132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér liggur fyrir tillaga sem felur það í sér að heimila menntamálaráðherra, að höfðu samráði við íþróttahreyfinguna, að koma á fót sjóði til að jafna ferðakostnað íþróttafélaga innan lands og leggja honum til nauðsynlegt stofnfé.

Frú forseti. Við sem þekkjum a.m.k. aðstæður á landsbyggðinni vitum að það er mjög kostnaðarsamt og fyrirhafnarsamt fyrir ungt fólk úti um land að taka þátt í íþróttastarfi, sækja íþróttakappleiki eða íþróttamót um langar vegalengdir og þetta verða yfirleitt börnin eða foreldrarnir að fjármagna. Við leggjum til, til að jafna þennan aðstöðumun, að ráðherra verði a.m.k. heimilað að beita áhrifum sínum til að stofna sjóð til að jafna ferðakostnað íþróttafélaga innan lands. Mér blöskrar, frú forseti, bara sjaldan meira en nú að sjá þetta skilningsleysi þeirra sem hér hafa greitt atkvæði gegn þessari brýnu og sjálfsögðu tillögu. (Forseti hringir.) En ég segi náttúrlega já, frú forseti.