132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:52]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum styðjum þessa tillögu og það er vegna þess að þetta er liður í því að byggja upp ferðaþjónustu í landinu. Ég er satt að segja mjög hissa á því að sjá að hæstv. ráðherra ferðamála, samgönguráðherra, skuli greiða atkvæði á móti þessu. Maður fer að velta fyrir sér hvers vegna það sé í ljósi annarra atkvæðagreiðslna hérna, þ.e. um Byggðastofnun. Þangað má ekki fara ein króna þegar hún stendur höllum fæti og ekki heldur til íþróttamála á landsbyggðinni.

Ef til vill er þessari tillögu hafnað vegna þess að þessir þjóðgarðar eru utan Reykjavíkur. Maður fer að velta fyrir sér þessari afstöðu til landsbyggðarinnar sem kemur hér æ ofan í æ, m.a. frá hæstv. iðnaðarráðherra í hverju málinu á fætur öðru. Hún endurspeglast í máli sem allir ættu að geta verið sáttir um að efla, a.m.k. þeir sem vilja ferðaþjónustunni í landinu vel.

Enn og aftur, við í Frjálslynda flokknum styðjum þessa tillögu heils hugar.