132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Á sama tíma og æ fleiri sækja um inngöngu í framhaldsskóla þrjóskast þessi ríkisstjórn við að láta þeim í té það fjármagn sem þarf til rekstrarins. Á sama tíma og framhaldsskólanemar og kennarar senda bænarskjöl til ráðherra menntamála um að falla frá hugmyndum um skerðingu náms til stúdentsprófs þá hunsar þessi ríkisstjórn rök framhaldsskólakennara fyrir því að aukið fjármagn sé nauðsynlegt til að taka á móti auknum fjölda nemenda til að vinna gegn brottfalli í skólunum, til að verknámsskólar geti boðið nemendum upp á námsgögn og tækjabúnað sem standist kröfur tímans og til að tryggja öllum skólavist í framhaldsskólunum sem þess óska. Tillaga sú sem við hér greiðum atkvæði um byggir á þeirri staðreynd að stjórnarandstaðan ákvað að hlusta á rök framhaldsskólakennara. Ég segi já.