132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðförin að Mannréttindaskrifstofu Íslands er eitthvert vesælasta verk þessarar ríkisstjórnar. En ef til vill er það táknrænt að það skuli einmitt vera sú stofnun, sem á að standa vörð um mannréttindi og frjálsa hugsun, sem niðurskurðarhnífnum er beitt gegn. Þetta segir nokkuð um þann sem á hnífnum heldur. Framlög sem áður runnu beint til Mannréttindaskrifstofu Íslands fara nú um hendur hæstv. dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar. Hann hefur ekki reynst veitull á fé til þessarar stofnunar. Þetta mál snýst ekki um sparnað, málið snýst um pólitík og pólitíkin er að kæfa gagnrýnisraddir, bregða fæti fyrir þá sem eiga að hafa það hlutverk að veita valdhöfum heima og heiman aðhald. Látum það vera að sjálfir valdhafarnir komi svona fram, við erum orðin ýmsu vön frá hendi ráðherra í þessari ríkisstjórn, en að stjórnarmeirihlutinn, þeir þingmenn sem hér sitja, skuli láta hafa sig út í þetta skítverk (Forseti hringir.) er mér undrunarefni en væri verðugt rannsóknarefni í sálarfræði.