132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:58]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Enn skal reynt, og nú í þriðja sinn við afgreiðslu þessara fjárlaga, að koma þessu sjálfsagða réttlætismáli í gegnum þingið. Ég verð að segja að maður er mjög undrandi á því hvers konar viðtökur þetta mál fær. Við vitum að ef það er eitthvað að marka stjórnarliða er meirihlutastuðningur fyrir þessu máli í þinginu og þá hlýt ég að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að sýna smálit og taka þótt ekki væri nema undir þessa tillögu? Hvernig stendur á því?

Stjórnarliðar verða núna að að athlægi úti um allt land. Það er fjöldi fólks um allt land, líka á höfuðborgarsvæðinu, sem fylgist mjög grannt með þessu máli, foreldrar barna og unglinga sem stunda íþróttir og eru búnir að fá sig fullsadda af því að þurfa að bera kostnaðinn af því að senda börnin á íþróttamót. Þetta eru smápeningar, þetta er gott starf, þetta er forvarnastarf. Af hverju getum við ekki tekið þátt í þessu á sama tíma og stjórnarliðar æ ofan í æ gorta sig af því (Forseti hringir.) að afgreiða fjárlög sem aldrei hafa verið betri en nú, að þeirra eigin sögn? Ég segi já.