132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[20:02]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (frh.):

Forseti. Ég var búinn að fara yfir nokkrar inngangsathugasemdir í þeim hluta ræðu minnar sem ég lauk fyrir matarhlé og hyggst nú hefja meginefni ræðunnar.

Það er auðvitað ekki allt slæmt við þetta frumvarp til laga um breytingu á lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og það er sérstaklega 3. gr. í frumvarpinu sem er góð. Hún er um það að ef annar en rannsóknarleyfishafinn fær leyfi til að nýta viðkomandi auðlind þá geti sá sem kostaði rannsóknirnar gert kröfu á nýtingarleyfishafann, eins og það heitir, um að greiða sér aftur kostnaðinn vegna rannsóknanna, eða markaðsvirði þeirra, og fái þá niðurstöðu rannsóknanna til sín enda geti þær nýst þeim sem hefur nýtingarleyfið. Þetta er auðvitað afar mikilvægt og þá má spyrja: Af hverju er það það? Það er vegna eins þáttarins í hinni nýju stöðu í virkjunarmálum og á orkumarkaði og í umhverfismálum sem upp er komin á síðustu missirum.

Þetta er auðvitað í raun og veru alveg sjálfsagt ákvæði en var ekki inni áður vegna þess að þá var það þannig bæði um vatnsafl og jarðvarma að það þótti sjálfsagt og eðlilegt ástand að sá sem fékk rannsóknarleyfið væri að rannsaka eingöngu til þess að nýta það. Hann gerði það þá upp á sína, eins og það hét í gamla daga og heitir enn á viðeigandi stöðum, tæki þá áhættu sem af því hlytist og fengi hana þá launaða ef allt gengi vel. Af hverju voru menn svona tiltölulega afslappaðir gagnvart þessu? Jú, vegna þess að þar var um opinbera aðila að ræða í hvert skipti. Hér ríkti í raun engin samkeppni og ríkir kannski ekki enn þá fyrr en á síðustu mánuðum. Annars vegar var Landsvirkjun með nánast allt vatnsafl sem til greina kom að rannsaka eða nýta og hins vegar voru svo nokkur orkufyrirtæki sem fóru í jarðvarmann. Landsvirkjun ber auðvitað að nefna fyrsta, hún kemur fyrst í hugann vegna Kröfluævintýrisins mikla en auðvitað er Orkuveita Reykjavíkur miklu eldra fyrirtæki í fyrra líki sínu sem Hitaveita Reykjavíkur, sem væri vert að taka til rækilegrar sögulegrar umfjöllunar en verður látið eiga sig að sinni, og síðan Hitaveita Suðurnesja og sjálfsagt er ég að gleyma einhverjum þótt ég sé alveg örugglega kominn með þá stærstu.

Hér var í raun og veru ekki um það að ræða að þyrfti að skipta rannsóknarleyfum eða einhverjum svæðum á milli. Þetta gerði sig sjálft, hver hafði nóg með sitt og það var eðlilegt að þessi tvö fyrirtæki, auk Landsvirkjunar, hefðu hvort sitt afmarkaða svæði og litlir eða engir árekstrar voru á milli þeirra. Nú er hins vegar annað uppi í þessu. Nú er búið að koma á samkeppni eða markaði að evrópskri kröfu — ég hef hrósað mörgu sem þaðan kemur en kannski síður núna — og ég tel að kannski hefðum við átt að fara hægar í það og gera það á annan hátt. Aðstæður í Evrópu eru allt aðrar en hér á landi í þessum efnum. Þar var auðvitað fyrst og fremst verið að miða við að landamæri lokuðu menn ekki af við rannsóknir eða réttara sagt við nýtingu á sölu á orku. Hér eru landamæri þannig að jafnvel Evrópusambandið á erfitt með að opna þau þannig að þær grunnforsendur sem voru að baki þessari breytingu í Evrópusambandinu og þar með Evrópska efnahagssvæðinu voru ekki og eru ekki enn fyrir hendi hér, þ.e. að ekki sé mismunað eftir ríkisfangi, þjóðerni fyrirtækja eða einstaklinga.

Svona er þetta nú komið, við bjuggum þetta til og þá er næsta skref — þó að við hefðum kannski átt að taka bæði í einu — að stjórnmálamenn, fulltrúar almennings, þeir sem fara með almannavaldið virði fyrir sér hvers konar markaður þetta á að vera og hvers konar samkeppni þar á að ríkja. Til þess er sú nefnd sem iðnaðarráðherra kom með í frumvarpinu um jarðrænar auðlindir í fyrra og á sér þessa sérkennilegu sögu sem ég rakti í upphafi, að hún hoppaði þaðan úr stóra frumvarpinu í litla frumvarpið sem flutt var í vor og náði ekki í gegn. Síðan datt nefndin allt í einu út úr litla frumvarpinu þegar það var komið upp í iðnaðarráðuneyti og iðnaðarráðherra sendi það síðan hingað en iðnaðarnefnd setti núna aftur inn þá nefnd sem einmitt á að rannsaka þetta. Ég verð að segja, forseti, að að 3. gr. slepptri, ég er enn að ræða um hana, þá hefði mér fundist kannski að ekkert ætti að standa eftir af þessu stóra frumvarpi iðnaðarráðherra og litla frumvarpi iðnaðarnefndar frá því í fyrra og síðan því sem meiri hluti iðnaðarnefndar flytur núna og hefur tekið við af iðnaðarráðherra aftur, nema þessi nefnd. Við ættum að leggja áherslu á hana og hraða henni vegna þess að hún er einmitt að gera það sem við hefðum þurft að gera strax og þessi markaður varð til, þ.e. að móta um hann reglur, gera grein fyrir honum og koma honum af stað.

Það ástand sem upp hefur komið vegna þess að þetta var ekki gert og hefur ekki verið gert enn þá, er auðvitað það sem gerist þegar markaður fer af stað án þess að honum sé með einhverjum hætti sinnt, hann hefur engar reglur nema hnefaréttinn, engar leikreglur nema frumskógarlögmálin. Það er sorglegt að iðnaðarráðherra og hans menn í ráðuneytinu, þeir hagsmunaaðilar sem hann hefur helst samráð við og ríkisstjórnin öll skuli ekki hafa gert sér grein fyrir þessu. Það er kúnst að búa til markað en þá kúnst verða menn að fara út í, ef þeir segja A í þessum efnum þá verða þeir líka að fara með allt stafrófið og reyna að klára dæmið, ef þeir ætla að vera fulltrúar almannavaldsins og fremja landsins gagn og nauðsynjar. Þetta er einstætt vegna þess að í raun og veru er enginn markaður til fyrir og markaðurinn þess vegna skapaður nánast upp úr engu. Almannavaldið kemur þar við sögu á öllum punktum og þess vegna ber það enn þá meiri ábyrgð í þessu efni en þegar um er að ræða að koma með lagfæringar á einhverjum skekkjum á markaði sem raunverulega er þó til og hefur sín innri lögmál.

3. gr. í frumvarpinu sem hér liggur fyrir er þó viðleitni í þessa átt. En vegna þess að málið er ekki hugsað meira en raun ber vitni þá stangast tilgangur 3. gr., eða forsendur 3. gr., á við það sem er meginmálið í þessu frumvarpi þó að það standi hvergi í því, þ.e. að iðnaðarráðherrann geti gefið vilyrði um nýtingarleyfi til vatnsaflsvirkjunar um leið og ráðherra gefur rannsóknarleyfið.

3. gr. klýfur í raun og veru sundur rannsóknarleyfishafann annars vegar og nýtingarleyfishafann hins vegar. Hún gerir ráð fyrir því að sá sem sækir um rannsóknarleyfi klári rannsóknir sínar og hætti síðan á þeim punkti vegna þess að honum þyki rannsóknirnar þannig að framkvæmdin muni ekki vera arðbær, vegna þess að hann vilji ekki fara í gegnum þau átök sem e.t.v. þarf til til að koma virkjununum af stað. Það gæti t.d. verið vegna umhverfismála, að honum lítist ekki á að fara þannig gegn þeim sem huga að umhverfismálum að hann þurfi að efna til stórstyrjaldar til að hafa sitt í gegn eða ósköp einfaldlega, sem er þegar staðreynd og verður vonandi enn frekar í framtíðinni, að framkvæmdamenn hafa ákveðnar umhverfisforsendur sjálfir samkvæmt þeirri umhverfisstefnu sem þeir hafa mótað og þeirri samvisku sem þeir telja að t.d. fyrirtæki á virkjanasviði hljóti að tileinka sér í þeim efnum. Ég verð að segja að þó að margt skorti á í þessum efnum hjá fyrirtækjum hér þá eru líka dæmi um annað. Kannski má nefna tvö af þeim þremur fyrirtækjum sem ég nefndi áðan til vitnis um það þótt ég vilji ekki oflofa þau í þessu efni. Það eru annars vegar Orkuveita Reykjavíkur og hins vegar Hitaveita Suðurnesja sem eiga sér jákvæðan feril í þessu hin síðustu ár hvað sem um almennar framkvæmdir þeirra sérstaklega fyrr á tímum má segja þegar þessi hugsun var ekki jafnáberandi.

