132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Réttarstaða sjómanna.

282. mál
[16:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég var ekkert sérstaklega ánægður með svörin hjá hæstv. félagsmálaráðherra. Hann segir að hann hafi ekki vald til að koma á kjarasamningi en hann hefur samt fullt vald og heimild í lögum til að kanna þá stöðu sem upp er komin. Það hefur ítrekað komið fram í umræðunni, þótt það hafi ekki farið hátt, að brotinn sé réttur á þessum mönnum, launamönnum. Hvers vegna ekki að kanna það, hæstv. ráðherra? Ég skil ekkert í svona svörum. Ég hefði talið eðlilegt að fara yfir það. Ég veit ekki hvort sjómenn eru flokkaðir aftar en t.d. erlendir verkamenn. Það er búið að fara í mikla vinnu hvað þá varðar. Og hvað varðar blaðburðarbörn, það var ekki talið lítilvægt að kanna stöðu þeirra. Mér finnst þetta vera stórmál sem varðar þá sem vinna hættulegustu og erfiðustu störfin. Ef það er ekki nógu fínt og flott fyrir ráðherra að kanna það finnst mér það félagsmálaráðuneytinu til skammar.

Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra taki sig á í þessu máli. Ég bjóst sannast sagna við því, frú forseti, að hann kæmi hérna og tæki þessari ábendingu vel. Ég bjóst við að hann segði: Jú, það er rétt að skoða málið, þetta er búið að vera lengi í umræðunni og staðan hjá þessum mönnum er erfið vegna þess að þetta eru oft og tíðum lítil fyrirtæki. Þeir eru miklu nálægari yfirmönnum sínum og þess vegna getur verið erfitt fyrir þá að krefjast réttar síns, sérstaklega ef upp úr dúrnum kemur að staðan er eins og hún er sögð í þessu bréfi sem við fengum í Frjálslynda flokknum, að menn séu unnvörpum reknir fyrir það eitt að fara fram á það að fá launin sín greidd.

Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra fari að átta sig á alvöru málsins. Þetta snýst um kjör þeirra sem vinna erfiðustu störfin og ein hættulegustu störfin í þjóðfélaginu. Ef eitthvað ætti að vera forgangsverkefni hjá hæstv. ráðherra er það þetta mál.