132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[22:39]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þingmanni að við deilum ekki sömu lífssýn. En þó að ég sé að þrjóskast hér við og haldi að ekki sé öll nótt úti með hv. þingmann þá vil ég bara segja þetta: Já, virðulegi forseti, mér finnst að við ættum að skammast okkar fyrir að eyða náttúruauðlindunum okkar, sem eru einstæðar á heimsvísu, til þess eins að framleiða úr þeim raforku sem seld er á útsöluverði til erlendra auðhringa eins og Alcoa sem framleiðir í hluti fyrir hergagnaiðnað hér á landi. Mér finnst að við ættum að skammast okkar fyrir það. Og ég skammast mín ekkert fyrir að standa hér og segja það. Ég er þannig innréttuð, þetta er hluti af minni lífssýn og þannig er mér innan brjósts. Og ég vildi satt að segja óska að það væri þannig með hv. þingmann en svo er greinilega ekki. Ergo, virðulegi forseti: Við deilum ekki sömu lífssýn. Það kann að breytast. (Gripið fram í.)

Varðandi hins vegar aðkomu stofnana umhverfisráðuneytisins að rannsóknarleyfum í vatnsaflinu þá er það alveg rétt sem hv. þingmaður segir að þessar stofnanir hafa ekki haft aðkomu að rannsóknarleyfum í vatnsafli hingað til. En þegar það er sett inn í þessi lög er það náttúrlega svo sjálfsagt mál að það sama gildi um rannsóknarleyfi í vatnsafli og hefur gilt um rannsóknarleyfi í jarðvarma að ég segi, þakka skyldi nú, það er ekkert til að stæra sig af.