteypu. En vextir verða að sjálfsögðu að lækka. Vextir eru allt of háir á Íslandi.

Við horfum einnig á annan þátt, sem ég hef saknað hjá fulltrúum annarra stjórnmálaflokka í þessari umræðu, og það er hin pólitíska ábyrgð á genginu. Yfirlýsingar sem komið hafa frá stjórnvöldum um stóriðjuframkvæmdir á komandi árum hafa líka áhrif á gengið. Gengið er sú áhætta sem fjárfestirinn sem flytur peninga að utan inn í íslenska hagkerfið til að hagnast á vaxtamismun tekur. Í genginu er áhættan fólgin. Ef gengið hrapar rýrnar krónan sem komin er inn í íslenska hagkerfið.

Yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra og reyndar annarra ráðherra á undanförnum dögum um að á komandi árum verði framhald á stóriðjufylliríinu með tilheyrandi ofsafjárfestingum þýða það í reynd að verið er að segja við fjárfestana: Þið þurfið ekki að hafa nokkrar áhyggjur af genginu. Við munum sjá til þess með fjárfestingum okkar á komandi árum að mikil eftirspurn verði eftir krónunni. Þar með draga fjárfestarnir þá ályktun að gengið muni áfram haldast sterkt. Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um áframhald stóriðjuframkvæmda á komandi árum eru okkur því mjög dýrar. Hæstv. forseti. Á þetta vildi ég leggja áherslu og nefna í upphafi ræðu minnar.

Annað sem lýtur að efnahagsumgjörðinni eru náttúrlega skattarnir. Í anda þess sem ég sagði, að við vildum reisa framtíðina á bjargi en ekki sandi, höfum við varað við stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Þegar þetta kjörtímabil er runnið á enda, ef áform ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga, munu skatttekjur ríkisins hafa lækkað um á milli 20 og 30 milljarða kr. Ef það gerist svo samhliða því að dregið er saman í skattheimtu ríkisins að dregur úr tímabundnum neyslu- og þenslusköttum — sem eru um 20 milljarðar á þessu ári ef trúa á fylgigagni sem lagt var fram með fjárlagafrumvarpinu í formi alls kyns veltuskatta og aukinna skatta vegna þenslu — er voðinn vís. Við því höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði verið að vara.

Við vorum eini stjórnmálaflokkurinn fyrir síðustu kosningar sem setti fram að mínu mati raunsæ sjónarmið hvað þetta snertir. Við forðuðumst alla yfirborðspólitík í þessu máli því að til lengri tíma litið borgar sig að sjálfsögðu að sýna fyrirhyggju af því tagi sem við höfum talað fyrir. Þetta vildi ég segja um fjármála- og efnahagsrammann almennt. Ég vík svo í örstuttu máli að ýmsum þáttum sem hér hafa komið til umræðu.

Það vekur athygli mína að heyra í hvaða samhengi glaðbeittir menn eins og ýmsir hv. þingmenn Framsóknarflokksins tala og hvernig málin eru sett fram. Hv. þm. Birkir Jónsson, svo dæmi sé tekið, talaði manna ákafastur um að allt væri hér í lukkunnar velstandi, einnig hjá öryrkjum og atvinnulausum því að allir hefðu notið kjarabóta á undanförnum árum. Menn segja: Á Íslandi er mikil velsæld. Það er hagvöxtur, það er uppgangur á öllum sviðum þjóðlífsins. En um leið eru þau kjör sem tekjulægsta hluta íslenska samfélagsins eru búin réttlætt. Ef það væri nú svo að við hefðum ekkert handa á milli, hér væri bullandi samdráttur á öllum sviðum, gæti ég skilið þann málflutning þótt ég mundi ekki skrifa upp á hann. Ég gerði það ekki á fyrstu árum tíunda áratugarins, í samdrættinum þá, í kreppunni þá. Ég gat aldrei skilið þá forgangsröðun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks að skerða barnabætur og skerða kjörin hjá öryrkjum og atvinnulausum eins og þá var gert. Þó er það skiljanlegri málflutningur en hinn í góðærinu að tala til öryrkja og tekjulægsta hluta samfélagsins eins og hér var gert.

