132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fræðsla í Kennaraháskóla Íslands um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

215. mál
[16:30]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Mér er kunnugt um að talsverðar breytingar hafa verið að eiga sér stað upp á síðkastið innan Kennaraháskóla Íslands í þessum efnum, eins og hæstv. menntamálaráðherra kom að.

Fyrir skemmstu, fyrir nokkrum missirum, héldu Stígamót ráðstefnu þar sem ýmsar fagstéttir sem koma að vinnu með börnum voru kallaðar saman til skrafs og ráðagerða varðandi það hvernig þær geta lagt lóð sín á vogarskálarnar í þessum efnum og hvernig við í heildina sinnum menntunarhlutverki okkar gagnvart þeim ólíku stéttum sem koma að því að vinna með börn.

Stígamót hafa búið til slagorðið: Bætum hlustunarskilyrðin og það á við um að bæta hlustunarskilyrði ekki bara kennara, heldur ekki síður lögreglumanna, dómara, sálfræðinga, meðferðarfræðinga og annarra þeirra sem vinna með börn og ungmenni. Og þó að við bætum menntunarskilyrðin í þessum efnum núna, sem ég veit að við erum öll vakandi fyrir, þá þurfum við ekki síður að vera opin fyrir fullorðinsfræðslunni, fyrir símenntuninni, að sjá þeim sem eru núna starfandi úti á akrinum fyrir þeirri fræðslu sem nauðsynleg er.