132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:47]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þegar líður að lokum fjárlagavinnunnar á hv. Alþingi fyrir árið 2006 vil ég þakka hv. fjárlaganefnd fyrir skilvirk vinnubrögð og þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðum um fjárlögin fyrir málefnalega umræðu að mestu.

Þau fjárlög sem við erum nú að fara að afgreiða eru aðhaldssöm en samt sem áður fjárlög þar sem tekst að bæta í mikilvæga málaflokka eins og mennta- og velferðarmál. Þetta eru fjárlög skattalækkana en einnig fjárlög þar sem skilað er góðum afgangi upp á nær 2% af landsframleiðslu sem er gott tillegg til jákvæðrar efnahagsþróunar næstu missirin.

Stjórnarandstaðan er þreytt á lýðræðinu og skilar auðu en ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn heldur áfram af fullum krafti að bæta enn frekar hag ríkissjóðs og stjórnarinnar og þjóðarinnar allrar.