Það sem Drottinn gefur hins vegar með annarri hendinni tekur hann með hinni í þessu frumvarpi því um leið og 3. gr. er sanngjörn og rétt og framfaraskref í þessum efnum þá er ráðherranum veitt sama heimild í vatnsaflinu og hann þegar hafði í jarðvarmanum, sem sé að veita þeim sem annast rannsóknirnar vilyrði fyrir nýtingu. Þannig gæti komið upp, sem er þvert á 3. gr., að rannsóknarleyfishafinn geti sjálfur tekið sér þennan nýtingarrétt án þess að skilið sé þar á milli. Ég held hins vegar að mikilvægt sé að skilja þarna á milli. Það sé klárt að sá sem rannsakar hafi ekki sjálfkrafa þennan nýtingarrétt. Ein af ástæðunum fyrir því að svo þarf að vera er auðvitað að á okkar tímum verður það ekki lengi liðið, að ég hygg, að ekki sé greitt fyrir afnot af þeim auðlindum sem hér er um að ræða.

Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því, forseti, að þessar auðlindir, hvort sem við erum að tala um jarðvarmann eða vatnsaflið, eru endanlegar á Íslandi. Við búum ekki á sléttum Afríku eða í hinni miklu og stóru Ameríku þar sem mönnum fundust auðlindirnar einu sinni óþrjótandi, sem þær eru auðvitað ekki, heldur búum við í landi sem er tiltölulega lítið. Okkur finnst það stórt og mikið af því að við virðum og metum það mikils og okkur finnst það líka vegna þess að við erum tiltölulega mjög fá sem um það hugsum. Þess vegna finnst okkur þetta ævintýri á hálendinu og jafnvel í óbyggðum, héraðsbundnum óbyggðum má segja, svo stórfenglegt að við höldum að þetta sé endalaust en er það auðvitað ekki. Þegar við lítum yfir þær auðlindir sem við raunar höfum miklar skýrslur um sjáum við að þær eru endanlegar. Ég kann ekki að fara með tölur um það, en ljóst er að með núverandi hraða í virkjunarmálum — ef maður tekur t.d. Kárahnjúkavirkjun eða Hellisheiðarvirkjun, svo við tökum tvær ólíkar virkjanir saman — mætti nánast klára það sem er tæknilega unnt að virkja með lágmarkstilliti til náttúrufars og umhverfisþátta á um 2–3 áratugum ef menn hefðu nægilegt fjármagn og væru nógu kaldrifjaðir til þess, þá mætti gera þetta svona.

Það er ákaflega alvarlegt í því ljósi að í frumvarpinu, sem gerir ráð fyrir að iðnaðarráðherra geti veitt þetta vilyrði þeim sem rannsaka til að nýta, skuli ekki vera um það neinar frekari reglur. Ég held að í gömlu lögunum sem enn gilda, þó gömul séu, hafi þetta á sínum tíma verið eðlilegt. Þau eru auðvitað hugsuð fyrst og fremst fyrir það sem menn tala um í titlinum, um auðlindir í jörðu, og höfðu þá ekki hugmyndaflug til að ímynda sér að það gæti átt líka við vatn sem rennur ofan á jörðinni, menn hafi verið að hugsa fyrst og fremst um jarðvarma. Á þeim tíma sem þetta er undirbúið og samið var allt annað ástand og út af fyrir sig eðlilegra að rannsóknarleyfi fylgi nýtingarvilyrði um jarðvarma en um hitt, en einkum kann um það að hafa ráðið að ekki var fyrir hendi nein samkeppni á þessum stöðum.

Ljóst er að ef þetta verður þannig að ráðherra beitir rétti sínum til vilyrðis og hún verður undir miklum þrýstingi til að beita honum á næstunni þá mismunar það mjög milli fyrirtækjanna. Ljóst er að það verða einkum hin eldri fyrirtæki eða þau sem nú eru stór og sterk sem þrýsta á um að taka að sér þessar rannsóknir og þar með þá umrætt vilyrði til nýtingar vegna þess hreinlega að verulegt fé þarf og verulegan fjármagnslegan styrk til að fara út í rannsóknir sem menn vita ekki hverju skila. Ný fyrirtæki gera það miklu síður en hin eldri nema þau hafi þá náð sér í þann styrk með einhverjum hætti. Það er líka ólíklegt að að þessu frumvarpi samþykktu komi upp sú staða sem æskileg væri að sum fyrirtæki yrðu kannski fyrst og fremst rannsóknarfyrirtæki. Það má vel ímynda sér að svo verði. Mönnum kann að finnast það vera nokkuð útópísk hugmynd. Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi þetta í ræðu sinni og vísaði til aðstæðna erlendis. En það hefur ýmislegt gerst fráleitara á síðustu árum í atvinnulífinu en það að eitthvert af þeim fyrirtækjum sem eru í orkuvinnslu eða í kringum orkukerfið gerist sjálfstætt rannsóknarfyrirtæki. Í raun og veru er með t.d. ÍSOR kominn upp vísir að því í opinbera geiranum og getur vel verið að það verði líka í hinum. Til þess þarf auðvitað mikið fjármagn en það er fyrir hendi á landinu og auðveld samskipti við erlenda banka sem betur fer eftir aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu og opnun landsins með ýmsum hætti.

Það væri að ég hygg ákaflega æskileg þróun að fyrirtæki sérhæfðu sig í slíkum rannsóknum og það væri líka sjálfsagt að hið opinbera hjálpaði þeim til þess og fengi þau til að rannsaka sem allra flest svæði þannig að ekki væri eingöngu um að ræða rannsóknir til að selja síðan nýtingarfyrirtækinu. Það væri ákaflega heppilegt. En það er ljóst að ef rannsóknarleyfishafinn er bundinn við nýtinguna með vilyrðum frá ráðherranum, sá stendur sem sagt betur gegn ráðherranum sem vill þetta vilyrði og vill nýta heldur en sá sem einungis vill rannsaka, ekki er lokað fyrir þann möguleika en hann yrði þá í raun ekki raunhæfur í framtíðinni.

Ég var áðan að tala um nýja tíma í þessum efnum og þeim nýju tímum fylgir klárlega sú krafa sem ég minntist á áðan að menn borgi að lokum fyrir afnot af auðlindinni. Við höfum rætt þetta nokkuð lengi, sérstaklega um sjávarútveg og með litlum árangri kannski en þó þeim að sett var niður ágæt nefnd, auðlindanefndin sem menn höfðu kannski ekki mikla trú á í byrjun en rættist ákaflega vel úr. Hún skrifaði í rauninni grundvallarskýrslu um þetta efni sem við erum enn að vinna úr. Auðlindanefndin gerði ráð fyrir að þannig yrði í framtíðinni að orkuvinnslufyrirtæki borguðu fyrir afnot af auðlindinni vegna þess að auðlindanefndin ímyndaði sér að ákveðnar auðlindir væru sameign landsmanna. Maður spyr sig auðvitað að því vegna þess að ekki er gert ráð fyrir neinu slíku í frumvarpinu og í umræðunni í kringum það, hvort hæstv. ráðherra geri ráð fyrir að það verði ekki. En ef það á að verða þarf að skilja að vissu leyti á milli rannsóknarleyfisins og nýtingarleyfisins, a.m.k. ef fara ætti þá leið sem auðlindanefndin benti á að væri best í þessu að loknum ákveðnum rannsóknum og að því loknu að menn þættust vissir um að framkvæmdin gæti tekist bæði frá hagkvæmnissjónarmiðum og einnig frá umhverfissjónarmiðum og almennum pólitískum sjónarmiðum, að nýtingarrétturinn yrði boðinn upp. Þá fengist fyrir hann það verð sem glúrnir menn sköpuðu eða markaðurinn byði upp á svo maður noti algengt orðalag.

