132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:01]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Samkvæmt greinargerð Ríkisendurskoðunar um stöðu níu framhaldsskóla, fjögurra á höfuðborgarsvæðinu og fimm á landsbyggðinni, þá er viðvarandi rekstrarhalli þeirra á bilinu 4–35% af fjárveitingum til skólanna. Þetta er einungis ein birtingarmynd af mörgum af viðvarandi fjárhagsvanda margra framhaldsskóla. Það er mikil sókn í skólana af fólki sem hefur áður snúið frá námi. Auk þess þurfum við að gæta þess sérstaklega að vinna gegn brottfalli. Brottfall er miklu meira á Íslandi en annars staðar. Hlutfall hvers árgangs sem útskrifast úr framhaldsskóla er ekki nema 60%, 40% útskrifast ekki með aðra menntun en grunnskóla sem er mjög ólíkt því sem gerist hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Þessu þurfum við að breyta og vinna gegn þeim viðvarandi og króníska rekstrarhalla sem skólarnir búa við og fjárlagafrumvörpin, þetta sem önnur, virðast gróflega vanáætla fjárþörf skólanna. Því segi ég að sjálfsögðu já við þessari tillögu.