132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[18:34]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fara aðeins yfir það hvað í rauninni er verið að gera með þessari lagasetningu. Það sem er verið að gera er að við erum að færa okkur frá því þegar Landsvirkjun hafði einkarétt á virkjun hér á landi. Við erum að framfylgja raforkulögunum sem við höfum samþykkt hér á þingi. Við erum að færa okkur úr þessu einkaréttarákvæði sem var og yfir í frelsið. (Gripið fram í.) Það erum við að gera og það ánægjulega við það er að mikil gróska er í orkufyrirtækjunum í landinu. Þeir segja okkur það í nefndinni að verið er að spyrja þá um orku, orkuafhendingu og orkusölu næstu árin inn í framtíðina. Þess vegna er svo mikilvægt að orkufyrirtækin hafi möguleika til að fara út í rannsóknir þannig að þau geti planað sig fram í tímann.

Það er ekki þannig að menn geti pantað einn gám af orku erlendis frá. Það þarf að rannsaka þessi svæði bæði í vatnsaflinu og í gufuvirkjununum. Við verðum að samþykkja þessi lög þannig að þessi bolti geti haldið áfram að rúlla eðlilega og við getum fullnægt markaði og eftirspurn hér á landi og sem verður sem betur fer. Það er okkar höfuðverkefni á þinginu að klára þessi lög þannig að þetta geti verið í eðlilegum farvegi áfram og hann er sá nú samkvæmt raforkulögunum að við erum að gefa þetta frjálst. (Gripið fram í.) Svo á þetta eftir að þróast áfram. Allir markaðir þróast og taka breytingum. Þetta er breytingin sem við erum að stíga núna. Það er alveg ljóst mál. (Gripið fram í: Skotleyfi á náttúruna.)