Ljóst er að með því að vilyrði sé tengt rannsóknunum þá væri iðnaðarráðherrann búinn að koma í veg fyrir að markaður myndist um þá auðlind sem í boði er, þann auðlindaafnotarétt sem í boði er og yrði þá annaðhvort sjálf að búa til verð á slíka nýtingu eða þá það sem hæstv. iðnaðarráðherra er væntanlega að hugsa með þessu, að það verði ekkert verð á henni, menn kaupi einfaldlega auðlindina sem eign af einhverjum sem áttu hana fyrir og það passar vissulega ágætlega við frumvarp sem sami hæstv. ráðherra flutti um daginn og flutti reyndar líka í fyrra, þ.e. frumvarpið um ný vatnalög. Þar er einmitt gert ráð fyrir að það sé klár venjulegur eignarréttur af sama tagi og þegar maður á bíl eða hamar, þannig geti maður líka átt t.d. vatnsfall eða foss. Því miður komst sá eignarréttur á árið 1998 um hinar svokölluðu auðlindir í jörðu, sem sennilega verður í framtíðinni talið með verri lagaslysum á Íslandi vegna þess að það er ákaflega erfitt og dýrt að koma því til rétts vegar aftur og skapa þann þjóðarrétt sem sjálfsagður hefði verið. Rétturinn nær, ef lögin yrðu tekin bókstaflega, inn að miðju jarðar, réttur landeiganda og þeirri ágætu spurningu Sighvats Björgvinssonar hefur aldrei verið svarað sem hann orðaði á þá leið að úr því að landeigandi á rétt á öllum auðlindum inn að miðju jarðar verður hann þá ekki að bæta líka fyrir þann skaða sem hlýst af þeim auðlindum? Hvað ef upp kemur eldgos í garði hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur? Ber þá ekki henni sem landeiganda að bæta okkur öllum hinum það upp sem upp úr hennar garði skreið?

Það er mörg flækjan í þessu en auðvitað ætti það að vera þannig að eignarréttur sé með öðrum hætti, bæði með jarðvarmann og aðrar auðlindir í jörðu og einnig og allra helst með vatnsaflið, við erum aðallega að tala um það hér. Breytingarnar eru á því sviði, að þar ríki sem sé þjóðareign.

Þá er rétt að fara aðeins yfir það að eignarréttur getur verið margs konar. Við þekkjum aðallega eignarrétt sem einkaeignarrétt eins og ég nefndi áðan, það sé þegar maður á bíl, hamar, hús eða bók og sá eignarréttur er að sjálfsögðu varinn í stjórnarskrá. Það er ein af undirstöðunum í réttarríki okkar og samfélagsgerð að sá einkaeignarréttur sé til og hann sé varinn. Hann strandar á ákveðnum sviðum en hann er vissulega ein af undirstöðunum í þjóðfélagskerfi okkar.

Síðan er til annars konar réttur. Það er opinber einkaeignarréttur. Ríkið getur líka átt bíl, hamar og bók en síðan er til í lögum okkar, sem menn hafa verið seinir að viðurkenna, þjóðareign sem er af öðru tagi en þessi réttur. Skýrustu dæmin um þjóðareign eru Þingvellir við Öxará sem eru skilgreindir þannig í lögum að þeir séu þjóðareign sem aldrei má láta af hendi og aldrei selja og þjóðin á öll saman. Sú eign er eðlisólík því að ríkið eigi bíl eða hamar.

Það má líka reyndar fara lengra. Þótt ekki sé um eignarrétt að ræða af sama tagi og það sem ég hef þegar nefnt þá er auðvitað ákveðinn sameiginlegur eignarréttur eða kannski umsýsluskylda öllu heldur á t.d. stofni í hafi sem tilheyrir mörgum þjóðum. Einn aðili, einn eigandinn getur ekki farið með þann stofn eins og honum líkar og svo má fram halda. Það er auðvitað mikill galli að við skulum ekki hafa borið gæfu til þess á undanförnum árum, t.d. 10–15 árum, að hafa mótað þetta hugtak betur og komið í þjóðareign, skýrt þjóðareignina á því nákvæmlega sem við viljum hafa í þjóðareign.

Ég man ekki betur en jafnvel stjórnarflokkarnir hafi notað þetta hugtak og þá varla í skilningnum einkaeignarréttur ríkisins þegar þeir ákváðu í stjórnarsáttmála sínum að gera auðlindir sjávar að þjóðareign í stjórnarskrá. Ég veit ekki betur en það standi í því plaggi og að sá sáttmáli gildi enn. Við bíðum þess að hin ágæta nefnd undir forsæti Jóns Kristjánssonar framkvæmi þessa stefnu ríkisstjórnarinnar þannig að það er ekki eins og menn hafi neitað þessu einu sinni þar. Það væri allt öðruvísi ef við værum með það alveg skýrt um auðlindir, annars vegar auðlindir í jörðu og hins vegar vatnsaflið, að yfir þær næði þjóðareign sem fylgdi því að gera vel við þá menn sem nærri búa og veita nýtingarrétt á ákveðnum forsendum.

Það hefur fleira gerst en það að til sé orðinn samkeppnismarkaður, að vísu ákaflega furðulegur en samkeppnismarkaður þó að lögum á orkusviði. Það hefur fleira breyst í samfélaginu en það og eitt af því er auðvitað að á síðustu þremur, fjórum áratugum hefur orðið gríðarleg vakning í umhverfismálum. Menn hafa vaknað fyrir því að auðlindir okkar séu ekki óþrjótandi, menn hafa áttað sig á því að við berum, sem nú lifum, sú kynslóð sem nú byggir Ísland og heiminn allan, mikla ábyrgð sögulega gagnvart forfeðrum okkar, þeim arfi sem við höfum tekið við af þeim, og síðan gagnvart þeim sem á eftir koma.

Það má nefna að á Íslandi háttar svo til að við vitum hvenær maðurinn settist þar að. Það mun hafa verið eða við skulum nota hið forna ártal 874. Menn hafa nú deilt um það í sögunni hvort það var síðar eða kannski öllu heldur nokkru fyrr og hafa sumir teygt sig reyndar allt fram á áttundu öldina í því, en ætli almenn skoðun sé ekki sú að það hafi verið um 860–880 í stórum dráttum sem maðurinn settist hér að. Ef við reiknum með að 30 ár séu í hverri kynslóð, sem er grófur reikningur, þá munum við vera 31. eða 32. kynslóðin sem lifir hér í landinu og erum sá hlekkur í þeirri keðju sem hefur umgengist Ísland, sem hefur borið ábyrgð á Íslandi, nýtt auðlindir þess og skilað því síðan í hendur þeirra sem á eftir komu. Það er sennilega þannig, það er ekki sennilegt heldur alveg víst að við getum haft meiri áhrif á þetta land, hafið í kringum það, loftið yfir því og alla þess náttúru en nokkur önnur kynslóð sem hér hefur lifað. Í öðru lagi höfum við þegar beitt þessum áhrifum og jafnvel bara þeir sem nú lifa, við höfum breytt landinu, skilið eftir eins og tíska er að segja núna fleiri og dýpri fótspor í náttúru landsins en nokkur önnur kynslóð sem á undan hefur komið.

Nú eru þær kynslóðir að vísu ekki alveg saklausar og sérstaklega hugsum við nú frekar nöturlega til þeirra kynslóða sem eyddu hér skógum og bjuggu til sandeyðimerkur úr því sem við höldum að hafi verið gróðurflatir áður, einkum með beit, stjórnlítilli beit. Þær hafa þó það sér til afsökunar að þær vissu ekki hvað þær voru að gera og við verðum því að hlýða einum af leiðtogum okkar og fyrirgefa þeim vegna þess að þær vissu það hreinlega ekki, þær bjuggust við að skógarnir yxu á ný, höfðu ekki áhyggjur af því að þeir eyddust, vissu ekki að skóglendið var óafturkræft. Þeir höfðu heldur ekki í höndunum þá kunnáttu sem þurfti til að vita að eyðing gróðurs með beit varð ekki afturkölluð með einhverjum öðrum ráðum og kom ekki af sjálfu sér. Guð almáttugur var ekki í því sambandi við þjóðina að hann hlýddi óskum hennar samstundis um að láta það gróa aftur sem einu sinni hafði verið eytt. Þeir þekktu ekki hugtakið „óafturkræfni“, sem er að vísu ekki mjög fallegt, í umgengni sinni við náttúruna. Skilningur á þessu hefur auðvitað aukist feikilega á undanförnum árum í takt við það að þegar samfélag okkar vex, þéttbýli verður meira og not okkar af landinu stóraukast, þá verður hverjum það fyrir að hugsa um sjálfan sig og gera ákveðnar kröfur til þess hvaða rétt hann hafi til nytja af landinu. Nytjar þéttbýlisbúa í nútíma eru aðrar en dreifbýlisbúa fyrir t.d. 100 árum og við þyrftum kannski að fara enn aftar til að fá raunverulegan samanburð, þ.e. umgengni við náttúruna og upplifun í náttúrunni. Samlífið við náttúruna er orðin eitt af helstu lífsgæðum nútímamannsins, sífellt mikilvægara, sífellt fleiri sem nefna þau lífsgæði og þegar menn eru spurðir hvaða kröfur þeir geri helstar til lífsins svara menn með því. Þetta er auðvitað ein af grundvallarbreytingunum í þessum málum öllum.

