132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Hvalnes- og Þvottárskriður.

228. mál
[17:13]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Það er ljóst eins og fyrri daginn að mikill skilningur er hjá hv. þingmönnum á því að við þurfum að leggja fjármuni til vegagerðar og ekki síst jarðgangagerðar til að auka öryggið á þjóðvegakerfinu og til að stytta leiðir og gera flutningskerfi okkar landsmanna sem hagkvæmast. Það er auðvitað það sem verið er að sækjast eftir með úrbótum á vegakerfinu og styttingu í vegalengdum.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson vakti athygli á því að jarðgöngin spara þegar til lengri tíma er litið. Engu að síður er það svo að við höfum verið að þreifa okkur áfram í lausnum. Dæmi um það eru vegskálarnir í Óshlíðinni sem við gerum ráð fyrir núna að bæta enn frekar úr á þeirri leið til viðbótar við vegskálana og þær úrbætur sem hafa verið gerðar á Óshlíðinni og víðar. En allt tekur þetta sinn tíma og við erum að þróa bæði vinnubrögð, hönnun og framkvæmdir í vegagerðinni, þannig að ég trúi því að þær aðgerðir sem eru fyrirhugaðar þarna á skriðunum verði til skemmri tíma mikilvæg úrlausn þó að það sé ekki frambúðarútfærsla eða frambúðarlausn á þessum leiðum. Framtíðarlausnin er jarðgöng.