132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:37]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri gott að fá það á hreint hvort hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar styðji það bráðabirgðaákvæði sem meiri hlutinn hefur lagt til um að nefnd allra þingflokka fái að koma að þeirri vinnu að móta framtíðarfyrirkomulag á þessu sviði þjóðlífsins, að fá það á hreint hvort stjórnarandstaðan vill koma að þeirri vinnu eða ekki. Það er líka alveg ljóst, miðað við þann tímaramma sem þessari nefnd er gefinn, að engin nýtingarleyfi verða veitt í framhaldi af rannsóknarleyfi á því tímabili. Ég fór yfir það áðan að ekki er hægt að tengja beint saman nýtingarleyfi og rannsóknarleyfi. (Gripið fram í.) Nýtingarleyfi þarf að fara í mat á umhverfisáhrifum, þannig að ef það stenst ekki (Gripið fram í.) það mat — það er alveg skýrt — þá er ekkert þar á milli.

Hæstv. forseti. Það er mjög erfitt að halda ræðu hér þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar halda aðrar (Gripið fram í.) ræður úti í sal og það verður mjög erfitt að eiga orðaskipti við þá ef ég fæ ekki tóm til að gera grein fyrir máli mínu hér.

(Forseti (SP): Þetta er rétt ábending hjá hv. þingmanni.)