Eitt af því sem hér verður líka að nefna, og ég tengi það því sem ég sagði áðan um að auðlindirnar væru ekki endanlegar, er að við höfum nú tæki til þess og kunnáttu að gera mjög rækilegar skýrslur og safna mjög rækilega gögnum um alla okkar náttúru, um Ísland, land, haf og loft, og við höfum þegar farið af stað með eina slíka rannsókn og köllum hana Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það var ákveðið hér á þessum stað, hygg ég, árið 1997 að hefja störf við þessa áætlun. Vinna við hana hófst árið 1999 og var henni áfangaskipt, a.m.k. var frumvinnan kölluð fyrsti áfangi og henni lauk í nóvember 2003. Þetta var mikil vinna og vel af hendi leyst og kostaði, ef ég man rétt, upp undir hálfan milljarð sem mörgum fannst feikilegt verð en ég hygg að því fé hafi verið einkar vel varið að fá þær niðurstöður, þau gögn og þá flokkun sem raun bar vitni. Vinnan við annan áfanga rammaáætlunarinnar hófst hins vegar rétt nýlega. Ekki hafa verið fluttar margar fréttir af því og einkum hefur hæstv. iðnaðarráðherra verið treg að segja okkur frá því hvernig sú vinna gengur en þær litlu fréttir sem ég hef hljóða þannig að við þá vinnu séu allmiklu færri verkamenn og óljóst hverju hún á að skila. Það er þó verra í því efni að þó að búið sé að verja til þessa verkefnis rúmum hálfum milljarði þá hefur aldrei legið fyrir hjá hæstv. iðnaðar- og umhverfisráðherrum til hvers eigi að nota þessa áætlun, hvað hún eigi í raun og veru að gera. Þegar þeir hafa verið spurðir sem hafa gegnt þessum háu störfum í þágu lands og þjóðar undanfarin ár hverju verk þetta eigi að skila hafa þeir svarað sem svo, m.a. sá hæstv. iðnaðarráðherra sem hér situr mér á vinstri hönd, að þetta séu ágætar upplýsingar að hafa, orkufyrirtæki geti skoðað þetta og að gott sé að fletta þessu aðeins í ráðuneytinu þegar verið er að leggja á ráðin um rannsóknir og nýtingu orkulinda.

Það þarf þó ekki langt að fara til að sjá að hægt er að hafa þetta öðruvísi. Einn af hvötunum að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma var skipan mála í grannlandi okkar Noregi en Norðmenn hafa verið á undan okkur á þessu sviði með góðu eða illu. Þeir fóru fyrr út í stórkostlegar vatnsaflsvirkjanir en þeir búa auðvitað ekki að jarðvarma eins og við þó að þeir hafi að vísu verið svo heppnir fyrir nokkrum áratugum að finna olíu í hafi. Því hófust t.d. deilur þar út af virkjunarmálum mun fyrr en hjá okkur og hafa sennilega orðið harðvítugri, e.t.v. með undantekningunni sem við sáum í Kárahnjúkum hér um árið og þó hygg ég að deilurnar í Noregi hafi orðið enn þá illskeyttari en hér urðu um Kárahnjúkavirkjun og þætti nú mörgum nóg um. En þeir hafa lært af erfiðleikum sínum og hafa nú komið upp sinni eigin rammaáætlun á undan okkar sem heitir ekki um vatnsafl og jarðvarma, vegna þess að þar er enginn jarðvarmi sem menn vita um, heldur rammaáætlun fyrir vatnasvið, á norsku „Samlet plan for vassdrag“. Norska Stórþingið samþykkti þessa áætlun í þremur áföngum árið 1986. Það er ótrúlegt að hugsa sér að það séu 20 ár á næsta ári síðan Norðmenn gerðu þetta. Þeir bættu síðan við hana 1988 og gengu svo frá þriðja áfanga 1993 og hún hefur verið í þróun allan þennan tíma. Samhliða þessari rammaáætlun fyrir vatnasvið er þar í gildi verndaráætlun fyrir vatnasvið sem heitir á því máli „Verneplan for vassdrag“. Ég biðst afsökunar á því að tónkvæðið hjá mér ekki alveg í þjálfun en úr því gæti kannski hæstv. iðnaðarráðherra bætt ef hún tæki sig til því að hún hefur betri tengsl við Noreg en ég hef.

Þessi verndaráætlun fyrir vatnasvið var fyrst samþykkt 1973 og má minnast þess með nokkurri blygðan að við höfum ekki enn þá samþykkt neitt af því tagi nema fyrir einstök vatnsföll og eru þó okkar vatnsföll ekki ómerkari en Norðmanna og heldur merkari ef eitthvað er því að þau eru auðvitað miklu fjölbreyttari en norsku árnar þótt stórfenglegar séu. Verndaráætlun fyrir vatnasvið var síðast endurnýjuð á vorþinginu 2005, þ.e. þeir endurnýjuðu þessa áætlun sína síðastliðið vor.

Verndaráætlun fyrir vatnasvið í Noregi tekur til að ég held 341 vatnasvæðis í landinu. Noregur er stórt land og langt og mörg vatnasvæði þar. Þetta skiptist þannig að verndaráætlunin tekur til allra þeirra vatnasvæða eða hluta þeirra sem eru vernduð, þ.e. þar verður ekki unnin orka og þar verða ekki framdar neinar þær stórathafnir sem eyðileggja vatnasvæðin eða spilla þeim. Í rammaáætluninni er fjallað um öll önnur vatnsföll og hún er eðli málsins samkvæmt miðuð við orkuframleiðslu. Norðmenn hafa því í raun og veru tekið öll sín vötn, þannig að það orð sé nú notað í fornri merkingu, og skipt þeim í þrennt. Einn hlutann hafa þeir sett í verndaráætlunina, þann hluta eru þeir harðir á að ætla að vernda og hafa fært fyrir því rök og það verður að ég held ekki aftur tekið nema þannig að mikið gangi á. Auðvitað eru allar mannasetningar afturkræfar, a.m.k. þær sem í lög eru settar. Síðan eru öll önnur vötn í rammaáætluninni sem skiptist í tvennt, a.m.k. samkvæmt síðustu áætlun. Þetta hefur sem sé breyst með þróun þessa merkilega lagabálks í Noregi. Annars vegar eru þær ár eða þau vatnsföll sem geta án frekari umfjöllunar farið í leyfisveitingarferil, þ.e. í mat á umhverfisáhrifum og rannsóknir auðvitað og síðan í nýtingu og á ekki að vera nein fyrirstaða fyrir því. Hún getur auðvitað komið upp í umhverfismatinu eins og við þekkjum, til þess er umhverfismatið að finna eða eyða vafa um slíkar hindranir í vegi nýtingar. Hins vegar er flokkur vatnsfalla í rammaáætluninni sem Norðmenn hafa ákveðið að bíða með að svo stöddu, m.a. vegna þess að þeir hafa ekki nægar rannsóknir til að ákveða hvort vatnsföllin eigi heldur að fara í vatnsverndaráætlunina eða nýtingaráætlunina. Það má því segja, þó að það sé nöturleg samlíking, að það sé eins konar biðsalur vatna í Noregi sem felst í þessari B-deild í rammaáætlun Norðmanna.

Rammaáætlun Norðmanna er gerð með nokkuð annarri aðferð en íslenska áætlunin en hún var þó ein helsta fyrirmynd þeirra sem tóku ákvörðun um tilhögun rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hjá okkur. Þeir lærðu af reynslunni og ákváðu að fara ekki nákvæmlega sömu leið og Norðmenn en byggðu áætlunina upp á mjög svipaðan hátt og þeir. Það er ekki bara að þetta sé fagurt sögulegt dæmi hjá Norðmönnum heldur skiptir það okkur því verulega mikla meira máli að rammaáætlun Norðmanna um vatnasvið og verndaráætlun um vatnasvið eru samþykktar af Stórþinginu. Það er Stórþingið sem tekur ákvörðun um þetta og það getur enginn annar breytt því en Stórþingið. Þar með er það Stórþingið sem hefur gefið þessum tveimur áætlunum lagagildi og ákveður hvernig með það skuli fara þannig að iðnaðarráðherrann í Noregi getur ekki, eins og hæstv. iðnaðarráðherra hér, sagt að þetta séu pappírar sem sé ágætt að fletta og gott fyrir orkufyrirtækin að stúdera áður en þau fara í næsta áfanga heldur eru þetta áætlanir sem hafa klárt lagagildi og verða lagðar fram sem stórþingstilkynningar og samþykktir, ég kann ekki alveg ganginn í norska Stórþinginu en þetta eru samþykktir sem hafa lagagildi.

