132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fyrirspurnir á dagskrá.

[15:33]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra hefur gefið mjög eðlilegar skýringar á því af hverju ekki er búið að svara þeirri tilteknu fyrirspurn sem var upphaf þessarar umræðu. Eins og hér hefur komið fram er það auðvitað þannig varðandi fyrirspurnir almennt að þeim hefur fjölgað gífurlega mikið. Reynt hefur verið að hliðra til í störfum þingsins með því að byrja kl. 12 á miðvikudögum við að svara fyrirspurnum og því hefur verið haldið áfram eftir þingflokksfundi á miðvikudögum. Svo hefur verið aukadagur, eins og hér kom fram. Sá fjöldi fyrirspurna sem hér liggur fyrir kemst hins vegar einfaldlega ekki fyrir í störfum þingsins.

Síðan er rétt að leggja áherslu á það að hér er ekki eingöngu um það að ræða að ráðherrar hafi ekki komist til að svara þeim fyrirspurnum sem fyrir þá hafa verið lagðar, heldur eru þingmenn oft og tíðum fjarverandi, þeir þingmenn sem hafa lagt fram fyrirspurnirnar, þegar ráðherrar hafa ætlað að svara þeim. Í dag var t.d. fjarverandi þingmaður sem átti að fá svar við fyrirspurn. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er erlendis og væntanlega þá, samkvæmt hans eigin orðum og skilgreiningu á því hvernig menn rækja embættisskyldur sínar erlendis, flatmagandi núna og getur ekki verið við umræðuna til að fá fyrirspurn sinni svarað.

Oft og tíðum er þetta svona, hæstv. forseti. Það kemur hvort tveggja til, að ráðherrar eru að sinna skyldum annars staðar á þeim miðvikudögum þegar fyrirspurnum er svarað en einnig og ekki síður eru þingmenn oft fjarverandi þegar á að svara fyrirspurnum þeirra.