132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Réttarstaða sjómanna.

282. mál
[17:01]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þingmanni ekki sæmandi að ýja að því að þetta mál sé ekki nægilega fínt eða flott fyrir þann sem hér stendur. Þetta mál snýst ekkert um það. (SigurjÞ: Hvað þá?) Það sem ég sagði áðan var að ég hef ekki vald til að knýja menn til að ganga frá slíkum samningi. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu, hv. þingmaður, ef við höldum ró okkar, að kanna þetta mál. Ekki hefur verið leitað til ráðuneytis míns sérstaklega með það. Ég mun að sjálfsögðu, ef það verður gert, fara yfir málið með þeim aðilum sem fara fram á það, að sjálfsögðu.

Ég vil hins vegar árétta það sem ég sagði áðan, í landi okkar ríkir samningsfrelsi og hér eru lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Þau fela í sér umgjörð um samskipti atvinnurekenda og launafólks. Ég legg áherslu á og tek undir það með hv. þingmanni að það er sjálfsagt og eðlilegt að hvetja þessa aðila til að koma sér saman um gerð kjarasamnings. Ef menn leita eftir því við mig sem félagsmálaráðherra og okkur í félagsmálaráðuneytinu að við förum yfir þetta mál með aðilum munum við að sjálfsögðu gera það. Ég vil að það liggi alveg skýrt fyrir, hæstv. forseti.