132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:41]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sannarlega styður Vinstri hreyfingin — grænt framboð skynsamlega nýtingu auðlinda. Við styðjum það líka að farið sé í rannsóknir, svo sannarlega. En hvað varðar nýtinguna þá styðjum við ekki nýtingu með óafturkræfum umhverfisspjöllum í þeim anda sem verið hefur með Kárahnjúkavirkjun og aðrar virkjanir. Við gerum líka mun á því á hvaða forsendum verið er að koma af stað virkjunum. En varðandi úthlutun á rannsóknarleyfum þá er það í sjálfu sér úthlutun á verðmætum og því skiptir máli að reglurnar séu ljósar áður en kemur til þess að úthluta þeim leyfum. Úthlutun út af fyrir sig er ávísun á verðmæti. Ég tel að eins og málið er lagt fram núna sé það í anda rammaáætlunar, hún er sett fram en það er ekki unnið eftir henni (Forseti hringir.) og farið aftan að hlutunum.