132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Hvalnes- og Þvottárskriður.

228. mál
[17:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og sérstaklega hæstv. samgönguráðherra fyrir svör hans. Menn eru greinilega að taka vel á málinu. Ég vil segja þá skoðun mína að það er nauðsynlegt að grípa til langvarandi lausna. Við verðum að passa okkur á að falla ekki í þá gryfju að koma með einnota lausnir í langan tíma því þegar upp er staðið eru slíkar aðferðir ekki gerðar til að spara okkur neina peninga. Því vil ég fagna mjög orðum hæstv. samgönguráðherra um að skoða alla kosti í alvöru og þar með talin jarðgöng. Það er kostur sem greinilega kemur vel til álita og ekki síst þá vegna þess að við öryggisþáttinn bætist sú stytting sem ráðherra kom inn á áðan.

Við vitum að jarðgangaumræðan er viðkvæm, það eru margir sem bíða eftir göngum og sú umræða mun fara fram hér í vetur. En í þessu tilfelli eru sérstakar aðstæður og því vil ég fagna sérstaklega þessari umræðu. Ég tel að göng undir Lónsheiði séu eitthvað sem við munum horfa á til framtíðar en nauðsynlegt einnig, eins og hæstv. ráðherra kom inn á hér, að áætlaðir eru fjármunir í þetta á næstu árum í endurbyggingar þannig að þetta verður sambærilegt við veginn um Kambanesskriður og það finnst mér traust vegna þess að mjög ólíkt er að keyra þær skriður eða Hvalnes- og Þvottárskriður. Ég þakka fyrir þessa umræðu.