132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:15]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bjarnason frá iðnaðarráðuneytinu, Hákon Aðalsteinsson frá Orkustofnun, Davíð Egilson og Kristján Geirsson frá Umhverfisstofnun, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Hjörleif B. Kvaran frá Orkuveitu Reykjavíkur, Júlíus Jónsson frá Hitaveitu Suðurnesja, Björn Pétursson og Örlyg Þórðarson frá Landsvirkjun og Tryggva Þór Haraldsson frá Rafmagnsveitum ríkisins.

Á síðasta þingi lagði iðnaðarráðherra fram frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Var því frumvarpi ætlað að leysa af hólmi lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, auk þess sem því var m.a. ætlað að taka til rannsókna á vatnsaflsvirkjunum. Í meðförum Alþingis ákvað iðnaðarnefnd að fresta afgreiðslu frumvarpsins. Hins vegar lagði nefndin síðan fram nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998 þar sem kveðið var á um rannsóknir á vatnsaflsvirkjunum. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju með þeirri breytingu að fellt er niður ákvæði til bráðabirgða.

Í frumvarpinu er lagt til að gildissvið laganna verði víkkað þannig að lögin taki til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Við þessa breytingu munu ákvæði laganna, samanber einkum ákvæði III. kafla laganna um rannsóknir og leit, taka til slíkra rannsókna eftir því sem við á. Þá er í 2. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að rannsóknarleyfi samkvæmt lögunum séu veitt einum aðila með þeirri undantekningu að hafi aðilar sammælst um rannsóknir og sæki sameiginlega um rannsóknarleyfi skuli heimilt að veita þeim það sameiginlega. Í 3. gr. frumvarpsins er síðan mælt fyrir um endurkröfurétt þeirra sem fengið hafa rannsóknarleyfi og lagt í kostnað við rannsóknir en fá af einhverjum ástæðum ekki leyfi til nýtingar á viðkomandi auðlind. Gert er ráð fyrir að sá kostnaður sem endurgreiða ber sé í samræmi við rannsóknaráætlun og í beinum og efnislegum tengslum við fyrirhugaða nýtingu.

Meiri hlutinn leggur til eina breytingu á frumvarpinu og lýtur hún að ákvæði til bráðabirgða þar sem mælt er fyrir um skipun nefndar sem skal hafa það hlutverk að gera tillögu um það með hvaða hætti verði valið á milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi samkvæmt lögunum og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Nefndinni ber að skila tillögum sínum til iðnaðarráðherra í síðasta lagi 15. september 2006.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri breytingu:

Við bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:

Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti þrír fulltrúar frá Samorku. Þá skal iðnaðarráðherra skipa tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Nefndin skal skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps til iðnaðarráðherra eigi síðar en 15. september 2006.

Undir nefndarálitið rita 3. des. 2005 Birkir J. Jónsson, Einar Oddur Kristjánsson, Kjartan Ólafsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson.

Hæstv. forseti. Í ljósi 1. umr. um frumvarpið og umræðu í nefndinni tel ég rétt að fara örlítið betur yfir þetta í stuttu máli. Hér er, eins og ég sagði áðan, um endurflutt frumvarp að ræða nema með þeim breytingum að hæstv. iðnaðarráðherra lagði ekki til ákvæði til bráðabirgða sem hv. iðnaðarnefnd lagði til á síðasta löggjafarþingi um það annars vegar að skipa þverpólitíska nefnd til að móta framtíðarfyrirkomulag þessara mála og hins vegar hvað varðaði að skipa starfshóp sérfróðra manna sem skyldi vera nefnd til aðstoðar við greiningu á atriðum sem máli skipta við val á umsóknum um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara.

Hæstv. forseti. Starfshópur sérfróðra manna hefur þegar hafið störf. Hins vegar stóð það út af þá að ekki var gert ráð fyrir að ákvæði yrði til bráðabirgða sem hljóðaði upp á að þverpólitísk nefnd færi í þetta mál, að skoða hvernig við myndum haga þessu máli til framtíðar litið. Meiri hluti nefndarinnar, öll iðnaðarnefnd Alþingis að undanskildum áheyrnarfulltrúa í iðnaðarnefnd, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem var á móti því þá, lagði það til, að undanskildum hv. þingmanni, að frumvarpið færi fram með þeim hætti sem ég mæli hér fyrir um. Meiri hluti nefndarinnar hefur sett inn ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar á þann veg að skipuð verði þverpólitísk nefnd til fara yfir framtíðarhorfur í þessum málaflokki. Því hefur ekkert breyst á sjö mánuðum frá því að hv. iðnaðarnefnd lagði í heild sinni fram það frumvarp sem ég mæli hér fyrir um fyrir utan fyrirvara, eins og ég sagði áðan, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni.

