132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu mundum við taka því fagnandi að taka sæti í stjórnskipaðri nefnd sem mótaði leikreglur til frambúðar í þessum efnum, enda mundu menn þá ekki aðhafast neitt þangað til þær reglur lægju fyrir. Það liggur ekkert á. Það er alveg sjálfsagt mál að afgreiða bráðabirgðaákvæðið eitt, gera það að lögum ef svo undarlega þarf að standa að því að setja eina nefnd á laggirnar að fá þarf um það lagaheimild. Og það má líka spyrja. Hvers vegna í ósköpunum var þessi nefnd bara ekki sett af stað með ráðherrabréfi strax í fyrra? Hvers vegna er þetta unnið svona? Hvers vegna biður ráðherrann um heimildir til að úthluta öllum rannsóknarleyfum í samhengi núgildandi laga þar sem hægt er að gefa fyrirheit um nýtingu í framhaldinu? Þannig er það og það hefur verið gert í tveimur tilvikum að undanförnu þegar rannsóknarleyfum í háhita hefur verið úthlutað. En síðan segir hæstv. ráðherra jafnframt við þingið: „Ég vil fá heimild til að skipa nefnd sem móti leikreglur til frambúðar.“ Þegar kannski verður búið að úthluta landinu að mestu leyti, þegar menn verða búnir að helga sér þúfurnar, (Forseti hringir.) orkuhöfðingjarnir.