132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Aðgangur að opinberum háskólum.

114. mál
[15:45]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er spurt:

„Hve mörgum sem sóttu um skólavist var vísað frá haustið 2005 í Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands, sundurliðað eftir deildum og skorum?“

Það var leitað til nemendaskráa Háskóla Íslands, KHÍ, þ.e. Kennaraháskólans, og Háskólans á Akureyri og byggist svarið á upplýsingum frá þeim. Í þeim upplýsingum kemur fram að allir umsækjendur sem uppfylltu sett inntökuskilyrði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri fengu skólavist og var engum þeirra vísað frá. Mikil aðsókn að Kennaraháskóla Íslands er hins vegar engin nýlunda. Áhugi á kennaramenntun virðist vera mjög mikill og er það vel. Það er stefna mín að auka fjölbreytni í námsframboði á þessu sviði og má í því sambandi nefna að nú fer kennaramenntun af ýmsum toga fram við fimm háskóla í landinu, þ.e. við Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Listaháskólann og einnig í Háskólanum á Akureyri.

Háskóli Íslands hafnaði 48 umsækjendum í grunnnámi háskólaárið 2005–2006. Í öllum tilvikum var um að ræða umsóknir sem ekki uppfylltu inntökuskilyrði viðkomandi deildar. Auk þess var 59 umsóknum erlendra námsmanna hafnað. Þá var umsóknum hafnað þar sem þær bárust eftir að umsóknarfrestur var liðinn. Einnig var um að ræða umsóknir sem var svarað formlega með bréfi en fæstir sækja um eftir að þeim hefur verið tjáð að engar undanþágur séu veittar frá umsóknarfresti eða inntökuskilyrðum sem vel er kynnt t.d. á vegum HÍ.

Umsóknirnar 48 sem var hafnað í Háskóla Íslands skiptast með eftirfarandi hætti á deildir og skorir: Guðfræðideild 2, lagadeild 4, viðskipta- og hagfræðideild 8, þar af 1 í hagfræði og 7 í viðskiptafræði, hugvísindadeild 11, þar af 3 í bókmenntafræði og málvísindaskor, 1 í skor rómanskra og klassískra mála, 2 í heimspekiskor, 1 í sagnfræðiskor, 2 í íslenskuskor og 2 í skor þýsku og Norðurlandamála. 5 umsóknum var hafnað í verkfræðideild, þar af 1 í umhverfis- og byggingaverkfræði, 2 í véla- og iðnaðarverkfræði, 1 í rafmagns- og tölvuverkfræðiskorinni og 1 í tölvunarfræðiskorinni. 11 umsóknum var hafnað í félagsvísindadeild, þar af 1 í bókasafns- og upplýsingafræðiskorinni, 4 í félagsfræðiskorinni, 2 í félagsráðgjafaskorinni, 3 í sálfræðiskorinni og 1 í uppeldis- og menntunarfræðiskorinni. 7 umsóknum var hafnað í hjúkrunarfræðideildinni en þetta voru allt umsækjendur sem ekki uppfylltu inntökuskilyrði.

Í upplýsingum frá Kennaraháskóla Íslands um háskólaárin 2005–2006 kemur fram að alls voru umsækjendur í grunndeild 1.071 og var 645 umsækjendum hafnað eða þeir settir á biðlista. 324 sóttu um framhaldsdeild og var 142 hafnað eða settir á biðlista. Allar umsóknirnar sem hér um ræðir uppfylltu inntökuskilyrði og voru teknar til umfjöllunar og forgangsraðað.

Skipting þeirra umsókna sem hafnað var í grunndeild Kennaraháskólans var sem hér segir: 98 á kennsluréttindabraut, 278 á grunnskólabraut, 140 á leikskólabraut, 72 á þroskaþjálfabraut, 34 á tómstundabraut og 23 á íþróttabraut. Skipting þeirra umsókna sem hafnað var í framhaldsdeild var sem hér segir: Fullorðinsfræðsla 7, kennslufræði og skólastarf 2, nám og kennsla ungra barna 17, náttúrufræðimenntun 9, sérkennslufræði 29, stjórnun menntastofnana 55, tölvu- og upplýsingatækni 4, uppeldis- og menntunarfræði 11, þroskaþjálfa- og fötlunarfræði 2, meistaranám 3 og doktorsnám 3.

Háskólanum á Akureyri bárust 552 umsóknir fyrir háskólaárið 2005–2006 og var 127 umsækjendum hafnað eða 19%. Í öllum tilvikum var ástæðan sú að viðkomandi uppfyllti ekki inntökuskilyrði viðkomandi deilda. Þær 127 umsóknir sem hafnað var við HA skiptast með eftirfarandi hætti á deildir og brautir: 5 í auðlindadeild, þar af 3 í meistaranám í auðlindafræði og 2 í sjávarútvegs- og fiskeldisbraut, 5 í félagsvísinda- og lagadeild, 10 umsóknum var hafnað í heilbrigðisdeild, 9 í hjúkrunarfræði og 1 í framhaldsnám í heilbrigðisvísindum. 65 umsóknum var hafnað í kennaradeild, þar af 26 á grunnskólabraut, 4 í kennslufræði til kennsluréttinda og 35 á leikskólabraut. 9 umsóknum var hafnað í upplýsingatæknideild, öllum á tölvunarfræðibraut. Að lokum var 33 umsóknum hafnað í viðskiptadeild, þar af 2 á ferðaþjónustubraut, 8 á fjármálabraut, 9 á markaðsfræðibraut, 8 á rekstrarbraut og 6 á stjórnunarbraut.

Frú forseti. Það er ljóst að engum sem sótt hafa um inntöku í Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands og uppfylltu inntökuskilyrði hefur verið hafnað. Við Kennaraháskólann er það eins og ég gat um áðan engin nýlunda hversu margir sækja um kennaramenntun. Það má hins vegar geta þess og er rétt að draga það fram að háskólasamfélagið, kerfið sem slíkt, getur tekið inn fleiri kennara. Eftirspurnin er til staðar en framboð er líka í kennaramenntun og eins og ég gat um áðan býður fjölbreytt flóra háskólanna upp á þessa mikilvægu menntun.