Ég hélt sannast sagna að þetta hefði verið leiðrétt, að ríkisstjórnin hefði fallist á röksemdir Öryrkjabandalagsins og Landssambands eldri borgara hvað varðar allar stærðir í þessu efni en það var ekki að skilja á umræðunni í dag. Staðreyndin er sú að ef horft er til síðustu 10 ára hefur myndast gjá á milli verkamannalauna annars vegar og bóta úr almannatryggingakerfinu hins vegar — þarna var tenging áður á milli — sem núna nemur 17 þús. kr. á mánuði ef við spyrðum saman í eitt grunnlífeyri og tekjutryggingu. Það vantar 23,5% upp á að hún nái þessum viðmiðunarverkamannalaunum. Þetta er staðreynd sem ég hélt að enginn deildi um en menn hafa hins vegar verið að bera brigður á í dag. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hélt því fram að á árinu 1995 hefði myndast breið þjóðfélagssátt um nýja vísitölu almannatrygginga. Alþýðusambandið hefði haft forgöngu um þetta og allir upp á það skrifað. Það er alrangt. Hann hélt því nefnilega fram að þarna hefði verið gerð breyting á vísitöluútreikningnum og Alþýðusambandið hefði haft forgöngu um að breyta honum.

Það sem gerðist var þetta: Á árinu 1992 var sambandið á milli verkamannalauna og almannatrygginga rofið. Þarna var vísitölutryggingin sem aldraðir og öryrkjar gátu reitt sig á. Klippt var á þau tengsl. Ég held að það hafi örugglega verið á árinu 1992 fremur en 1993, það var á þessum árum. Og um nokkurra ára skeið var engin tenging þar á milli. Vegna kröfu frá verkalýðshreyfingunni, Alþýðusambandinu og öðrum samtökum launafólks féllst ríkisstjórnin þá á að binda almannatryggingar vísitölu að nýju. Það var gert með því að almannatryggingar eru nú bundnar almennri launaþróun, ef hún er lægri en nemur verðbólgunni skuli almannatryggingar fylgja verðbólgunni. Þetta er ekki slæm regla í sjálfu sér. Þetta er ágæt regla eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson benti á á samdráttartímum. Ef kaupmáttur hrapar eru þessir hópar varðir þannig að við slíkar aðstæður er þetta ekki slæm regla. Hins vegar var tengingin á milli verkamannalauna og almannatrygginga rofin þegar fyrirsjáanlegt var að samið yrði um mikla hækkun lægstu launa, þá var klippt á þau tengsl. Það er hið svívirðilega í þessari stöðu. Landssamband eldri borgara fer fram á að þeim verði bættar þessar 17 þús. kr. Grunnlífeyririnn verði hækkaður sem þessu nemur eða, og það er hinn kosturinn sem þau bjóða upp á, að hann verði undanþeginn skatti.

Hæstv. fjármálaráðherra landsins lýsti því nánast yfir áðan að sér kæmi þetta ekki við. Það þyrfti ekki að ganga frá samningum við Landssamband eldri borgara áður en fjárlögum yrði lokað, sér kæmi þetta mál nánast ekki við. Ég furða mig á slíku ábyrgðarleysi. Mánuðum og missirum saman hefur Landssamband eldri borgara knúið á um að fá samkomulag við ríkisstjórnina um þetta atriði eða aðrar kjarabætur. Hurðinni er bara skellt á þá. Það er staðreynd.

Hæstv. forseti. Ég vildi koma þessu að til að leiðrétta rangfærslur og misskilning sem fram kom í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Hann hefur margoft haldið þessum misskilningi sínum fram. Hann hefur margoft haldið þessa ræðu sem hann flutti gegn öryrkjum og öldruðum. Hann hefur margoft haldið þessa sömu ræðu en hann setur fram rangar upplýsingar. Þetta er ekki rétt.

Ég vil einnig nefna í þessari yfirferð þær staðhæfingar sem hér komu fram um barnabæturnar, að nú ætti að bæta í barnabætur 1,2 milljörðum kr. Þetta er held ég eitt best notaða og margnotaðasta kosningaloforð Framsóknarflokksins. Allar götur frá því um miðjan 10. áratuginn hefur Framsóknarflokkurinn lofað því að stórbæta í barnabætur. Hvað skyldu þær hafa verið miklar á síðasta ári? Þær voru 5,4 milljarðar kr. Hvað skyldu þær hafa verið miklar þegar Framsóknarflokkurinn komst til valda um miðjan 10. áratuginn? Árið 1995 voru barnabætur 6.400 millj. kr., 6,4 milljarðar. Með öðrum orðum vantar þarna 1,2 milljarð upp á, sem menn segjast núna ætla að bæta við barnabæturnar. Þetta er staðreyndin þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar og öll loforðin sem gefin voru.

