132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Raunfærnimat.

214. mál
[16:17]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina. Þetta er stórmál og það er allt of létt tekið á því af hálfu menntayfirvalda. Ég minni á að í búnaðarnámi hafa til margra ára verið þær reglur að skólarnir hafa haft vissa heimild til að meta starfsreynslu og annað nám inn í námsbrautir sínar. Þegar nemandi er orðinn 25 ára og hefur unnið við bústörf hefur hann átt aðgengi inn í búnaðarskólana og þó svo að hann skorti einhverja áfanga í bóklegum greinum fær hann að spreyta sig. Það á að vera hin almenna regla að þegar fólk er komið yfir ákveðinn aldur, er komið með ákveðna reynslu að baki og vill sækja um eitthvert nám á það að fá tækifæri og leyfi til að spreyta sig. Það stendur þá og fellur með því hvernig til tekst. (Forseti hringir.) Það er dapurlegt að háskólarnir skuli einmitt nú beita þessu ákvæði sem skerðingu á möguleikum fólks til að sækja háskóla, frú forseti.