132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:12]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er með í höndunum tillögu til þingsályktunar um ferðasjóð íþróttafélaga, flutta af hv. þingmönnum Hjálmari Árnasyni og Magnúsi Stefánssyni m.a., en tillagan gengur út á það að Alþingi veiti árlega fé af fjárlögum í ferðasjóð íþróttafélaga til að standa straum af kostnaði við keppnisferðir þeirra innan lands eftir reglum sem menntamálaráðherra setur.

Ég er sömuleiðis með ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins, íþrótta- og tómstundahóps, og þar er sérstaklega vikið að þessu og sagt að landsfundurinn hvetji hið opinbera til að jafna stöðu íþróttaiðkenda vegna ferðakostnaðar með stofnun sérstaks sjóðs. Íþróttahreyfingunni verði falin ráðstöfun þessa sjóðs eftir reglum sem settar verða í samráði við menntamálaráðuneytið.

Ég lagði til við 2. umr. að Alþingi brygðist vel við þessu og setti fjárveitingu í þennan sjóð, 150 millj. kr. Það gátu hvorki tillögumenn né þeir sem að ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins stóðu samþykkt, sennilega hefur þeim þótt of í lagt. Ég legg því til aðeins lægri upphæð eða 100 milljónir og treysti því þá að menn séu sjálfum sér samkvæmir og styðji það.