132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:35]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hingað til hafa ekki sprottið upp mjög háværar deilur í samfélaginu hvað úthlutunarreglur um háhitasvæðin í landinu varðar. En fyrst hv. þingmaður spyr hvernig velja eigi á milli tveggja aðila sem sækja um rannsóknarleyfi þá hef ég komið inn á það að sérfræðistofnanir fara yfir þau. Það er ljóst og kom fram í starfi nefndarinnar að ef tveir aðilar sækja um leyfi reyna menn náttúrlega að leiða þá aðila saman þannig að eitthvert samstarf verði á milli þeirra við rannsóknir á viðkomandi auðlind. Fram á þennan dag hafa ekki skapast stórkostleg vandamál eða mikill hávaði í samfélaginu vegna þessara leyfa og ég hef trú á því að þessi mál verði áfram í ágætum farvegi eins og þau hafa verið.