132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst lýsa yfir vonbrigðum mínum með að hv. nefndarformaður skuli ekki enn hafa svarað. Í tveimur andsvörum svarar hann ekki fyrirspurn hv. þm. Marðar Árnasonar. Það er því rétt að ég ítreki spurninguna: Hvaða reglur koma til með að gilda? Eftir hverju á ráðherra að fara þegar þessi rannsóknarleyfi koma inn á hennar borð? Hins vegar ætlaði ég fyrst og fremst að spyrja hv. þingmann hvort ekki hafi komið fram beiðni í iðnaðarnefnd um að málið yrði sent til umsagnar umhverfisnefndar. Ég veit sem nefndarmaður í umhverfisnefnd að þangað barst málið ekki og ég vil fá að vita frá hv. þingmanni hverju það sætir. Hin spurning mín er þess eðlis að bráðabirgðaákvæðið, sem er komið aftur inn samkvæmt breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar, gerir ráð fyrir að þverpólitísk nefnd verði að störfum um framtíðarskipulag mála. Ég spyr hv. þingmann: Til hvers á að setja á fót slíka nefnd þegar ljóst er að frumvarpið heimilar ráðherranum að gefa út öll þau leyfi sem henni sýnist áður en sú nefnd kemur til með að ljúka störfum.