Á síðasta ári námu barnabætur 0,61% af vergri landsframleiðslu. Árið 1991, áður en Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur hæstv. fjármálaráðherra, Árna Mathiesens, komst til valda, voru þær 1,22% af vergri landsframleiðslu. Það er helmingi lægra hlutfall núna en var þegar íhaldið komst til valda, fyrst með Alþýðuflokknum og síðar með Framsókn. Þetta er allur árangurinn. Þrátt fyrir allt tal Framsóknar, öll flettiskiltin, allar heilsíðuauglýsingarnar um loforðin, eru þetta niðurstöðurnar. Barnakortin, munið þið eftir barnakortunum? Út á hvað skyldu þau hafa gengið? Barnakortin gengu út á það að auka ótekjutengdar barnabætur. Þegar Framsóknarflokkurinn komst til valda voru ótekjutengdar barnabætur 0,6% af vergri landsframleiðslu. Í fyrra voru þær 0,12% af vergri landsframleiðslu. Einnig þarna stendur ekki steinn yfir steini. Samt koma menn hér upp og stæra sig af árangri á þessum sviðum.

Það eru mörg atriði sem ég hefði gjarnan viljað nefna í þessari ræðu en ég ætla ekki að lengja mál mitt óþarflega mikið enda hefur verið komið inn á flest þau mál sem ég hafði í huga. Ég vil þó sérstaklega nefna Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Nánast öll almannasamtök í landinu hafa ályktað í þá veru að ríkisstjórnin tryggi Mannréttindaskrifstofu Íslands rekstrarfé en sem kunnugt er var skorið fyrir fjármögnun til Mannréttindaskrifstofunnar að því er virðist í einhverjum undarlegum hefndarráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það hafi verið vegna þess að Mannréttindaskrifstofan skuli hafa dirfst að setja fram gagnrýnin viðhorf gagnvart ýmsum frumvörpum sem frá ríkisstjórninni komu. Ég get að sjálfsögðu ekkert fullyrt um þetta en ég spyr mig þeirrar spurningar.

Það hefur verið vitnað í álitsgerðir, kröfur og óskir sem fram hafa komið frá almannasamtökum. Þær eru enn að berast. Barnaheill sendir okkur álit sitt í dag og einnig Starfsgreinasambandið og vísað hefur verið til annarra álitsgerða. Á sunnudaginn skrifaði formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands, Brynhildur G. Flóvenz, opið bréf til alþingismanna og birti það í Morgunblaðinu. Hún fjallar í því bréfi um stöðu Mannréttindaskrifstofunnar. Ég ætla að vitna í nokkrar setningar úr þessu bréfi, með leyfi forseta:

„Í lok síðastliðins árs spunnust miklar umræður í samfélaginu um þá ákvörðun Alþingis að fella niður bein framlög á fjárlögum til Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) og veita þess í stað 8 milljónir til mannréttindamála almennt, sem skipt var jafnt milli ráðuneyta utanríkis- og dómsmála. MRSÍ og aðildarfélög hennar mótmæltu þessari ráðstöfun, sem og stór hluti mannréttindastofnana Evrópu. Mótmælin lutu einkum að því að með þessari ráðstöfun væri vegið að sjálfstæði skrifstofunnar sem og að fjárhagslegum grundvelli hennar þar sem ekki væri hægt að sjá fyrir hver framlögin yrðu ef einhver. Enn fremur lýstu systurstofnanirnar á Norðurlöndum yfir áhyggjum af því að þessi ákvörðun hefði áhrif á norrænt samstarf, sem og aðrar mannréttindastofnanir. Við umræður um málið innan Alþingis sem utan, kom fram sú skoðun að hér væri ekki um efnislega breytingu að ræða heldur formlega og engin ástæða væri til að ætla að MRSÍ fengi minna fé en áður. Því miður varð raunin önnur. Af þeim 4 milljónum sem dómsmálaráðuneytið hafði til umráða fékk MRSÍ 2.490.000 kr. og er þar meðtalið framlag til sameiginlegs verkefnis með Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Af 4 milljónum utanríkisráðuneytis fær MRSÍ ekkert. Þegar er utanríkisráðuneytið búið að ráðstafa 800.000 kr. til Mannréttindastofnunar HÍ. Þær 3.200.000 sem þá standa eftir hyggst ráðuneytið nota til mannréttindamála erlendis, en ekki hefur tekist að fá upplýsingar um til hvaða verkefna fénu verður varið. Niðurstaðan er því sú að af þeim 8 milljónum sem ætlaðar voru til mannréttindamála hafa tæplega 2,5 milljónir farið til MRSÍ í stað 8 milljóna áður.“

