132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Fjárlög fyrir árið 2006 koma nú til lokaafgreiðslu þingsins. Seðlabankinn gefur efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar einkunn í Peningamálum sem komu út 2. desember sl. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Mikið ójafnvægi einkennir núverandi ástand efnahagsmála þar sem saman fer metviðskiptahalli, raungengi í sögulegum hæðum, mikil hækkun íbúðaverðs, vaxandi skuldsetning heimila, fyrirtækja og þjóðarbúskaparins í heild sinni og verðbólga yfir markmiði Seðlabankans.“

Þetta er einkunn Seðlabankans um efnahagsástandið, frú forseti. Nú er talið að viðskiptahallinn á þessu ári verði um 15,6% af þjóðarframleiðslu, þ.e. um 154 milljarðar kr., nærri 50 milljörðum meira en áætlað var við fjárlög fyrir ári. Á næsta ári er áætlaður viðskiptahalli upp á 130 milljarða, það haldi áfram á sömu leið. Má búast við að sá halli nálgist frekar 200 milljarða ef ekki verður snúið af þeirri efnahagsbraut sem nú er keyrð. Aðaltekjustofn ríkisins er síðan að verða skattar á viðskiptahallann, skattar á þensluna, skattar á innfluttar vörur. Þetta er ekki traustur tekjustofn en atvinnulífinu blæðir, hátæknigreinunum, ferðaþjónustunni, útflutningsgreinunum, þeim greinum blæðir í þessari efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar láta virkilega til sín taka. En þær geta verið af hinu góða, sagði hæstv. iðnaðarráðherra við Vestfirðinga þegar þeim var sagt upp vinnunni.

Heilu málaflokkarnir eru óafgreiddir við lok fjárlaga. Ég nefni Byggðastofnun, hún er fjárvana, byggðaáætlun rennur út nú um áramótin og engin ný er til. Er það viðhorfið til byggðamála þessarar ríkisstjórnar, frú forseti? Ég nefni hjúkrunarheimilin og fátt er kannski daprara við lokaafgreiðslu þessa frumvarps en að ríkisstjórnin og meiri hlutinn skuli ekki hafa tekið á sjáanlegum vanda hjúkrunarheimilanna.

Frú forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytja nokkrar breytingartillögur, sumar með Frjálslynda flokknum og Samfylkingunni og aðrar sérstakar til að bæta úr í nokkru. Við munum að sjálfsögðu styðja þær góðu tillögur sem lúta að því að bæta þetta frumvarp en að öðru leyti er ábyrgð á því vísað til ríkisstjórnarinnar.