132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Dreifikerfi Ríkisútvarpsins fyrir stafrænt sjónvarp.

188. mál
[15:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurrós Þorgrímsdóttir) (S):

Frú forseti. Við lifum á tíma mikilla tækniframfara þar sem ný tækni hefur verið að ryðja sér til rúms og opnað áður óþekkta möguleika á dreifingu stafræns sjónvarpsefnis. Þannig á stór hluti þjóðarinnar nú þess kost að horfa m.a. á dagskrá RÚV með stafrænni tækni og það er ekki bara í einu dreifineti heldur mörgum. Þau dreifinet sem nú þegar bjóða upp á stafrænt sjónvarp hér á höfuðborgarsvæðinu eru breiðband Símans, ADSL sjónvarp Skjás 1 sem er í eigu Símans, Digital Ísland sem er í eigu 365 ljósvakamiðla og ljósleiðaranet Orkuveitu Reykjavíkur sem er í Reykjavík og ýmsum nágrannasveitarfélögum. Öll þessi dreifikerfi flytja nú þegar dagskrá RÚV með fullkominni stafrænni tækni.

Frú forseti. Það kom mér nokkuð á óvart í ljósi ofangreindra staðreynda þegar ég sá í fréttum nýlega útboð á sjónvarpsrásum fyrir þá sem hafa áhuga að byggja nýtt dreifinet fyrir stafrænt sjónvarp sem skyldi ná til 98% landsmanna og að RÚV hefði verið meðal tveggja aðila sem vildi byggja slíkt dreifikerfi. Greint var frá því að Ríkissjónvarpið hefur boðið í þrjár rásir sem dreifa sjö sjónvarpsdagskrám til 98% landsmanna fyrir 1. október 2007. Að auki hyggst Ríkisútvarpið dreifa háskerpusjónvarpi á einni rás. Í ofangreindu ljósi hef ég lagt fram eftirfarandi spurningar til menntamálaráðherra:

Er fyrirhugað að Ríkisútvarpið setji upp eigið dreifikerfi fyrir stafrænt sjónvarp, og ef svo er:

a. hver eru helstu rökin fyrir því á svæðum þar sem slík dreifikerfi eru til staðar, t.d. á höfuðborgarsvæðinu,

b. hafa aðrir kostir verið athugaðir, t.d. að fá aðgang að einhverju hinna dreifikerfanna,

c. hver er áætlaður heildarkostnaður við uppsetningu dreifikerfisins?

Frú forseti. Hugsanlega þarf Ríkisútvarpið að gera sérstakar ráðstafanir varðandi dreifðustu byggðir landsins en ég spyr hvort nauðsynlegt sé að byggja upp enn eitt dreifikerfið á stöðum þar sem íbúar hafa nú þegar aðgang að stafrænu sjónvarpi, ekki bara einu heldur fjórum mismunandi.

Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort ekki sé æskilegra að nýta þá fjármuni sem ætlaðir eru í enn eitt dreifikerfið í innlenda dagskrárgerð.