132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fyrirspurnir á dagskrá.

[15:30]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnirnar eru að sjálfsögðu dýrmætt verkfæri þingmanna til að veita stjórnvöldum aðhald á hverjum tíma. Það er hreinlega alveg rétt sem bent hefur verið á, fyrirspurnum hefur fjölgað mjög. Það er svo einkennilegt með þjóðfélag okkar að þrátt fyrir allt þetta gríðarlega framboð í fjölmiðlum og upplýsingastreymið sem manni sýnist fara um þjóðfélagið virðist það oft og tíðum vera ansi yfirborðskennt. Ég hef stundum sagt það í gríni, en jafnframt af svolítilli alvöru, að sennilega eru duglegustu rannsóknarblaðamenn Íslands í dag þingmenn í stjórnarandstöðu. Oftar en ekki rata svör við fyrirspurnum beint í fjölmiðla og verða ekki að fréttum fyrr en þær hafa komið fram sem svör frá ráðherrum. Þetta finnst mér svolítið skrýtið. Ég hef ekki séð þetta í öðrum löndum en svona er þetta á Íslandi og er að sjálfsögðu umhugsunarefni.

Hins vegar er ábending hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur fyllilega réttmæt. Ég vil bara gera að tillögu minni að ráðherrar taki sér tak. Ef þeir eiga erfitt með að svara fyrirspurnum af því að erfitt sé að ná í upplýsingar eiga þeir að sýna þá sjálfsögðu kurteisi að hafa samband við þingmenn og láta þá vita af töfinni. Ég veit að þingmenn eru allir af vilja gerðir til að sýna því skilning ef um slíkt er að ræða.

Hins vegar er hægt að finna upplýsingar um mörg atriði eins og hv. þm. Jón Gunnarsson benti á áðan, auðvelt að nálgast þær, og þá vekur það aftur upp spurningu um það hvort eitthvað af öllum þeim aragrúa af fyrirspurnum sem þingmenn bera fram sé kannski óþarfi. Þingmenn sjálfir þurfa líka að hugsa sig um og íhuga hvort þeir eigi ekki að gæta smáaðhalds, að þegar þeir semja fyrirspurnir spyrji þeir ekki um hluti sem auðvelt sé að nálgast svör við, eins og mér sýnist hafa verið í þessu tilfelli.