Um norsku áætlunina er í rauninni lítið til á íslensku og ekki auðvelt að nálgast upplýsingar um hana. Í formála að niðurstöðum 1. áfanga rammaáætlunarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma frá málinu 2003 er nokkuð fjallað um rammaáætlunina. Annað vissi ég ekki að væri til fyrr en mér tókst að grafa upp skjal sem er sennilega eini íslenski pappírinn um þetta, og mig minnir að ég hafi fundið samkvæmt ábendingu úr þessari skýrslu, ritinu sem niðurstöður rammaáætlunar okkar voru kynntar í, en þetta er skýrsla Þorkels Helgasonar, Sveinbjörns Björnssonar og Árna Bragasonar frá desember 1998 sem heitir Frásögn af kynnisferð til Óslóar 23.–26. nóvember 1998, Rammaáætlun Norðmanna um vatnasvið. Þetta er 1998 þannig að þar er ekkert um það sem gerst hefur síðan og skýrslan er auðvitað ekki um vatnsverndaráætlunina, verndaráætlun fyrir vatnasvið. En af þessari skýrslu má hafa nokkurt gagn og ég bendi þingheimi hér með á að hún er til. Ég fékk hana frá Árna Bragasyni sem þá var, að ég held, forstjóri Náttúruverndar ríkisins en er nú skrifstofustjóri, hygg ég, í umhverfisráðuneytinu. Þeir Þorkell og Sveinbjörn hafa hana sjálfsagt líka, mætir menn hvor á sínum stað.

Það sem við þurfum auðvitað að gera og á að vera þáttur í því að mæta nýjum tíma í orkumálum, umhverfismálum og í virkjunarmálum, er í fyrsta lagi að búa til almennilega rammaáætlun, að klára þennan 2. áfanga og koma í það lag sem sæmilegt er. Síðan ákveðum við hvaða gildi það hefur, því ég skil ekki þá fyrirhyggju að láta búa til slíka áætlun upp á hálfan milljarð eða meira og skilja hana síðan eftir í lausu lofti. Ég hygg að það hafi ekki verið tilgangur þeirra sem upphaflega lögðu á ráðin um þetta verk. Það mun hafa verið Finnur Ingólfsson sem átti hlut að því máli þegar hann var iðnaðarráðherra og var þá auðvitað að reyna með sínum hætti að móta þá framtíð sem þá væri sjáanleg og hann sagði um stefnu og verklag við áætlunarstarfið, í skýrslu sem hét Maður – nýting – náttúra og kom út í mars 1999, að með rammaáætluninni eigi að, með leyfi forseta — „að leggja grundvöll að forgangsröðun virkjunarkosta …“ Þetta má auðvitað túlka út og suður en mér finnst sú túlkun sem er sanngjörnust vera sú að Finnur Ingólfsson, þáverandi iðnaðarráðherra, framsóknarmaður ef einhver skyldi hafa gleymt því, hafi ætlað sér að skapa þannig grundvöll að hann væri raunverulegur, hefði einhvers konar lagagildi eða væri þannig að það væri hægt að taka mark á honum þótt hann væri auðvitað ekki óbreytanlegur — það verður auðvitað að meta hvern kost þegar hann kemur upp — en væri sem sagt til þeirrar leiðbeiningar að menn tækju á því fullt mark.

Ég skil þau orð Finns að rammaáætlun eigi að vera um grundvöll að forgangsröðun virkjunarkosta og stefnumörkun á grunni slíkrar áætlunar eigi þannig að geta skilað af sér skýrum leikreglum við nýtingu vatnsfalla og vatnasvæða og að hún eigi, eins og í Noregi, að geta komið vatnasvæðum og vatnsföllum tryggilega fyrir í vatnsverndaráætlun á vatnsverndarlista með þeim hætti að það verði treglega aftur tekið.

Forseti. Í þessum fyrri hluta ræðu minnar hef ég aðeins rakið ákveðin þáttaskil sem hafa orðið í umhverfis-, orku- og virkjunarmálum og ég hef talað nokkuð um slíkar áætlanir í Noregi. Ég er með umrædda skýrslu í ljósriti og væri kannski rétt að í lok ræðu minnar læsi ég nokkra kafla úr henni þótt ekki væri til annars en koma henni á prent og á netið þar sem hún er ekki nú þegar. En ég ætla þó áður en ég vinn það þarfa verk að minnast á eitt af því sem enn veldur tímamótum nú í þessum mánuði vil ég nánast segja í þessum efnum og það er djúpborunarverkefnið mikla sem nú er verið að vinna á Íslandi. Flestir munu kannast við það, væntanlega þar á meðal hæstv. iðnaðarráðherra sem í haust kom til liðs við það verkefni á mjög virðingarverðan og glæsilegan hátt þegar þar vantaði, ég kann ekki þá sögu nákvæmlega í krónum eða milljónum króna, en þar vantaði fé fyrir ákveðinn áfanga og þá gekk iðnaðarráðherra í það mál og ég hygg, án þess að hafa síðuna á hreinu, að þar sjáist stað í þeim fjárlögum sem við vorum að samþykkja hér í dag og ég vil nota tækifærið og þakka iðnaðarráðherra fyrir þetta því ég tel það raunverulegt þarfaverk og þó að ég sjái einhvern glotta hér í salnum þá er þetta ekki sagt í neins konar gríni. Ég tel að þetta sé gott verk hjá iðnaðarráðherra.

Vísindamenn standa því auðvitað á þröskuldi mjög merkilegs áfanga við nýtingu jarðvarmans sjálfs og ef sá árangur næst sem líklegt er í þessu verkefni þá gæti staðan í framtíðinni orðið þannig að jarðvarmavirkjanir verði miklu vænlegri kostur til orkuframleiðslu á Íslandi en vatnsaflsvirkjanir. Það rannsóknarverkefni sem ég tala hér um heitir Djúpborun á Íslandi, enska skammstöfunin er IDDP, og því er ætlað að skera úr um hvort tæknilega sé unnt að nýta jarðvarma sem liggur djúpt í jörðu. Til þess ætla menn að bora 4–5 km eftir vatni sem liggur í rótum háhitasvæða þar sem heitast er og er 400–600° heitt, sem við eigum kannski erfitt með að ímynda okkur sem þekkjum aðallega heitt vatn úr krananum á baðinu, þar er vatnið sem sé í raun og veru ekki í lagarlíki heldur í svokölluðu yfirmarksástandi, ég er kannski ekki besti maður að lýsa því, það líkist einna helst samþjappaðri gufu, ef ég á að reyna að nota einhver hugtök sem venjulegt fólk getur skilið. Ef þetta tekst eða tekst að bora eftir þessu vatni og það verður að gera það sérstaklega, það má ekki blandast við vatnið sem ofar er í jarðlögunum þ.e. sem utar er á háhitasvæðinu, ekki í kjarna háhitasvæðisins, þá telja menn að hægt sé að vinna þrisvar til fimm sinnum meiri orku úr háhitasvæðinu en menn hafa talið hingað til að sé hægt. Borhola af þessu tagi gæti fræðilega gefið af sér tífalt afl venjulegrar borholu en ylli samt ekki meira raski, sem þýðir að með færri borholum mætti ná miklu meiri orku úr háhitasvæðunum. Hér er því annars vegar um að ræða að þessi jarðvarmi gæti ógnað, ef við notuð bardaga- og samkeppnismál, vatnsaflsvirkjununum og hins vegar það að þessi tækni yrði vonandi umhverfisvænni en sú tækni sem nú er notuð við að ná í jarðvarma.