Hæstv. forseti. Ég held að þverpólitísk sátt sé um að nýta náttúruauðlindir þjóðarinnar skynsamlega. Síðan geta menn náttúrulega haft sínar skoðanir á hvað sé skynsamlegt og hvað sé ekki skynsamlegt í þeim efnum. En eins og sakir standa í núverandi lagaumhverfi þá hafa fyrirtæki sem vilja fara í rannsóknir á vatnsaflsvirkjunum í landinu ekki átt tryggan endurkröfurétt gagnvart þeim rannsóknum sem þau hafa farið í og veitt mikla fjármuni til ef þau fá svo ekki nýtingarleyfi á vatnsaflinu á endanum heldur einhver annar aðili, þannig að rannsóknaraðili geti þá krafið þann aðila sem fær nýtingarleyfið um sanngjarna endurgreiðslu á rannsóknarkostnaði. Það er mjög brýnt að gera þessa breytingu á þann hátt sem ég hef hér að framan rakið.

Hv. þingmenn hafa viljað tengja saman rannsóknarleyfi og nýtingarleyfi í þessari umræðu. Það er ekkert sjálfgefið að ef fyrirtæki er úthlutað rannsóknarleyfi á fyrirhugaðri vatnsaflsvirkjun eða vatnasvæði sem á að nýta til raforkuframleiðslu að rannsóknaraðili fái nýtingarleyfi. Þegar nýtingarleyfi er veitt hefst sjálfstætt matsferli sem er mat á umhverfisáhrifum. Í raun er þröskuldurinn á milli nýtingarleyfisins og rannsóknarleyfisins sá að nýtingarleyfið verður að falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.

Hæstv. forseti. Við fengum á okkar fund, eins og ég greindi frá áðan, m.a. fulltrúa frá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun. (Gripið fram í.) Það var mjög gagnlegt að fá þá aðila á fund nefndarinnar og voru ágæt skoðanaskipti á milli allra nefndarmanna og þeirra aðila sem komu á þennan fund. Ég vil sérstaklega þakka fyrir þá samstöðu sem náðist í nefndinni að lokum um að kalla þessa aðila til fundar. Það er til marks um hvað samstarf í nefndinni er með ágætum þó menn greini náttúrulega á í hinum ýmsu málum er snerta pólitíkina. En fram kom í máli fulltrúa þessara stofnana að þeir gerðu ekki athugasemdir við það frumvarp sem hér liggur fyrir. Þetta er mjög afmarkað frumvarp og snýr eingöngu að rannsóknum á vatnsafli og svo fremi sem það sneri ekki að öðrum rannsóknum, að menn mundu binda þetta við vatnsaflið eins og gert er í þessu frumvarpi, þá gerðu fulltrúar Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við að þetta mál næði fram að ganga. Það kom mjög skýrt fram í starfi nefndarinnar og í þeim svörum sem við fengum frá þessum ágætu aðilum.

Reyndar kom það fram hjá fulltrúa Umhverfisstofnunar að hér væri í raun um framfaraspor að ræða að því leyti til að nú geta fulltrúar umhverfisráðuneytisins og undirstofnana þess komið að málum þegar úthluta á rannsóknarleyfum. Það þarf að gera sérstakar áætlanir í þeim efnum en eins og málum hefur verið háttað fram á þennan dag hafa aðilar, umhverfisráðuneytið og undirstofnanir þess, ekki verið umsagnaraðilar um rannsóknarleyfin og þær áætlanir sem þeim tengjast. Það er náttúrlega mjög jákvætt ef fulltrúar Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar geta fengið að koma beint að þessum málum. Það kom mjög skýrt fram af hálfu þessara aðila að hér væri um framfaraspor að ræða.

Hæstv. forseti. Ég hef reifað þetta mál í örfáum orðum enda hefur það hlotið mikla umræðu við 1. umr. málsins. Það var mikið rætt í hv. iðnaðarnefnd á síðasta þingi. Þá var til umræðu frumvarp til laga um jarðrænar auðlindir sem nefndin ákvað að afgreiða ekki. Þess vegna ákvað nefndin öll þá, fyrir utan fyrirvara hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að leggja fram frumvarpið sem hér liggur fyrir. Því miður hafa hv. þingmenn Samfylkingarinnar og frjálslyndra fallið frá stuðningi við þetta mál og hafa ákveðna fyrirvara á því og vilja gera breytingartillögur sem þeir munu væntanlega kynna hér á eftir. En aðalatriðið er að þetta málefni hefur fengið mikla umræðu bæði þegar rætt var um frumvarp til laga um jarðrænar auðlindir og eins í þeirri umræðu sem við áttum við hagsmunaaðila, hvort sem það voru fulltrúar frá orkufyrirtækjunum eða fulltrúar frá Umhverfisstofnun eða Náttúrufræðistofnun.