132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fræðsla í Kennaraháskóla Íslands um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

215. mál
[16:25]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda, Ágústi Ólafi Ágústssyni, fyrir þessa fyrirspurn varðandi fræðslu Kennaraháskóla Íslands um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og hvort ég muni beita mér fyrir því að fullnægjandi fræðsla um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum verði tekin upp í námskrá Kennaraháskóla Íslands.

Ég vil strax í upphafi máls míns undirstrika það að ráðuneytið hefur ekki bein áhrif á námskrá Kennaraháskólans enda værum við þá að fara gegn sjálfstæði háskóla. Stofnunin ber sjálf ábyrgð á gerð námskrár og kennsluskrár, en eins og ég gat um áðan eru bæði Kennaraháskólinn og aðrir háskólar, hvort sem um er að ræða Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands eða þá háskóla þar sem fram fer kennaramenntun, allt sjálfstæðar stofnanir. Hins vegar er rétt að undirstrika það að ráðuneytið gefur úr aðalnámskrár sem setja auðvitað rammann um skólastarfið, námsefni og kennsluhætti í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum þannig að aðalnámskráin getur verið eitt af viðmiðum við gerð námskrár kennaramenntunar stofnananna. Þar sem hér er sérstaklega spurt um námskrá frá Kennaraháskólanum þá er svarið byggt á upplýsingum m.a. frá þeirri stofnun.

Samkvæmt Kennaraháskólanum er fjallað um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum á ýmsan hátt bæði í grunnnámi fyrir leikskólakennara, grunnskólakennara og þroskaþjálfa auk þess sem það er á dagskrá í framhaldsdeild skólans og á símenntunarnámskeiðum. Í upplýsingum frá skólanum kemur fram að kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hafi sérstaklega verið rætt innan skólans í kjölfar nýlegrar fjölmiðlaumfjöllunar. Kennsla í Kennaraháskólanum um ofbeldi gegn börnum og barnavernd fer bæði fram í námskeiðum í kjarna námsins, á kjörsviðum og í valnámskeiðum á mismunandi brautum.

Sem dæmi má nefna þroskasálfræði, sem er skyldugrein á fyrsta ári í grunnnámi allra deilda skólans. Þar er m.a. fjallað um árásargirni, einelti og ofbeldi, þar með talið ofbeldi gagnvart börnum í sínu heimaumhverfi. Í þessu samhengi er kennaraefnum gerð grein fyrir tilkynningarskyldu og helstu úrræðum og vinnubrögðum starfsfólks barnaverndarnefnda. Á leikskólabraut er fjallað sérstaklega um ofbeldi gegn börnum og barnavernd og er barnaverndin þar hluti af námskeiði um nútímafjölskylduna. Þar er m.a. fjallað um helstu atriði er varða barnavernd eins og þau birtast í lögum. Á kjörsviði um yngribarnakennslu á grunnskólabraut er einnig fjallað um hvernig kennari geti borið kennsl á einkenni hjá börnum í bekknum og um viðbrögð kennara sérstaklega gagnvart barninu.

Auk þessa er fjallað um efnið frá ýmsum sjónarhornum í valnámskeiðum Kennaraháskólans, bæði grunndeild, framhaldsdeild og á símenntunarnámskeiðum. Má þar nefna námskeið um barnavernd, einelti, erfiðar félagslegar aðstæður unglinga, afbrotafræði og áhættuhegðun unglinga. Í framhaldsdeild hefur verið kennt valnámskeið um barnavernd þar sem ofbeldi gegn börnum er snar þáttur. Fjallað er um réttindi barnsins, framkvæmd barnaverndar, ólík stig aðgerða svo sem forvarnir, stuðningsaðgerðir og afskipti af uppeldi og forsjá foreldra, um slæma aðbúð barna og ofbeldi. Ítarlega er fjallað um tilkynningarskyldu, bæði hvað snertir lög og framkvæmd. Kynnt eru réttindi og skyldur starfsmanna, staða barnanna sjálfra, unglinganna og forsjáraðila, samanber lög og reglugerðir sem tengjast barnaverndinni. Fjallað er sérstaklega um hlut fagmanna í því að sinna uppeldis- og umhyggjuhlutverki sínu og fást við viðkvæm úrlausnarefni. Auk þess má nefna að í lokaritgerðum við Kennaraháskóla Íslands hefur víða verið skrifað um ofbeldi í uppeldi og þá einkum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

Ljóst er af þessum dæmum að umfjöllun og kennslu um ofbeldi gegn börnum og barnavernd er víða að finna í námi leikskólakennara, grunnskólakennara, íþróttakennara og þroskaþjálfa í grunnnámi, framhaldsnámi og símenntun í Kennaraháskólanum. Sama máli gegnir væntanlega um aðrar stofnanir sem veita kennaramenntun.

Nýleg umfjöllun í fjölmiðlum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hefur vakið óhug fólks og vangaveltur um hvernig unnt sé að koma í veg fyrir slíkt. Þótt víða sé fjallað um ofbeldi í kennaranámi tel ég mikilvægt að styrkja þennan þátt, bæði í grunnnámi og endurmenntun, þar sem kennarar geta í daglegu starfi sínu verið í lykilaðstöðu til að fylgjast með andlegri og líkamlegri líðan nemenda. Þá er mikilvægt að uppeldisstéttir þekki þau úrræði sem grípa þarf til þegar grunur leikur á að um kynferðislegt ofbeldi og misnotkun barna sé að ræða.

Menntamálaráðuneytið treystir þeim háskólum sem mennta kennara til að byggja námið upp á faglegan hátt og veita fræðslu um viðbrögð við kynferðislegu ofbeldi auk fjöldamargra atriða sem kennarar þurfa að hafa vald á í þeirra ábyrgðarmikla starfi.