Það má einnig nefna, og þar er um hefðbundna vinnslu að ræða, að Hellisheiðarvirkjunin þegar hún er öll komin í gang mun skila jafnmikilli orku og öll Kárahnjúkavirkjun. Ég hef heyrt ýmsa t.d. útivistarmenn hafa horn í síðu Hellisheiðarvirkjunar og talið að þar sé Orkuveita Reykjavíkur að fara of mikinn. Hún sé að leggja þetta land allt undir sig og eyðileggja það meira og minna. Þar sé ekki lengur um óspillta og ósnortna náttúru að ræða. Ég get í sjálfu sér tekið undir þetta. Ég hef sjálfur verið svolítið á Hellisheiðinni, aðallega að vetri til á skíðum og veit að Hellisheiði og nágrenni hennar er dýrlegur staður, svo dýrlegur að þegar ég fer þar um á sumrum og horfi á svæðið sem Kjarval og fleiri máluðu grænt, rautt og gult, þá finnst mér það eiginlega vera hálfgerð spilling að hafa þetta svæði án snjávar og tel að þarna eigi alltaf að vera snjór til að við getum notið þess sem best.

Ég get alveg skilið þessa menn en með Hellisheiðina ber í fyrsta lagi að líta á að þar eru engin þau spjöll sem komast neitt nálægt því að minna á venjulega virkjun ár, hvað þá Kárahnjúkavirkjun og síðan auðvitað það að þar hefur virkjandinn lagt mikla rækt við svæðið, þar hafa verið lagðir miklir göngustígar og komið upp ýmissi aðstöðu fyrir ferðamenn. Og þó að auðvitað sé þar ekki lengur um að ræða ósnortna náttúru þá er hún engu að síður manngerð náttúra og hefur þar ýmsa kosti í nágrenni Reykjavíkur og þéttbýlisins alls, umfram þá miklu eyðileggingu á hinu stóra ósnortna svæði sem Kárahnjúkavirkjun er. Mín meining með þessu dæmi var að sýna að úr því að með Hellisheiðarvirkjun, sem er svona tiltölulega saklaus held ég að flestra dómi og vil ég þó enn minna á dóm útivistarmanna, getum við fengið sömu orku og með Kárahnjúkavirkjun, þá getur því svo farið að í framtíðinni líti menn agndofa á Kárahnjúkavirkjun, hristi hausinn og segi: Hvernig stóð á því að menn réðust í þetta stórvirki sem olli öllum þessum deilum, treystu sér til að eyðileggja náttúru sem engan veginn verður búin til aftur með sama hætti á sama stað, ætluðu að fylla Hálslón upp smám saman, að lokum alveg, einmitt þegar menn stóðu á þessum þröskuldi, þessu mikla orkuævintýri sem djúpborunin gæti verið? Og með uppfyllingu Hálslóns á næstu árum má búast við miklu foki af aur og reyki yfir þann fjölda Austfirðinga sem bætast við og þar verður kannski ekki eins glatt líf og menn gerðu ráð fyrir.

Þegar ég var að rannsaka þetta í haust komst ég að því að menn gera ráð fyrir þremur tilraunaholum og tímabilið sem reiknað er með í núverandi áætlun er að þær verða fullkannaðar árið 2020. Fyrsta holan gæti þó skilað árangri strax, eftir 2–3 ár hugsanlega, og það er í raun og veru það sem menn bíða eftir. Menn eru að bíða eftir staðfestingu á árangri til að sanna það sem enn þá er kenning, að þetta sé hægt. Það er auðvitað ýmislegt sem stendur hér í vegi og ýmis mælitæki og viðkvæmir hlutar í borun eru þannig að ekki er hægt að kaupa þá út úr búð, tæki sem á að nota í umhverfi sem er 400–600°. Menn eru auðvitað að prófa sig áfram með það líka. Í raun og veru gengur þetta verkefni út á það að komin er kenning sem talin er sennileg og hana þarf að sanna og um leið og hún sannast, um leið og vatnið kemur upp og hægt er að vinna það þá er í raun og veru hægt að fara af stað með næsta skref sem er vinnsluáætlun.

Með meira fjármagni er auðvitað hægt að flýta fyrir þessu þannig að jafnvel yrði sýnt um árangur kannski eftir þrjú ár, fimm ár, sjö ár. Því var ég að hrósa hæstv. iðnaðarráðherra að hún lagði fram fé sem á vantaði og er opin fyrir þessu verkefni, skilur hversu mikilvægt það getur orðið. Þetta verkefni sem er sprottið upp á Orkustofnun og á ÍSOR er rekið af íslensku orkufyrirtækjunum, og eiga þau heiður skilinn fyrir það, en nýtur líka styrkja frá erlendum rannsóknasjóðum. Við hljótum að gera allt til þess — ég er með tillögu um það á þinginu, sem ekki er enn komin í umræðu og er kannski aðeins að laumast til að stela úr greinargerð hennar í þessari ræðu, ég vona að menn fyrirgefi mér það — við hljótum auðvitað í sameiningu að gera allt til þess að fá skorið úr um það hvort þetta djúpborunarverkefni stenst til að vita hverju það getur breytt fyrir framtíð í orkumálum, virkjunarmálum og almennum umhverfismálum á Íslandi.

Ef það gengur upp sem ég út af fyrir sig efa ekki, ég held að það sé bara spurning um tíma en ég er auðvitað ekki fræðimaður í þessari grein, þá munu þessar rannsóknir, þessar niðurstöður gjörbreyta í einu vetfangi stöðunni í íslenskum orkumálum og þær mundu til frambúðar hugsanlega geta skapað samstöðu um forgangsröð við virkjun og verndun og aðra nýtingarkosti, samstöðu sem nú er ekki í sjónmáli. Af þessum ástæðum er því rétt að ganga fram af varúð og skyggnast um áður en menn stíga afdrifarík ný skref í orku- og virkjunarmálum okkar Íslendinga.

Það má kannski bæta við þetta tal um djúpborunarverkefnið að í fyrsta áfanga rammaáætlunarinnar sem ég talaði um áðan, okkar eigin rammaáætlunar, þá falla 12 kostir í þann umhverfisflokk þar sem skaðinn er talinn allra minnstur af jarðvarmavirkjunum. Og sé miðað við að þær jarðvarmavirkjanir fari af stað, þetta er spurning um áætlanir um virkjanir, ekki þær sem þegar eru komnar í gagnið, með hefðbundnum aðferðum og meðalorkuframleiðsla sé um 840 gígavattstundir á ári, sem er algeng tala í mati manna á jarðvarmavirkjunum, þá yrði ársframleiðslan 10.080 gígavattstundir. Ef við gerum ráð fyrir fimmföldun þessarar framleiðslu með djúpborunum þá gætu unnist úr þessum 12 jarðvarmavirkjunum 50.400 gígavattstundir. Ég er ekki að biðja menn að hafa það á hreinu hver gígavattstundin er, hve mikil stærð það er, en ég bið menn að bera saman 12 jarðvarmavirkjanir þar sem með einni tækni má fá rúmlega 10 þúsund gígavattstundir og með annarri tæplega 51 þúsund gígavattstundir. Þetta eru upplýsingar eftir vísindamönnum úr bæklingnum Ísland örum skorið, sem menn þekkja hér á þinginu frá í vor. Þessar 50.400 gígavattstundir eru svo mikil orka að hún er þreföld áætlun heildarframleiðslu raforku á Íslandi árið 2007 og þá gerum við ráð fyrir að árið 2007 sé Kárahnjúkavirkjun komin í gagnið og öðrum virkjunum sem nú eru í smíðum sé lokið.

Ég held að við þetta tækifæri verði líka að fara aðeins yfir það sem ég nefndi síðast, þ.e. hvað er hér í gangi, því það er auðvitað eitt af því sem við þurfum að hafa í huga þegar kemur að þessu ágæta frumvarpi til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu þar sem ráðherra ætlar sér að fá rétt til að veita rannsakendum vilyrði til nýtingar. Þó er rétt að nefna að raforkuvinnsla í vatnsaflsvirkjunum í fyrra, árið 2004, nam 7.131 gígavattstund og í jarðvarmavirkjunum 1.483 gígavattstundum. Menn taka eftir hvað hlutfalllið er vatnsaflsvirkjununum í hag, það er sem sé 7.000 og 1.400, annars vegar vatnsaflið og hins vegar jarðvarminn. Samtals eru þetta 8.614 gígavattstundir. Uppsett afl í þessum virkjunum er mælt í vöttum en ekki vattstundum og það er samtals 1.357 megavött og þar er vatnsaflið auðvitað miklu sterkara eins og í hinni mælingunni, vatnsaflið með 1.155 megavött en jarðhitinn 202. Nefna má að rúmlega 63% af þessari orku allri fara til stóriðju, um 5.500, en 37% til annarra atvinnugreina, heimila o.s.frv. Þetta er staðan nú.

