132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Dreifikerfi Ríkisútvarpsins fyrir stafrænt sjónvarp.

188. mál
[15:59]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég hef leitað eftir upplýsingum og afstöðu Ríkisútvarpsins til fyrirspurnar hv. þingmanns og koma svör stofnunarinnar hér eftir. Í upphafi er rétt að taka fram að samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið er stofnuninni ætlað að dreifa dagskrá sjónvarpsins til alls landsins. Að þessu marki hefur verið stefnt allt frá stofnun sjónvarpsins árið 1966 en takmarkinu hefur ekki enn verið náð.

Núverandi dreifing sjónvarpsins nær til um 99,9% heimila landsins í mismiklum myndgæðum. Til dæmis hefur ekki sérstaklega verið unnið að dreifingu til sumarbústaðasvæða. Núverandi dreifikerfi þarfnast endurnýjunar og verður stefnt að henni í stafrænni tækni.

Fyrr á árinu fór fram útboð á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar, eins og hv. þingmaður kom inn á, á UHF-rásum til sjónvarpsútsendinga á landsvísu með dreifingu til 98% heimila landsins innan tveggja ára. Ríkisútvarpið lagði inn tilboð og fékk úthlutað rásum til sjónvarpsþjónustu um allt land, annar tveggja aðila. Fram til þessa hefur útvarpsgjald og tekjur vegna birtinga auglýsinga staðið undir kostnaði dreifikerfisins, samanber 10. gr. núgildandi laga um Ríkisútvarpið.

Eins og kunnugt er eru útsendingar sjónvarpsins opnar og með viðeigandi búnaði eiga allir að geta tekið á móti þeim. Núverandi stafræn dreifikerfi Landssíma Íslands hf. og 365 ljósvakamiðla eru fjölrásaveitur sem selja aðgang að fjölbreyttu dagskrárefni. Ef útsendingamerki sjónvarpsins væri eingöngu miðlað um slíkt dreifikerfi þyrftu allir notendur sjónvarpsins að kaupa að þeim aðgang, jafnvel aðeins til að horfa á sjónvarpið.

Síðan er spurt hvort aðrir kostir hafi verið athugaðir, t.d. að fá aðgang að einhverju hinna dreifikerfanna. Dagskrá sjónvarpsins er dreift í öllum fjölrásaveitum sem hafa óskað eftir því að flytja merki sjónvarpsins. Ríkisútvarpið hefur markað þá stefnu að heimila dreifingu á dagskrám sínum án skilyrða og með þeim hætti reynt að tryggja sem best aðgengi að þeim. Ríkisútvarpið hefur talað fyrir því að svonefnd „must carry“ regla samkvæmt 55. gr. fjarskiptalaga verði innleidd þannig að fjölrásaveitu verði gert skylt að flytja dagskrá Ríkisútvarpsins. Ákvörðun um beitingu þessa ákvæðis fjarskiptalaga er nú í höndum Póst- og fjarskiptastofnunar.

Ríkisútvarpið hefur fram til þessa miðað við að dreifa dagskrám stofnunarinnar um eigið dreifikerfi. Engin ákvörðun hefur verið tekin um að dreifa dagskrá Ríkisútvarpsins eingöngu um fjölrásaveitur einkafyrirtækja enda ber Ríkisútvarpinu að annast rekstur eigin dreifikerfis, samanber 4. mgr. 4. gr. núgildandi laga. Ríkisútvarpið á hins vegar í viðræðum við einkaaðila um samstarf í dreifingu á dagskrá stofnunarinnar.

Síðan er spurt hver sé áætlaður heildarkostnaður við uppsetningu dreifikerfisins. Kostnaður við byggingu stafræns dreifikerfis fyrir eina fléttu — en ein flétta er 5–7 sjónvarpsdagskrár — sem nær til 98% þjóðarinnar er áætlaður 310 millj. kr. Árlegur rekstrarkostnaður er áætlaður um 90 millj. kr. Ef hins vegar á að ná dreifingu til 99,9% landsmanna er stofnkostnaður fyrir eina fléttu áætlaður um 680 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður þá áætlaður um 300 millj. kr. Ríkisútvarpið hefur kynnt menntamálaráðuneytinu framangreindar kostnaðaráætlanir og hefur þegar óskað eftir viðræðum við ráðuneytið um fjármögnun stafræns dreifikerfis.