132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Hvalnes- og Þvottárskriður.

228. mál
[17:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég lagði fram fyrirspurn um Hvalnes- og Þvottárskriður en um það leyti þegar ég lagði hana fram hafði það nýlega gerst í eitt skipti sem oftar að vegurinn um Hvalnes- og Þvottárskriður hafði lokast vegna veðurs. Því miður gerist það orðið æ oftar og veldur okkur miklum áhyggjum. Þetta er eina leiðin fyrir okkur þarna á svæðinu og ekki hægt að sneiða fram hjá kaflanum. Öryggi vegfarenda skiptir gríðarlegu máli og hafa stjórnvöld sýnt það nýlega í máli þegar ákveðið var að fara í aðgerðir fyrir vestan í Óshlíðinni en þar eru kannski ekki ósvipaðar aðstæður og fyrir austan.

Sveitarstjórnir á svæðinu hafa lýst yfir miklum áhyggjum af ástandi mála og segir m.a. í bókun frá Djúpavogshreppi, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnin telur mjög brýnt að sérstakt fé verði markað strax í endurbætur á þessum vegarkafla til að tryggja nauðsynlegt öryggi vegfarenda, starfsmanna Vegagerðarinnar og annarra er vinna að viðhaldi og opnun vegarins þegar hann lokast eða verður illfær.“

Vegagerðin hefur einnig lýst yfir áhyggjum af ástandi leiðarinnar og í fundargerð þeirra frá fundi á Höfn segir, með leyfi forseta:

„Aðstæður í Hvalnes- og Þvottárskriðum hafa farið versnandi ár frá ári vegna vaxandi grjóthruns, aurskriðna og snjóflóða. Vegurinn þar hefur því oft á tíðum orðið illfær og lokast á öllum tímum árs af þeim sökum. Starfsmenn vinna þarna oft við erfiðar og mjög hættulegar aðstæður. Þeir hafa bent á í nokkur ár að vegurinn sé mjög hættulegur vegfarendum við slíkar aðstæður og ekki sé hægt að vinna þarna af neinu öryggi og tímaspursmál jafnvel hvenær slys verði þarna á fólki.“

Við þekkjum það fyrir austan nýlega þegar opnuð voru ný göng á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar hvílíkur munur það var að losna við Vattarnesskriðurnar og núna eru í raun þessar skriður eina hindrunin á svæðinu. Mér finnst því vera tilefni til að spyrja hæstv. samgönguráðherra að því til hvaða ráðstafana hann hyggst grípa vegna stórvaxandi hættu fyrir vegfarendur um Hvalnes- og Þvottárskriður og þá helst Hvalnesskriðurnar. Er t.d. hugmynd að byggja yfir veginn á versta kaflanum?