Ég ætla ekki að vitna frekar í þetta opna bréf Brynhildar G. Flóvenz, formanns Mannréttindaskrifstofu Íslands. Ég vil einungis segja að Mannréttindaskrifstofan, og það kemur fram í bréfinu, sinnir ýmsum mjög mikilvægum þáttum í samstarfi við systurstofnanir í útlöndum, við undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna. Það er mjög bagalegt að hún skuli núna svipt þessum fjármunum. Verkalýðshreyfingin hefur safnað umtalsverðu fé, nokkrum milljónum, til að standa straum af kostnaði við rekstur skrifstofunnar á þessu ári. Menn höfðu haft trú á því að ríkisstjórnin mundi sjá að sér og veita peninga í þessum fjárlögum en við heyrðum svörin frá hæstv. fjármálaráðherra. Hann sagði að þetta yrði á ábyrgð hæstv. dómsmálaráðherra. Við heyrum hins vegar og sjáum hver reyndin varð á þessu ári. Peningarnir skiluðu sér ekki til Mannréttindaskrifstofu Íslands. Ég hef ekki ímyndunarafl til að skilja hvað vakir fyrir ríkisstjórninni, að koma svona fram gagnvart þessari litlu stofnun sem skiptir mjög miklu máli í okkar samfélagi. Nóg um það að sinni.

Að lokum vildi ég víkja að stöðu dvalarheimila aldraðra og hjúkrunarheimila. Í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra vitnaði ég í bréf frá forsvarsmönnum þessara stofnana þar sem þeir lýsa yfir þungum áhyggjum vegna fjárhagsstöðunnar á komandi ári. Ekki er komið til móts við uppsafnaðar skuldir þessara stofnana í þeim fjárlögum sem nú stendur til að afgreiða og forsvarsmenn stofnananna lýsa yfir þungum áhyggjum.

Ég hélt að sú umræða sem farið hefur fram í þjóðfélaginu að undanförnu, um ástandið á hjúkrunarheimilum, um hvernig víða er búið að öldruðu fólki vegna fjárskorts hefði opnað augu ríkisstjórnarinnar. Ég hélt það. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að menn væru enn að skoða málin. Þetta var sagt í fyrra líka og líka í hittiðfyrra. Þá var verið að skoða málin.

Í sumar fór fram umræða um þessi mál í blöðum, m.a. í Morgunblaðinu. Þar var hæstv. heilbrigðisráðherra spurður um hvernig á því stæði að öldrunarheimilum, hjúkrunarheimilum, væri mismunað eins og raun ber vitni. Einkareknu heimilin fá meira úr hendi ríkisstjórnarinnar en hin sem eru samfélagslega rekin. Spurt var hvort það stæði til að lyfta þeim upp á sama plan. Ráðherrann sagði að það væri alveg rétt að heimilunum væri mismunað en það stæði ekki til að leiðrétta það, a.m.k. ekki í þessum fjárlögum.

Síðan líður og bíður og fjölmiðlarnir fara á kreik, inn á Sólvang í Hafnarfirði, á hjúkrunarheimili þar sem við sjáum að manneklan er svo mikil að aðstandendur eru farnir að ráða starfsmenn til að sinna öldruðum ættingjum sínum. En ekkert af þessu hefur nokkur áhrif á ríkisstjórnina. Ég velti því fyrir mér hvort viðhorf okkar til aldraðs fólks séu mismunandi eftir því hvort við sitjum í ríkisstjórn eða í stjórnarandstöðu nú um stundir. Ég held ekki. Ég held að við viljum öll að gömlu fólki líði vel. Ég held að við viljum öll að vel sé búið að öldruðu fólki. Ég held það. Við viljum öll að það búi við góð kjör og góða aðhlynningu á hjúkrunarstofnunum. Ég held að allir vilji líka góða og öfluga heimaaðhlynningu og heimahjúkrun.

Hvað skilur okkur að? Það sem skilur okkur að er forgangsröðin, hvernig við viljum forgangsraða fjármunum sem eru til ráðstöfunar. Þar skilur okkur að í pólitíkinni. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að aldraðir, öryrkjar og þeir sem hafa minnstar tekjur í þjóðfélaginu verði settir í forgang. Um það stendur hin pólitíska umræða sem farið hefur fram í dag, um forgangsröð pólitísku flokkanna á Alþingi.

Ríkisstjórnin hefur sýnt það í fjárlagafrumvarpinu hvernig hún vill forgangsraða. Við höfum sýnt, í málflutningi okkar og tillögum sem liggja fyrir Alþingi sem verður gengið til atkvæða um á morgun, hvernig við viljum forgangsraða. Við viljum forgangsraða í þágu þessara hópa.