Hér er ekki reiknað með þeim fjórum stóru orkuverum sem í smíðum eru, vatnsaflsverinu sem kennt er við Kárahnjúka og síðan þremur jarðvarmaverum; á Nesjavöllum sem verið er að stækka, á Hellisheiði sem ég fór nokkrum orðum um áðan og við Reykjanes, þ.e. hið raunverulega Reykjanes sem er vestast þeim skaga stórum sem við stundum köllum Reykjanesskaga. Áætlað afl, orkuvinnslugeta og verklok í þessum fjórum virkjunum eru sem hér segir:

Á Nesjavöllum er uppsett afl 30 megavött, orkuvinnslugetan er 240 gígavattstundir og verklokin áttu að vera fyrir árslok 2005. Á Reykjanesi eða við Reykjanes er kannski réttara að orða það — hér kinka Suðurnesjamenn kolli — er uppsett afl 100 megavött, orkuvinnslugetan er 800 gígavattstundir og verklok eru áætluð í upphafi næsta árs, 2006. Hellisheiði, sem ég nefndi áðan, virkjunin þar á að hafa af uppsettu afli 80 megavött, orkuvinnslugetan er 640 gígavattstundir og verkinu á að ljúka haustið 2006. Kárahnjúkavirkjun, hin fræga, hefur uppsett afl 690 megavött, og er náttúrlega hinn mikli risi í þessum söfnuði, orkuvinnslugetan er 4.600 gígavattstundir og verklokin eru eins og menn vita vorið 2007. Samtals er þarna um að ræða 900 megavött og 6.280 gígavattstundir á ári. Þessi raforka á öll að fara til stóriðju nema frá Nesjavallasvæðinu. Verður þess þó að geta að aðeins er samningur til fimm ára um stóriðjunot af um fimmtungi orku væntanlegrar Reykjanesvirkjunar hvað sem verður í framtíðinni. Menn reikna nú held ég með því að það verði líka fyrir stóriðju.

Þegar þessar fjórar virkjanir eru komnar í gang verður raforkuvinnsla í vatnsaflsvirkjunum hérlendis, ef þessar tölur standast allar, um 11.731 gígavattstund og í jarðvarmavirkjunum 3.163 gígavattstundir, samtals 14.894 gígavattstundir. Aukningin á uppsettu afli miðað við það sem nú er er tæp 73%. Það bætast sem sagt við frá því sem nú er 73% með þessum fjórum virkjunum. Uppsett afl í vatnsaflsvirkjununum er 1.845 megavött en 412 í jarðvarmavirkjunum, samtals 2.257 megavött. Aukningin á áætlaðri orkuvinnslugetu, annars vegar er uppsetta aflið, hins vegar er orkuvinnslugetan, er rúm 66%. Við erum því á næstu árum að tala um gerbreytt landslag, eins og menn gera sér grein fyrir, í orkuvinnslu á Íslandi. Með því verður auðvitað að reikna þegar við fjöllum um framtíð í orkumálum eins og við erum að gera í umræðunni um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem hafa það að meginmarkmiði að gefa hæstv. iðnaðarráðherra heimild til að veita vilyrði þeim sem rannsaka virkjunarkosti til að geta nýtt þá.

Síðan er svolítið snúið að litast um á því svæði sem fram undan er og reyna að gera sér grein fyrir hvað kann að vera að gerast á næstu árum vegna þess að nýjar hugmyndir koma fram nánast, ég segi nú ekki í hverri viku, en maður heyrir nýjar hugmyndir á nokkurra mánaða fresti og ýmislegt af því t.d. sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi áðan var mér annaðhvort ókunnugt eða óljóst áður en ég heyrði hann nefna það. En þegar ég fór yfir þetta í haust fann ég út að virkjunarleyfi sem þegar hafa verið veitt til framkvæmda sem ekki eru komnar af stað eru við Búðarhálsvirkjun til Landsvirkjunar. Þar er reyndar komin brú, byrjunin á Búðarhálsvirkjun er mikil brú á Sprengisandsleið og hefur ekki verið reist á Íslandi, held ég, önnur eins brú yfir vatnsfall til einskis síðan Jónas frá Hriflu lét smíða brýr í gamla daga, en hann var svo framsýnn að hann lét oft smíða brýr þar sem ekki voru vegir fyrir. Það er mér í æskuminni þegar við ókum, á Halldórsstöðum í Kinn, í gamla Willys-jeppanum norður Kinnardal og komum að brú fyrir utan Ystafell. Þar var bíllinn stöðvaður og Þórhallur bóndi benti stoltur út um gluggann á brúna sem þar liggur yfir Skjálfandafljót og sagði: „Þetta byggði Jónas“. Og bætti svo við: „En það var hvorki vegur að henni hérna megin né hinum megin.“ Þetta er sem sé dæmi um framsýna stjórnmálamenn. Landsvirkjun hefur nú tekið upp þessa hætti Jónasar, það er að vísu vegur að henni öðrum megin en ekki hinum megin. Þetta er ekki sagt Landsvirkjun til lasts, þeir ganga vel frá sínum málum þegar þeir fara yfir og það er auðvitað byrjunin á því að koma á virkjun að komast að henni og þá þurfa menn að fara yfir fljótið á brú.

Það er líka annað virkjunarleyfi við Norðlingaölduveitu eins og við vitum. Sú virkjun á að vera að orkuvinnslugetu 570 gígavattstundir en Búðarhálsvirkjun um 630 gígavattstundir. (Gripið fram í.) Já, svo er það spurning. Búðarhálsvirkjun verður sennilega reist og engin eða ekki mikil andmæli í sjálfu sér gegn því en um Norðlingaölduveitu er miklu meiri vafi. Ég er reyndar einn af þeim sem vona að ekki verði af þeirri veitu vegna þess að hún stangast mjög á við nútímasjónarmið í umhverfismálum og er þar að auki í andstöðu við vilja sveitarstjórna á svæðinu. En um árið var skipulagsvaldið á hálendinu sett í hendur sveitarstjórnunum og voru töluverðar deilur um það en nú virðast ráðherrar vera á báðum áttum um hvort þeir í raun og veru treysta sveitarstjórnunum til að hafa með höndum ákvörðunarvald í þessum efnum þegar því ákvörðunarvaldi er beitt á annan hátt en ráðherrunum sýnist heppilegast.

Þá er því við að bæta að ráðherra hefur ekki nýtt gamla heimild frá Alþingi til að veita leyfi til framkvæmda við Villinganes í Skagafirði. Þar er spurningin um allt að 40 megavatta uppsettu afli og það er líka eins og við vitum virkjun sem er mjög háð óvissu. Ég hef komið þangað reyndar og skoðað þar, ég var keyrður þangað inn eftir einu sinni og fékk að skoða umhverfið þar. Ég hef kannski ekki farið mjög vendilega ofan í þau mál en ég verð að segja að viðbrögð mín voru ekki eins og umhverfisráðherrans síðasta, hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur við Kárahnjúka, heldur voru þau þannig að verulega mikið þyrfti að vera í veði til að eyðileggja þá náttúru sem þarna er hrikaleg og skemmtileg inni á hinum lygna Skagafirði.

Síðan hefur ráðherra ekki heldur nýtt gamla heimild til að veita leyfi til nýframkvæmda við Kröflu, eða hafði ekki þegar ég rannsakaði þetta rétt fyrir þingupphaf í haust, en það er mjög sennilegt að af þeirri virkjun verði, uppsett afl á þar að verða 40 megavött.

Virkjanir sem nú eru á undirbúningsstigi, rannsóknarstigi eða einhvers konar umræðustigi öðru en hugarflugs eru þessar helstar að því er ég fann þegar ég var að athuga þetta. Það eru hinar ágætu tvær rennslisvirkjanir neðarlega í Þjórsá sem kenndar eru við Núp og Urriðafoss. Önnur gæti verið að orkuvinnslugetu 1.030 gígavattstundir og hin 920 gígavattstundir. Þá ber að nefna að í stað Núpsvirkjunar hafa líka verið uppi hugmyndir um tvær smærri virkjanir sem eru kallaðar Holta- og Hvammsvirkjun. Þetta er ekki alveg deilulaust, ekki deilulaus áform um þær virkjanir. Ég hygg þó að af mörgum virkjunarkostum sem nú eru uppi séu þessar virkjanir að því leyti sjálfsagðari en aðrar að þær eru í Þjórsá, sem er vinnukona okkar mikil, sú ágæta á. Má kannski segja að þegar hafin er nýting ár, eins og er með Þjórsá, sé skynsamlegt að klára að nýta allan mátt hennar a.m.k. áður en farið er í aðrar ár sem ósnortnar eru. En ég skal ekki taka afstöðu til þess í þessari ræðu. Ég kannast við að þarna er náttúra sem glatast og aldrei verður heimt aftur. En ég tel að þetta sé a.m.k. sjónarmið í forgangsröðun virkjana að líta á hvernig stendur á með ána ofar eða neðar. (Gripið fram í: Hefði iðnaðarráðherra ekki gott af því að vera hérna við umræðuna?)

