132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

118. mál
[16:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra — ég gæti notað nákvæmlega sama orðalagið og ég notaði 16. febrúar árið 2005, frú forseti.

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að nemendur í framhalds- og háskólanámi sem verða að búa á heimavist eða leigja sér húsnæði vegna fjarlægðar frá skóla öðlist rétt til húsaleigubóta þótt þeir eigi lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi?

Eins og lögin kveða á um eiga þeir leigjendur rétt á húsaleigubótum sem leigja íbúðarhúsnæði til búsetu og eiga þar lögheimili. Hins vegar gilda sérstakar reglur um námsmenn en í lögunum um húsaleigubætur segir svo, með leyfi forseta:

„Dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst og á þar skráð aðsetur getur viðkomandi átt rétt til húsaleigubóta þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. um lögheimili í leiguíbúð.“

Þetta skiptir gríðarlegu máli fyrir ákveðinn hóp nemenda sem verða að búa utan heimilis til að sækja skóla. Nú er verið að stækka sveitarfélögin og þá kemur þetta enn frekar til greina. Tökum nemendur — af því að ég þekki svo vel til í Skagafirði — sem búa úti í Fljótum, búa fram í Lýtingsstaðahreppi og eru í sveitarfélaginu Skagafirði. Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki er þeirra næsti skóli í sjálfu sér en hann er í sama sveitarfélagi og þá samkvæmt reglunum eiga þessir nemendur ekki rétt á húsaleigubótum þegar þeir sækja þann skóla. Hins vegar fari þeir í skóla á Akureyri eða í skóla í Reykjavík eða hvert annað í framhaldsskóla, þá eiga þeir rétt á húsaleigubótum.

Þetta er svo mikið misrétti að ég er hálfhryggur, frú forseti, yfir að þurfa að halda nákvæmlega sömu ræðuna og ég hélt hér fyrir tæpu ári um mikilvægi þess að rétta hlut þessara nemenda.

Félagsmálaráðherra er ábyrgur fyrir framkvæmd laga um húsaleigubætur. Hann er líka ábyrgur fyrir jafnréttismálum og þess vegna finnst mér hálfdapurt að þurfa að spyrja hann aftur. Hann svaraði því í fyrra að hann væri með þetta í skoðun og hygðist leysa úr þessu bráðlega, þetta væri mál sem væri verið að leysa í samstarfi sveitarfélaga og ráðuneytisins. Ekkert bólar á því. Hæstv. ráðherra, þetta gildir um örfáar undantekningar.