Ég geri ráð fyrir að iðnaðarráðherra hljóti að vera í grenndinni og fyrir framan sjónvarp að horfa á þingmenn ræða saman. Hlýtur það ekki að teljast rökrétt niðurstaða, forseti?

(Forseti (BÁ): Forseti getur upplýst að hæstv. iðnaðarráðherra er í húsinu og forseti væntir þess að ráðherrann fylgist með umræðum hér í þingsalnum.)

Ég tek undir með forseta með þetta, ég vænti þess líka og geri fullkomlega ráð fyrir því.

Þá má nefna stækkun Hellisheiðarvirkjunar um 40 megavött. Sú stækkun var með í því dæmi sem ég nefndi áðan þegar ég bar hana saman við Kárahnjúka. Ég set örlítinn fyrirvara samt á þann samanburð en ég hygg að það sé mjög nærri lagi.

Þá hefur Hitaveita Suðurnesja áætlanir um aukna raforkuframleiðslu í Svartsengi. Þar er verið að tala um 30 megavatta uppsett afl. Undirbúningur jarðvarmavirkjunar í Bjarnarflagi er langt kominn og einnig hefur verið veitt leyfi til rannsókna vegna jarðhitavirkjunar á Þeistareykjum. Við tökum eftir á þessari upptalningu að menn eru mjög spenntir fyrir jarðhita- eða jarðvarmavirkjunum víða um land og má ítreka að rétt er að menn fari ekki of hratt í því vegna þeirrar tækni sem kynni að bjóðast okkur á næstu áratugum eða jafnvel árum. Tvö orkufyrirtæki hafa sýnt áhuga á virkjun í Skjálfandafljóti. Áhugi er á Skatastaðavirkjun á Hofsafrétti upp af Skagafirði. Hún hefur verið sögð á frumhönnunarstigi en hefur ekki verið veitt neitt virkjunarleyfi þar.

Landsvirkjun hefur enn ekki gefist upp á áformum sínum um að hækka stífluna efst í Laxárgljúfri. Því miður hefur Landsvirkjun ekki gert það. Ég verð að telja Landsvirkjun mjög til lasts að geta ekki mannað sig upp í að gefast upp í því máli. Segja má að ákveðinn sigur hafi unnist í því af hálfu umhverfisverndarmanna og Þingeyinga í fyrra þegar stöðvaðist hér frumvarp frá þáverandi umhverfisráðherra um að leyfa þessa hækkun þvert á vilja flestra heimamanna og náttúruverndarmanna í landinu.

Við Kröflu er nýtt vinnslusvæði í athugun og til athugunar er líka jarðvarmavirkjun í Gjástykki. Hitaveita Suðurnesja hefur hafið rannsóknir á Trölladyngju, hvað sem um þær verður. Landsvirkjun hefur sýnt áhuga á hágöngusvæði sunnan Vonarskarðs. Orkufyrirtæki hafa líka sýnt Brennisteinsfjöllum áhuga og sótt þar um rannsóknarleyfi auk þeirra smærri virkjana sem ýmis fyrirtæki eru að huga að um allt land. Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi t.d. að Orkubú Vestfjarða væri að vinna að Tungudalsvirkjun í Skutulsfirði.

Enn er eitt eftir á mínu blaði sem er Skaftárveita, sem Landsvirkjun er að athuga, en hún hefði þær afleiðingar að einhver mesta náttúruperla á suðuröræfum eins og menn eru farnir að kalla óbyggðirnar og hið mikla svæði austan og norðan Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls, þ.e. Langasjó. Um það svæði er að opnast mikil ferðamennska og ég hygg að ef fer sem horfir, ef það verður ekki eyðilagt, þá verði hjarta þess Langisjór og margir möguleikar uppi í ferðamennsku og náttúruupplifun á því sérkennilega svæði, sem hefur að mér skilst vakið mikinn áhuga útlendinga sem eru búnir að fara þennan fyrsta og annan hring, þegar þeir koma þarna þá opnast í rauninni alveg nýtt svæði. Allt þetta mikla hálendi, það er ekki beinlínis hrikaleikinn þarna heldur fjölbreytnin og mergðin af hæðum og fjöllum sem þarna er og síðan þessi tenging við jökulinn og við jarðsöguna sem Langisjór sér til þegar þangað er komið og síðan ef þeir fara þar í suður koma þeir í Markarfljót og á það svæði. Ég held því að það væri ákaflega óhyggilegt að halda áfram með þessar hugmyndir um Skaftárveitu.

Þessi upptalning sýnir í fyrsta lagi hvaða breytingar við erum að fara í gegnum á þessum árum, þessi gríðarlega aukning á orkuvinnslugetu okkar og orkuframleiðslu sem væntanleg er fram á vorið 2007. Hún sýnir líka örlitla mynd af þeirri ásókn sem núna er í nýjar virkjanir, bæði jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir. Ég verð að segja að ég öfunda ekki iðnaðarráðherra af því þegar hún þarf að eiga við þrýsting um að veita vilyrði fyrir nýtingarleyfi, þeim sem nú knýja á um að fá að rannsaka svæðið til vatnsaflsvirkjunar.

Ég hét því hér að festa í Alþingistíðindi þetta plagg frá Þorkatli Helgasyni orkumálastjóra, Sveinbirni Björnssyni, sem þá var deildarstjóri auðlindadeildar í Orkustofnun og Árna Bragasyni, sem þá var forstjóri Náttúruverndar ríkisins. Ég hyggst að betur athuguðu máli láta það bíða til síðari ræðu minnar því að hér eru þingmenn orðnir nokkuð langeygir eftir að komast að í stólnum og ræða um frumvarpið sem liggur fyrir

Ég vil að lokum þessarar fyrri ræðu segja að ég tel að frumvarpinu eigi að breyta með þeim tillögum sem minni hluti iðnaðarnefndar leggur til þannig að við nýtum þann kost sem í því er sem felst, eins og ég sagði í upphafi eftir inngang ræðu minnar, í 3. gr. en hafna þeim megintilgangi frumvarpsflytjandans að reyna að kría út það vilyrði að tengja saman nýtingu og rannsóknir. Vilji minn, sem kemur fram í þeirri þingsályktunartillögu sem ég hef lagt fram og flyt ásamt þremur öðrum samfylkingarmönnum, er sá í raun og veru að við stöldrum við í þessum virkjunaráformum öllum saman, reynum að klára rammaáætlunina okkar, reynum að gefa henni ákveðið lagagildi og sjá til hvernig við ætlum að vinna okkur áfram í þessu, að við gefum djúpborunarverkefninu, hinu djarfa djúpborunarverkefni möguleika á að sanna sig áður en við tökum ákvarðanir sem verða þvert á þá möguleika sem í því felast og að við komum saman þessari pólitísku nefnd sem kanni framtíð í orkumálum og virkjanamálum. Menn eru stundum hræddir við að pólitíkusar eða fulltrúar stjórnmálaflokkanna komi saman og stundum hefur það endað hörmulega og stundum er það þannig að því verr gefast heimskra manna ráð sem þeir koma fleiri saman.

En við höfum líka dæmi um annað. Við höfum líka dæmi um prýðilegt starf sem unnið er af alvöru, þrótti og djúpri íhugun. Það höfum við t.d. séð í auðlindanefndinni. Ber að harma að álit hennar hafi ekki valdið meiri breytingum á lögum, það skuli ekki hafa haft meiri áhrif á umræður, sérstaklega ráðherra og stjórnarliðs en raun ber vitni. Það er af þeim sökum sem ég tel að við eigum að hrinda þeirri tilraun sem hér er gerð til að ýta sér of snemma áfram í þessu. Ég sé í raun engin rök til þess af hálfu iðnaðarráðherra nema þau að hún ætli sér að halda áfram fyrirgreiðslupólitík og láta í pólitísku skyni undan ýmsum héraðshagsmunum og hagsmunum stórfyrirtækja og halda áfram þeirri pólitík núverandi ríkisstjórnar að skipta á milli sín úthlutun almannagæða eftir pólitískum línum.

Forseti. Ég læt lokið fyrri ræðu minni um þetta efni en hlakka til að heyra aðra þingmenn taka þátt í umræðunni og skal ekki liggja á liði mínu við að svara þeim og halda áfram þeim hugleiðingum sem hér verða uppi hjá næstu mönnum.